Ég byrjaði ung í stjórnmálum í Hafnarfirði. Í fyrstu virtist það skýr stefna í lífinu, eitthvað til þess að stefna að, tækifærið til þess að bæta samfélagið, leggja sitt á vogarskálarnar var ómetanlegt. Verkefnið var göfugt, hvernig sem á það var litið. Þetta voru róstursöm ár, uppfullt af ótrúlegu fólki og ekki síst miklum átökum. Ég lifði af hrunið og fylgdist með samfélaginu hvellspringa með allsherjarfalli bankanna, og kannski var kominn tími til. Átökin stigmögnuðust í þjóðfélaginu öllu og áður en ég vissi var ég komin inn á þing sem varaþingmaður á sama tíma og IceSave var alltumlykjandi í samfélaginu öllu. Ég var nægilega skynsöm til þess að staldra við og spyrja mig sjálfrar einfaldrar spurningar; ætla ég að eyða ævinni í þetta?
Snert af ofsóknarbrjálæði
Allt lífið var fram undan, ég var búin að eignast barn í miðjum útidyrunum og með misheppnaðan feril sem barnastjarna að baki. Ég tók þá ákvörðun að hafna því að gera stjórnmálin að ævistarfi mínu. Þetta var orðið ágætt. Það hlaut að vera eitthvað meira við þetta allt saman. Á stundum fannst mér eins og ég væri að kafna. Ég var komin með snert af ofsóknarbrjálæði og tími kominn til þess að endurstilla tilveruna.

Það er ekki ofsögum sagt að ég var í hálfgerðu tjóni fyrstu árin eftir að ég steig út úr heimi stjórnmálanna. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera, ég var enn brennd eftir mjög harða pólitík. Öll samskipti mín endurspegluðu þetta, ég var ávallt með annað augað á fólki, því þegar maður var í stjórnmálunum, voru það ekki aðeins hnífarnir sem stóðu úr breiðu bakinu, heldur heilu sverðin. Ég þurfti að vinda ofan af þessari hegðun og endurskoða hvernig ég horfði á heiminn. Síðar gerði ég mér grein fyrir því að fólk rétt svo nennir að spjalla um pólitík í kaffitímanum svo fer fólk bara út í samfélagið að gera eitthvað allt annað. Þegar maður gerði sér grein fyrir því að það var takmarkaður áhugi á stjórnmálum, að það var enginn undirliggjandi leikur í gangi, fannst manni svolítið eins og maður gæti dregið andann á ný.
Skýrleiki jökulsins
West Wing er ekki jafn víða og maður heldur, og margur heldur mig sig og það allt saman. Ég hugsaði síðar að kannski hefði það verið ágætt fyrir mann að fara í einhverja þerapíu, en ég hafði varla efni á því að fara til sálfræðings. Þannig ég fann nokkuð betra. Hálendið og jökla landsins.
Það hefur alltaf reynst mér best, sama hversu harðir stormar geisa í manns eigin lífi, að príla upp á jökul til þess að hreinsa hugann er ómetanlegt. Á meðan ég vann við jöklaferðir fann maður hvernig allur ágreiningur og samkeppni var lagður til hliðar á milli fyrirtækja, sem skildu hættur náttúrunnar, raunverulegar hættur. Það stóðu allir saman, og maður áttaði sig á því að náttúran væri ekki síst það sem sameinar okkur öll.
Á sama tíma hugsa ég með hlýhug til tímans sem ég eyddi í stjórnmálum, til fólksins sem ég kynntist og því sem við komum í verk. Ég er að klára mína fjórðu háskólagráðu, samt jafnast engin þeirra á við þennan tíma sem ég var í stjórnmálum. Það var drulluerfitt að breyta um kúrs, en stóri lærdómurinn er tvímælalaust sá að það er ekkert eitt sem skilgreinir manneskjuna. Ég lagði mikið á mig til þess beinlínis að endurforrita algjörlega hver ég er, hvernig ég hugsa og hvernig ég sé heiminn. Ég bý enn þá vel að tengslanetinu sem ég kom upp á þessum árum og á enn mína bestu vini frá þessum tíma.
Enginn er eitt
Það var hollt að leita aftur í ræturnar, út kom heilsteyptari útgáfa af mér sjálfri, fyrir það er ég þakklát. Mér finnst enn þá dásamlegt að hitta krakka í lýðháskólanum hér á Flateyri sem vita ekkert hver ég er. Ég er bara einhver klikkuð miðaldra kerling í þeirra augum. Stundum koma augnablik þó sem mann langar að öskra á fréttirnar og steypa sér aftur í stríðið, skipta um ham og umbreytast í pólitíska dýrið. En svo man maður eftir fundunum sem fylgdu þessu öllu saman.

Lokaniðurstaðan er sú, að við erum ekki eitthvað eitt, heldur svo margt meira. Og það er það sem mér þykir vænt um í íslensku samfélagi, þar er enn að finna svigrúmið til þess að vera sá sem þú vilt. Að skipta um skoðun, umturna stefnu lífsins og horfa bjartsýn til framtíðar. Að halda sig við sitt, eða breyta alfarið um kúrs.
Á þannig tímum hjálpar það að vera hluti af dásamlegu samfélagi eins og Flateyri. Og þó það séu ekki margir jöklar í nágrenninu, er hafið allt fyrir sjónum, hyldjúpt og dimmblátt, uppfullt af leyndardómum eins og veröldin sjálf. Það er fátt sem jafnast á við það þegar maður fer út að ganga með hundinn, umlukinn krafti og tærleika náttúrunnar. Þar sem nýjar áætlanir fæðast.


























































Athugasemdir