Fimmtán kíló af ketamíni og fimm kíló af MDMA fundust við leit í bifreið sem kom til landsins með Norrænu í september. Aldrei hefur fundist meira magn ketamíns í aðgerðum lögregluyfirvalda hér á landi.
Í tilkynningu frá lögreglu vegna málsins segir að þrír einstaklingar hafi verið handteknir vegna málsins, ökumaður og tveir aðrir farþegar, og hafa þeir allir sætt gæsluvarðhaldi frá því rannsókn hófst. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru allir hinir handteknu erlendir ríkisborgarar, en hluti þeirra búsettur hér á landi.
Málið er annað tveggja sem tengjast komu Norrænu til Seyðisfjarðar í september. Í hinu málinu var lagt hald á nær sjö kíló af kókaíni, en rannsókn þess máls er langt komin. Einn maður var handtekinn á Seyðisfirði í kjölfarið, samkvæmt tilkynningu lögreglunnar, og annar síðar á höfuðborgarsvæðinu. Sá sem handtekinn var á Seyðisfirði sætir gæsluvarðhaldi en hinn var látinn laus eftir húsleit og yfirheyrslu.
Aðgerðin var unnin í sameiningu Lögreglunnar á Austurlandi, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Tollgæslunnar. Þá komu einnig að málinu Lögreglan á Norðurlandi eystra og Sérsveit ríkislögreglustjóra.
Athugasemdir