
Skammarþríhyrningurinn
Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger Dramatúrg: Egill Andrason Tónlist: Axel Ingi Árnason í samstarfi við Egil Andrason Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson Dans- og sviðshreyfingar: Cameron Corbett Leikgervi: Ray Milano Framleiðendur: Davíð Freyr Þórunnarson og Ragnheiður Maísól Sturludóttir
Stuðandi, sönn og sár sýning sem skilur eftir fjölmargar spurningar.
Á frumsýningardag Skammarþríhyrningsins var höfundur þessa pistils á gangi í miðbæ Reykjavíkur og mætti þremur ungum, íslenskum karlmönnum sem virtust vera á leið út á lífið. Ekki frásögu færandi nema einn þeirra bar rauða derhúfu með hvítu letri á höfði, derhúfu sem á síðustu árum er orðin táknmynd amerískrar öfgahyggju á hægri væng. Þetta er Ísland í dag.
Skammarþríhyrningurinn eftir leikhópinn Stertabendu í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur talar þráðbeint inn í íslenskan raunveruleika og inn í stærra alþjóðlegt samhengi. Áhorfendum er boðið inn í heimi þar sem „vók“ eða „woke“ hugmyndafræði er safngripur og starfsfólk, afsakið … starfsmenn … vinna hörðum höndum að sviðsetja söguna í þeirri von að við lærum af reynslunni.
Við erum ekki að tala um ímyndaða framtíð heldur blákaldan raunveruleika þar sem óæskilegar bækur eru fjarlægðar af bókasöfnum, óæskileg list af listasöfnum og óæskilegar skoðanir úr menntastofnunum. Sagan kennir okkur að næst verður óæskilegt fólk fjarlægt úr samfélaginu. Ein tegund af söguskoðun er nefnilega sögueyðing, allt í nafni ímyndaðar fortíðar sem var aldrei til.
Leikhópurinn samanstendur af sex manneskjum á öllum aldri sem hafa mikið til málanna að leggja. Þau setja sig í ýmis hlutverk, sum passa betur en önnur. Fremstur í flokki er Árni Pétur Guðjónsson sem glansar í hverju skrefi. Hann er Theódóra, doktor í sagnfræði, Dórótea í Galdrakarlinum í Oz og Karl, fyrrverandi ríkissaksóknari og prófessor emeritus í refsirétti. Hann er hjarta sýningarinnar, iðandi af leikgleði og lífi. Sindri Sparkle kemur hressilega á óvart en hann er betur þekktur sem uppistandari fremur en leikari. Atriðið um þær öfgakenndu ákvarðanirnar sem karlmaður tekur til að komast inn á kvennaklósett er stórkostlegt og eintalið undir lokin hittir beint í sálina. Bjarni Snæbjörnsson og Fannar Arnarsson fá einnig tækifæri til að skína, kúrekarómansinn var bráðfyndinn. En líkt og flestir í sýningunni eru þeir eftirminnilegastir í einlægu augnablikunum þar sem sannleikurinn er sagður. Embla Guðrúnar-Ágústdóttir tekur áhorfendur í kennslustund um dyggðarskreytingu og dansatriðið áhrifamikið. Veikasti hlekkurinn í leikhópnum er nýliðinn Kristrún Kolbrúnardóttir sem finnur ekki taktinn í sýningunni en á nokkra góða spretti inn á milli, þá sérstaklega í pallborðsumræðunum.
Samtöl og setningar í sýningunni eru oftar en ekki bein tilvísun í „skoðanaskipti“ á samfélagsmiðlum og opinberum vettvangi. Gréta Kristín heldur ágætlega á spöðunum og finnur lífrænan farveg fyrir sýninguna sem byggir á fjölmörgum ólíkum senum og senuskiptum. Í heildina virkar umgjörðin þó ekki alltaf, kynningin í forsalnum hefði getað átt sér stað inn í sal. Til hvers að taka áhorfendur út fyrir sýningu ef athöfnin er ekki notuð aftur? Sömuleiðis er endurtekna fjölskyldusenan alltof löng og losaraleg. Lokaatriðið var þó einstaklega áhrifaríkt þar sem allar hugmyndirnar smullu saman.
Eva Signý Berger sem hannar leikmynd og búninga er með á nótunum og tínir allt til, hendir hugmyndum í pott og úr verður búningakabarett þar sem Litla sviðið fær að njóta sín. Pífur og pallíettur í bland við boli merktum „Frelsi“ sem eru bein vísun í boli sem amerískir öfga-hægrisinnar íklæðast en voru líka til sölu á ónefndum íslenskum viðburði í síðasta mánuði. Þetta er raunverulegt, við erum hér.
Pallborðsumræðurnar strax eftir hlé er eftirminnilegt þar sem rætt er um hvort að tilvist einstaklinga sé réttmæt. Minnihlutahópar dregnir fram sem dæmi um úrkynjun mannkynsins og hvatning til að snúa aftur til fortíðar þegar allt var betra, heimurinn var einfaldur og kynin tvö. Gallinn við þessa orðræðu er að þessi heimur var aldrei til. Hinsegin fólk hefur alltaf verið til, líka trans og intersex fólk. Þessir sömu forpokuðu einstaklingar sem gala sem hæst um „woke-isma“ þykjast líka hafa miklar áhyggjur af íslenskunni, eins og tungumálið hafi aldrei breyst eða þróast í aldanna rás.
Nokkrar góðar laumur er að finna í tónlistinni samin af Axel Inga Árnasyni í samstarfi við Egil Andrason. Þar má helst nefna stef sem óneitanlega minnir á kvikmyndir um ónefndan galdradreng sem kemur út úr skápnum og finnur sjálfan sig. Höfundur bókanna hefur í auðvaldi sínu tekið sér afstöðu gegn trans konum í nafni kvenréttinda sem leiddi til nýlegra lagabreytinga í Bretlandi. Sérstaklega ánægjulegt var að heyra „Somewhere“ úr West Side Story, lag úr söngleik um táningaást samið af Leonard Bernstein og Stephen Sondheim.
Samkvæmt rannsóknum er einungis 2-3% af samfélaginu trans og um 10% hinsegin. Þetta er öll ósköpin sem ákveðinn hópur fólks telur vera taka yfir samfélagið þegar raunin er sú að þessi hópur vill eingöngu sömu réttindi og hinir, mannréttindi. Skammarþríhyrningurinn er kannski tætt sýning en vekur upp fjölmargar spurningar og hvetur áhorfendur til að líta inn á við. „Aldrei aftur“ er endurtekið slagorð í sýningunni sem má auðveldlega færa yfir á okkar tíma. Þessi „betri heimur“ sem þessi ákveðni hópur fólks tönglast á var aldrei til, hinsegin fólk aftur á móti hefur alltaf verið til og þau eru þess virði að berjast fyrir.
Athugasemdir