Ég vaknaði í októberrökkrinu á kvennafrídaginn og hlustaði á napran vind og rigningu fyrir utan svefnherbergisgluggann. Óheppilegt veðurfar á þessum sögulega degi. Ég staulaðist úr rúminu og kíkti á fréttirnar yfir hlandvolgum tebolla. Þar sá ég að 61 prósent karla telja kynjajafnrétti náð. Ég þurfti kannski ekki að leggja niður störf eftir allt saman. Óþarfi að standa úti í vondu veðri að berjast fyrir réttindum sem ég hefði nú þegar.
Þar að auki stendur yfir kvennaár og konur og kvár hafa komið á framfæri kröfum til yfirvalda. Það hefur eflaust gengið svo vel fyrri hluta árs að kynjajafnrétti var komið í höfn á haustmánuðunum.
Svo hefur Ísland trónað á toppi heimslista Alþjóðaefnahagsráðsins í kynjajafnrétti í áraraðir og hélt titlinum í ár. Ef það öskrar ekki að kynjajafnrétti sé náð þá veit ég ekki hvað.
Vinkona mín sagði einu sinni við félaga sinn að það væri vissulega minnstur launamunur á Íslandi á alþjóðavísu en að baráttunni væri ólokið. Hann gat ekki betur séð en að árangurinn væri kynjajafnrétti holdi klætt.
Í september birti Hagstofa Íslands tölur um óleiðréttan launamun fyrir árið 2024. Hann var 10,4 prósent en 9,3 prósent ári áður. Lítil og krúttleg hækkun.
Þar að auki er leiðréttur launamunur aðeins 3,6 prósent. Hann er kannski ekki núll prósent og konur vinna frekar ólaunaða vinnu en karlar. En þetta er samt mjög lág prósenta. Jafnvel þess virði að námunda niður og segja launajafnrétti náð.
Munur á atvinnutekjum er 21 prósent og eru helstu ástæðurnar kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum segir á vef Kvennaárs. Þetta er reyndar aðeins hærri prósenta og erfiðara að námunda niður í kynjajafnrétti.
Um fjörutíu prósent kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni segir líka á vef Kvennaárs. Það er há prósenta. Ef ég staldra við töluna, fallast mér raunar hendur.
Árið 2024 voru 83,2 prósent þeirra sem leituðu til Stígamóta konur, tæp tvö prósent kynsegin og fimmtán prósent karlar. 21,4 prósent þolendanna höfðu gert sjálfsvígstilraun. Kynjajafnrétti er upp á líf og dauða.
Vegna ofangreindra staðreynda og milljón annarra mætti ég á Arnarhól ásamt tugum þúsunda sem vita og upplifa á eigin skinni að kynjajafnrétti er ekki náð. Þó að 61 prósent karla haldi það. Dætur með mæðrum sínum og ömmum, vinahópar, pör og starfsfélagar sungu, kölluðu og deildu reynslusögum.
Það hafði stytt upp og á meðan útifundi stóð lægði vindinn. Yfir tárvotar kinnar og tindrandi bros skein vetrarsólin. Ég lokaði augunum, fann ylinn í andlitinu og óskaði þess að þessi 61 prósent karla hefðu brátt rétt fyrir sér. Ég held með þeim.






















































Athugasemdir