Fyrstu flugvellirnir á Grænlandi voru teknir í notkun árið 1941 og það var bandaríski herinn sem gerði þá, fyrst og fremst til eigin nota. Þessir vellir voru tveir, annar þeirra í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) en hinn í Narsarsuaq. Þessir tveir flugvellir gegndu mikilvægu hlutverki í síðari heimsstyrjöldinni, einkum þó sá fyrrnefndi. Flugbrautin í Kangerlussuaq var í upphafi 2800 metra löng og er enn sú lengsta á Grænlandi, til samanburðar má nefna að brautin í Narsarsuaq var 1800 metra löng. Bandaríski herinn hætti starfsemi sinni í Narsarsuaq árið 1958 en var með herstöð í Kangerlussuaq til ársins 1992, en afhentu þá grænlensku heimastjórninni flugvöllinn og það sem honum tilheyrði. Allt að 1400 bandarískir hermenn höfðu að jafnaði dvalist í Kangerlussuaq. Eins og áður var nefnt er flugbrautin í Kangerlussuaq 2800 metra löng og sú eina í landinu sem lengi vel fullnægði þeim lengdarkröfum sem gerðar eru varðandi flugtök og lendingar meðalstórra farþegavéla.
Aukin flugumferð og óhagræði
Kangerlussuaq er rúmlega 300 kílómetrum norðar en höfuðstaðurinn Nuuk. Í Nuuk býr um þriðjungur landsmanna, rétt um 20 þúsund, og þar er jafnframt miðstöð stjórnsýslunnar í landinu og þar hefur þingið aðsetur.
Í Nuuk var fyrst gerður flugvöllur, eða réttara sagt flugbraut, árið 1979. Brautin var í 86 metra hæð yfir sjávarmáli og aðeins 950 metra löng og því aðeins nothæf fyrir minni vélar. Árið 1979 sáu kannski fáir fyrir að innan fárra áratuga myndi áhugi almennings víða um heim á Grænlandi margfaldast. Flestir sem til Grænlands fara leggja leið sína til höfuðstaðarins Nuuk og allar stærri farþegavélar urðu að lenda í Kangerlussuaq, og þeir sem ætluðu til Nuuk þurftu þess vegna að skipta um farkost með tilheyrandi óhagræði, og kostnaði.
Miklar deilur og mikill kostnaður
Róm var ekki byggð á einum degi er stundum haft á orði þegar hægt gengur með framkvæmdir og ákvarðanir. Þau orð eiga sannarlega við varðandi flugvöllinn í Nuuk. Eftir margra ára deilur og umræður var, árið 2016, tekin ákvörðun um að gera Nuuk að miðstöð millilandaflugs á Grænlandi. Í þessari ákvörðun fólst að flugbrautin í Nuuk yrði lengd í 2200 metra og jafnframt skyldi byggð ný og glæsileg flugstöð. Margir þingmenn lýstu áhyggjum vegna kostnaðar, en gert var ráð fyrir að hann yrði um 2,5 milljarðar danskra króna (tæplega 50 milljarðar íslenskir) eða 44 þúsund dönskum krónum á hvern íbúa Grænlands. Margir lýstu líka áhyggjum vegna lengdar flugbrautarinnar og töldu 2200 metra braut einfaldlega of stutta en svæðið leyfir ekki lengri braut. Margar fleiri athugasemdir voru gerðar vegna þessarar miklu framkvæmdar og síðar átti eftir að koma í ljós að þær voru ekki ástæðulausar. Nýi flugvöllurinn í Nuuk, ásamt flugstöðinni, var tekinn í notkun 28. nóvember í fyrra með tilheyrandi ræðuhöldum og kampavíni.
Tveir aðrir flugvellir
Árið 2016 þegar ákveðið var að miðstöð millilandaflugs á Grænlandi skyldi vera í Nuuk voru jafnframt teknar ákvarðanir um tvo aðra flugvelli, annar þeirra í Ilulissat og hinn í Qaqortoq. Í Ilulissat var gömul 845 metra löng flugbraut sem ákveðið var að lengd skyldi í 2200 metra. Vinnu við sjálfa flugbrautina er nýlokið en ýmsu öðru ólokið. Öllum framkvæmdum í Ilulissat á að ljúka á næsta ári og þá verður flugvöllurinn formlega tekinn í notkun. Í Qaqortoq er vinna við flugvöllinn í fullum gangi, brautin þar verður 1500 metra löng en ýmsir úr hópi þingmanna vildu að brautin yrði lengri, að minnsta kosti 1800 metrar. Aðstæður eru þannig að hægt er að lengja flugbrautina síðar ef ákvörðun yrði tekin um slíkt. Eins og í Ilulissat á nýi flugvöllurinn í Qaqortoq, sem er sunnarlega á Grænlandi, að vera tilbúinn á næsta ári og þá verður flugvellinum í Narsarsuaq lokað.
Vonast eftir stórauknum straumi ferðamanna
Ferðamálayfirvöld á Grænlandi og í Danmörku hafa lagt mikla áherslu á að kynna Grænland sem ferðamannaland og varið miklum fjármunum í kynningar á landinu. Áhugi Bandaríkjaforseta og yfirlýsingar hans um nauðsyn þess að Grænland tilheyri Bandaríkjunum hefur ýtt undir þann áhuga. Á síðasta ári komu um það bil 140 þúsund ferðamenn til Grænlands en árið 2019 voru þeir um 100 þúsund. Grænlensk ferðamálayfirvöld vonast til að ferðamönnum sem leggja leið sína til landsins muni fjölga verulega á næstu árum ekki síst vegna tilkomu flugvallarins í Nuuk. Þær áhyggjur sem ýmsir höfðu lýst vegna ákvörðunar um að gera Nuuk að miðstöð millilandaflugs á Grænlandi hafa hins vegar ekki reynst ástæðulausar.
59 flugferðum aflýst
Þeir sem á sínum tíma gagnrýndu ákvörðunina um flugvöllinn í Nuuk nefndu sérstaklega veðurskilyrðin og legu flugbrautarinnar. Brautin er í 86 metra hæð yfir sjávarmáli og þoka og snjór og ís hafa valdið vandræðum. Á þessu ári, 2025, hefur 59 sinnum þurft að aflýsa flugi til Nuuk vegna veðurskilyrða. Að mati sérfræðinga, sem dagblaðið Politiken ræddi við, getur það haft alvarlegar afleiðingar að trekk í trekk þurfi að aflýsa flugi, slíkt spyrst út. Gistirými í Nuuk er takmarkað og margoft hafa strandaglópar orðið að hafast við í flugstöðinni yfir nótt eða jafnvel lengur. Ýmislegt fleira hefur valdið vandræðum, öryggiseftirlit á flugvellinum var ófullnægjandi og reglum um tímalengd milli lendinga og flugtaks var ekki fylgt. Sérfræðingar sem rætt var við sögðu að tæknilegum atriðum væri hægt að kippa í liðinn en annað mál væri veðurfarið, því breyti enginn.
Jacob Nitter Sørensen framkvæmdastjóri Air Greenland sem annast bæði innanlandsflug á Grænlandi og ennfremur millilandaflug sagði í viðtali við dagblaðið Politiken að erfiðleikarnir varðandi Nuuk hafi kostað félagið mikla peninga „það er dýrt að fljúga til dæmis frá Kaupmannahöfn til Nuuk og geta ekki lent og verða að fljúga til baka og svo aftur sömu leið daginn eftir“. Reglur um hvíldartíma áhafna koma í veg fyrir að hægt sé að fljúga til Kangerlussuaq og bíða þar þangað til hægt verði að lenda í Nuuk.
Var rangt að velja Nuuk sem miðstöð millilandaflugs?
Ofangreinda spurningu lagði blaðamaður Politiken fyrir allmarga íbúa í Nuuk og Kangerlussuaq. Meirihluti þeirra sem spurðir voru sögðu ákvörðunina um að velja Nuuk rétta. Margir nefndu að þegar ekki væri hægt að lenda í Nuuk en hinsvegar í Kangerlussuaq væri það betri kostur en að fljúga aftur til Kaupmannahafnar. Varðandi hvíldartíma áhafna væri það mál sem hlyti að vera hægt að leysa.
Framkvæmdastjóri Air Greenland sagði valið á Nuuk hafi verið það rétta. „Tækninni fleygir sífellt fram og ég trúi því að flesta erfiðleika varðandi flugvöllinn í Nuuk, þar með talinn snjó og ís á flugbrautinni og lendingar í þoku, muni tæknin leysa á næstu árum,“ sagði Jacob Nitter Sørensen.
Dagblaðið Politiken hefur undanfarið fjallað ítarlega um „flugvallamálin“ á Grænlandi og kallar ákvörðunina um Nuuk flugvöllinn stórslys (katastrofe) fyrir ferðamennskuna í landinu.
Athugasemdir (1)