Tæplega helmingur starfsfólks hjá embætti Ríkisendurskoðanda hafði orðið vitni að „einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti eða ofbeldi“ á vinnustaðnum, samkvæmt áhættumati stofnunarinnar í fyrra, og 11% höfðu orðið fyrir því. Þetta kemur fram í umfjöllun Ríkisútvarpsins, þar sem vitnað er til þess að starfsfólk lýsi „ófremdarástandi“.
Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi og yfirmaður stofnunarinnar, er sjálfur sagður miðja umkvartana starfsfólks og hefur hann sett mannauðsmálin beint undir sig. Þrír af fimm sviðstjórum stofnunarinnar hafa verið í veikindaleyfi frá því í vor.
Guðmundur Björgvin hefur verið í embætti ríkisendurskoðanda frá því í júní 2022. Ríkisútvarpið greinir frá því að hann hafi verið vel liðinn innan stofnunarinnar, þar til hann tók við æðstu stöðu embættisins. Þá hafi „
Ríkistúvarpið vísar til tveggja heimildarmanna innan stofnunarinnar sem „lýsa ósæmilegri og á tíðum ógnandi hegðun ríkisendurskoðanda, „klefatali“ og markaleysi í hegðun.“
Fréttastofan hefur eftir þeim að „ríkisendurskoðandi eigi það til að refsa starfsfólki sem honum er í nöp við. Þeir saka Guðmund Björgvin um að leka trúnaðarupplýsingum starfsfólks og ítrekað láta falla niðrandi ummæli um starfsfólk.“
Ríkisútvarpið greinir frá því að áhættumat á vinnustaðnum í fyrra hafi sýnt að 41 prósent starfsmanna höfðu orðið vitni að „einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti eða ofbeldi“ í vinnunni og 11 prósent orðið sjálfir fyrir því.
Í frétt RÚV segir að mælingar hafi sýnt fallandi starfsánægju hjá Ríkisendurskoðanda. Í könnuninni Stofnun ársins fær stofnunin einkunnina 3,97 af 5 mögulegum fyrir matsþáttinn „stjórnun“ í fyrra, sem er þó langt frá því að vera versta einkunnin hjá ríkisstofnun á þeim mælikvarða. Á mælikvarða vinnuskilyrða fær stofnunin einkunnina 4,48, sem er sú 12. besta af öllum ríkisstofnunum í könnuninni. Þá fær stofnunin einkunnina 4,23 þegar kemur að starfsanda.
Þessar upplýsingar birtast á vef Sameykis um Stofnun ársins, en í umfjöllun Ríkisútvarpsins virðist vitnað til annarra talna og segir þar að ánægja með stjórnun hafi mælst 3,65 en ekki 3,97.
Guðmundur Björgvin segir í samtali við Ríkisútvarpið að hann hafi ráðist í skipulagsbreytingar hjá embættinu, sem hafi mælst misvel fyrir. Engar formlegar tilkynningar hafi komið fram um einelti.
Þannig vitnar RÚV í tölvupóst eins sviðstjóra sem er í veikindaleyfi, sem hann sendi til allra starfsmanna stofnunarinnar. Starfsmaðurinn lýsti því þar að hann hefði hafnað því að taka afstöðu til þess hvort hann tæki við breyttri stöðu. Þá hafi sviðsstjórar í framkvæmdastjórn farið fram á að utanaðkomandi aðili myndi gera áhættumat á stofnuninni, sem hún stóðst ekki á neinum af ellefu mælikvörðum.
Ríkisendurskoðandi er skipaður af Alþingi og er „sjálfstæður og engum háður í störfum sínum“, en armslengdin frá stjórnvöldum gerir um leið eftirlit og framfylgd gagnvart stofnuninni torsóttari. Þá gerir málið erfiðara að embætti Ríkisendurskoðanda hefur það hlutverk að gera stjórnsýsluúttektir.














































Athugasemdir (1)