Deildar meiningar hafa verið í viðbrögðum fólks á samfélagsmiðlum í dag við myndbandi af hjólreiðamanni sem ræðst með höggum á bifreið, eftir að ökumaðurinn hafði, að því er virðist, meðvitað keyrt hjólreiðamanninn inn í snjóruðning.
Myndbandið hefur gengið um samfélagsmiðla í dag. Svo virðist sem hjólreiðamaðurinn hafi átt sér þann eina kost að hjóla eftir götunni milli snjóruðninga við hringtorg sem liggur að Spönginni í Grafarvogi, þar sem snjó er rutt af götum upp á gangstéttir.
Maðurinn hjólaði við hlið tvinnbifreiðar af tegundinni Toyota Hybrid, sem þrengdi að honum í akstri sínum að hringtorginu. Svo virðist sem ökumaðurinn hafi reiðst hjólreiðamanninum og ákveðið að keyra hann út í kant. Hjólreiðamaðurinn reiddist á móti og barði á bifreiðinni.
Í umræðu í Facebook-hópnum „Fávitar í umferðinni“ eru bæði hjólreiðamaðurinn og ökumaður bifreiðarinnar gagnrýndir, en af myndbandinu virðist ljóst að ökumaður bifreiðarinnar hafi lagt hjólreiðamanninn í hættu með því að keyra utan í hann. Flestir gagnrýna sérstaklega bílstjórann og vísað er í reglur sem kveða á um að bifreið skal ekið minnst einum og hálfum metra frá hlið reiðhjóls á akvegum:
„Maður á nokkura tonna tæki reynir að keyra á einstakling sem var greinilega á undan honum í umferðinni,“ skrifar einn þeirra. „Hér virðist vísvitandi ekið á hjólandi mann,“ skrifar annar og merkir Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. „Ökumenn bifreiða eiga að vera að lágmarki 1,5 m frá hjólreiðamanni þegar tekið er framúr. Þessi bílstjóri er eitthvað að misskilja umferðarreglurnar,“ segir þriðji. Þá óska fleiri eftir að lögreglan athugi málið.
Margir gagnrýna hins vegar hjólreiðamanninn. „Þessi á hjólinu ekki alveg í jafnvægi.“ segir einn þeirra. „Hví í andskotanum er maðurinn að hjóla í þessari færð og halda öðrum í gíslingu? Þetta er gata fyrir bíla,“ skrifar annar.
Sumir leggja áherslu á samkennd og aðstoð. „Datt engum í hug að aðstoða manninn?“ spyr ein konan. „Það er ekki enn búið ryðja göngustíga, skil alveg að hjólreiðamaðurinn var á götunni,“ skrifar annar.
Annað fólk sem tekur þátt í umræðunni lýsir undrun sinni. „Hvað er að frétta, hjólreiðamenn eru líka vegfarendur. Það á ekki að keyra þá niður, galið rugl,“ skrifar maður nokkur.
Loks bregst einn þátttakandinn í umræðunni við með því að ávarpa einfaldlega sjónvarpsmanninn Gísla Martein Baldursson, sem er fyrrverandi borgarfulltrúi og þótti gæta hagsmuna hjólreiðafólks í aðkomu sinni að borgarmálum.
















































Athugasemdir