Trump hótar að beita uppreisnarlögunum
Sendir vopnað lið í borgir Demókrata Forseti Bandaríkjanna alríkisvæddi þjóðvarðliðið í Kaliforníu og ákvað að senda það til Portland í Oregon, gegn vijla ríkisstjóra beggja ríkja. Mynd: Jim WATSON / AFP

Trump hótar að beita uppreisnarlögunum

Banda­ríkja­for­seti seg­ir að Chicago sé „stríðs­svæði“ og að „Port­land sé að brenna til grunna“ með „upp­reisn­ar­menn út um allt“.

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera reiðubúinn að beita uppreisnaralögunum, Insurrection act, sem heimila forseta Bandaríkjanna að senda herinn til að kveða niður „ofbeldisfulla uppreisn“, í vaxandi aðgerðum hans gegn borgum sem stjórnað er af demókrötum.

„Við höfum uppreisnaralög af ástæðu. Ef ég þyrfti að beita þeim myndi ég gera það,“ sagði Trump við fréttamenn í forsetaskrifstofunni, á sama tíma og Illinois og Oregon, ríki undir forystu demókrata, gripu til lagalegra aðgerða til að koma í veg fyrir að forsetinn sendi þjóðvarðliðið inn í borgirnar Chicago og Portland.

„Ef fólk væri drepið og dómstólar eða ríkisstjórar eða borgarstjórar væru að tefja okkur, þá myndi ég að sjálfsögðu gera það.“

Uppreisnarlögunum var síðast beitt árið 1992 þegar mótmæli íbúa í Los Angeles eftir sýknudóm vegna lögregluofbeldis gegn Rodney King, sem náðist á myndband, fóru úr böndunum. Þeim var sex sinnum beitt á sjöunda áratugnum vegna réttindabaráttu blökkumanna og tvisvar á níunda áratugnum.

Þjóðvarðliðar frá Texas til Chicago

Yfirvöld í Illinois höfðu höfðað mál til að reyna að koma í veg fyrir liðsflutninga til Chicago, en dómarinn April Perry, sem var skipuð í embætti af Joe Biden, forvera Trumps og demókrata, neitaði að gefa út tafarlaust lögbann á aðgerðina.

Hún ákvað að halda dómþing um málið á fimmtudag og bað stjórnvöld um að upplýsa dómstólinn og veita frekari upplýsingar.

Deilan magnaðist eftir að upp komst að Texas, þar sem repúblikanar eru við völd, hygðist senda 200 af alríkisvæddum þjóðvarðliðum sínum til Illinois, sem reitti JB Pritzker, ríkisstjóra demókrata, til reiði.

„Þeir ættu að halda sig í fjandanum frá Illinois,“ sagði Pritzker.

Hann sakaði einnig alríkisfulltrúa innflytjendamála sem stóðu fyrir áhlaupum í Chicago um „fantaskap,“ „óhóflega valdbeitingu“ og ólöglega varðhaldsvistun bandarískra ríkisborgara.

Trump ali á „ótta og ringulreið“

Ummæli Trumps um hin aldagömlu uppreisnalög komu aðeins nokkrum mínútum eftir að Pritzker varaði við því að Trump væri vísvitandi að ýta undir „stigvaxandi ofbeldi“ til að notfæra sér það sem yfirskin fyrir beitingu neyðarheimilda.

„Ríkisstjórn Trumps fylgir handriti: að valda glundroða, skapa ótta og ringulreið“
JB Pritzker
Ríkisstjóri Illinois

„Ríkisstjórn Trumps fylgir handriti: að valda glundroða, skapa ótta og ringulreið, láta friðsama mótmælendur líta út fyrir að vera múgur með því að skjóta á þá gaskúlum og táragashylkjum,“ sagði Pritzker á blaðamannafundi.

„Hvers vegna? Til að skapa yfirskin fyrir því að beita uppreisnalögunum svo hann geti sent herinn til borgarinnar okkar.“

Landamæralögregla í ChicagoVopnuð lögregla handtekur einstakling eftir að íbúar í Brighton Park-hverfinu í Chicago tókast á við landamæraverði og aðra lögreglumenn á bensínstöð eftir að fulltrúar Útlendinga- og tollaeftirlitsins (ICE) handtóku að sögn óþekktan mann í bíl sínum í Chicago, Illinois, á laugardag. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sem byggði kosningabaráttu sína á loforði um að vísa fjölda innflytjenda úr landi, hefur hvatt yfirvöld til að vera harðari í aðgerðum sínum í því skyni að ná markmiði sínu um eina milljón brottvísana á ári, sem mikið hefur verið fjallað um.

Bandaríkjamenn verði ekki hersetnir

Illinois-fylki í Bandaríkjunum, þar sem Demókrataflokkurinn er við völd, höfðaði í dag mál til að koma í veg fyrir að Donald Trump forseti sendi þjóðvarðliða til Chicago.

Málshöfðunin kemur degi eftir að alríkisdómari í Oregon kom tímabundið í veg fyrir að forsetinn, sem er repúblikani, sendi hermenn til Portland, stærstu borgar fylkisins, sem hluta af aðgerðum sínum gegn glæpum og óskráðum innflytjendum.

Um helgina heimilaði Trump að 700 þjóðvarðliðar yrðu sendir til Chicago þrátt fyrir andstöðu kjörinna leiðtoga demókrata, þar á meðal borgarstjórans og JB Pritzker ríkisstjóra.

Í málssókn sem höfðuð var fyrir alríkisdómstóli í Illinois sökuðu Kwame Raoul, ríkissaksóknari fylkisins, og lögmaður Chicago-borgar Trump um að nota bandaríska hermenn „til að refsa pólitískum andstæðingum sínum“.

„Bandaríska þjóðin, óháð búsetu, á ekki að þurfa að búa við þá ógn að vera hersetin af Bandaríkjaher, sérstaklega ekki bara vegna þess að leiðtogar borgar þeirra eða fylkis eru ekki forsetanum þóknanlegir,“ sögðu þeir.

„Langt frá því að stuðla að almannaöryggi á Chicago-svæðinu,“ skrifuðu þeir, „hafa ögrandi og duttlungafullar aðgerðir“ Trumps „ógnað almannaöryggi með því að vekja upp reiði almennings.“

„Illinois fer fram á að dómstóllinn lýsi þessar aðgerðir ólöglegar og banni þær, bæði tafarlaust og til frambúðar,“ bættu þeir við.

Segja Chicago „stríðssvæði“

Kristi Noem, ráðherra heimavarna, hefur varið áætlunina um að senda hermenn til Chicago og haldið því fram að þriðja stærsta borg Bandaríkjanna sé „stríðssvæði“.

Pritzker svaraði á CNN og sakaði repúblikana um að reyna að „skapa stríðssvæðið, svo þeir geti sent inn enn fleiri hermenn.“

Í CBS-könnun sem birt var á sunnudag kom fram að 58 prósent Bandaríkjamanna eru andvíg því að senda þjóðvarðliðið til bandarískra borga.

En Trump, sem talaði í síðustu viku um að nota herinn í „stríði innan frá“, sýnir engin merki um eftirgjöf.

Á sunnudag hélt hann því ranglega fram að „Portland sé að brenna til grunna. Það eru uppreisnarmenn út um allt.“

„Stjórnskipunarréttur, ekki herlög“

Herferð Trumps um að beita hernum á heimavelli varð fyrir skakkaföllum á laugardag í Portland þegar alríkisdómstóll úrskurðaði að beitingin þjóðarðliðsins væri ólögleg.

Trump hefur ítrekað kallað Portland „stríðshrjáða“, en Karin Immergut héraðsdómari setti tímabundið bann við liðsflutningum og sagði að „ákvörðun forsetans væri einfaldlega ótengd staðreyndum.“

„Þetta er þjóð stjórnskipunarréttar, ekki herlaga,“ skrifaði Immergut, sem var skipuð af Trump.

Þrátt fyrir að einstaka árásir hafi verið gerðar á alríkislögreglumenn og eignir í Portland, tókst stjórnvöldum ekki að sýna fram á „að þessi tilvik ofbeldis hafi verið hluti af skipulagðri tilraun til að steypa ríkisstjórninni í heild sinni,“ sagði hún.

Trump-stjórnin er að áfrýja úrskurðinum, sagði Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, við fréttamenn á mánudag.

„Með fullri virðingu fyrir þeim dómara, þá tel ég að álit hennar sé ótengt raunveruleikanum og lögum,“ sagði Leavitt. „Við erum mjög örugg um lagalega heimild forsetans til að gera þetta.“

„Forsetinn vill tryggja að alríkisbyggingar okkar og eignir séu verndaðar og það er nákvæmlega það sem hann er að reyna að gera,“ sagði hún.

Eftir spennuástand í nokkra daga í Chicago braust út ofbeldi á laugardag þegar alríkislögreglumaður skaut ökumann sem heimavarnaráðuneytið sagði hafa verið vopnaðan og ekið á eitt af ökutækjum þeirra.

Illinois og Oregon eru ekki fyrstu ríkin til að höfða mál vegna beitingar Trump-stjórnarinnar á þjóðvarðliði.

Kalifornía höfðaði mál eftir að Trump sendi hermenn til Los Angeles fyrr á þessu ári til að kveða niður mótmæli sem brutust út vegna aðgerða gegn óskráðum innflytjendum.

Héraðsdómari úrskurðaði aðgerðina ólöglega en málið er enn að feta sig eftir dómsstigum.

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Bandaríki Trumps

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár