Grundvallarmunur er á afstöðu karla og kvenna til þess hvort fullu jafnrétti kynjanna hafi verið náð. Aðeins 32 prósent kvenna samsinna því á meðan 61 prósent karla telja svo vera. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Gallup sem birt var í morgun.
Heilt yfir skiptist þjóðin í álíka stórar fylkingar í afstöðu sinni til spurningarinnar. Næri 47 prósent þjóðarinnar telja að fullu jafnrétti hafi verið náð á milli karla og kvenna. 44 prósent telja svo ekki vera og tæplega einn af hverjum tíu segist hvorki sammála né ósammála því að fullu jafnrétti sé náð.
Ekki er jafn afgerandi munur á aldurshópum og kynjum. Yngra fólk, undir þrítugu, eru þó aðeins líklegri til að telja fullu jafnrétti náð á milli karla og kvenna, en aðrir hópar. Litlu munar þó á þeim og þeim sem eru á aldrinum 30-59 ára.
Mikill meirihluti þeirra sem telja jafnrétti ekki hafa verið náð eru á því að það halli á konur frekar en karla í samfélaginu. Rúmlega 87 prósent telja að það halli á konur en tæplega 13 prósent telja að það halli á karla.
Athygli vekur að í niðurstöðum könnunarinnar telja 37 prósent kvenna undir þrítugu, sem telja jafnrétti ekki hafa verið náð, að það halli frekar á karla. Því eru aðeins tvö prósent kvenna yfir 29 ára sammála. 36 prósent 18-39 ára karla segja halla á karla í samfélaginu og 18 prósent karla á bilinu 40-59 ára.
Könnunin var gerð dagana 17. til 22. október 2025. Heildarúrtaksstærð var 1.688 og þátttökuhlutfall var 43,4 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup og var könnunin gerð í gegnum netið.











































Athugasemdir (1)