Það er ágætt að tala íslensku, en við getum öll verið sammála um að enska er skilvirkari. Fleira fólk talar hana, meira efni er gefið út á ensku og, á þeim nótum, fyrir þau sem standa í útgáfu hvers kyns efnis, er afar ólíklegt að hafa nokkrar tekjur af því á íslensku, sama hvort það eru bókmenntir, kvikmyndað efni eða hljóðritað. Einhvers staðar las ég að rúm 40 prósent tungumála séu í útrýmingarhættu, þetta las ég á ensku, by the way. Íslenska er víst ekki í beinni útrýmingarhættu, en stendur þó frammi fyrir alvarlegum áskorunum í stafrænum nútímanum.
„Persónulega finnst mér að íslenskan ætti að vera hobbí efri stéttarinnar, sérstaklega erindislítilla þingmanna“
Það er því fagnaðarefni að framlög til íslenskukennslu sem annað mál skuli skerðast um 36 prósent á milli ára. Meðal þess sem UNESCO lítur til þegar staða tungumáls er mæld er hversu stór hluti íbúa tiltekins málsvæðis tala tungumálið og hvort fólk af öllum stéttum tali það. Það er good job að lækka hlutfall íbúa sem talar íslenskuna og setja almennilegan stéttavinkil inn í það líka. Persónulega finnst mér að íslenskan ætti að vera hobbí efri stéttarinnar, sérstaklega erindislítilla þingmanna.
Við megum líka þakka þeim sem agnúast út í starfslaun rithöfunda fyrir væntanlegt niðurbrot tungunnar. UNESCO horfir einnig til hvort tungumál hafi sterka ritmálshefð og menningarumgjörð til þess að meta lífvænleika þess og það að list sé sköpuð á íslensku er til þess fallið að hægja á óumflýjanlegum dauða hennar. Rífum plásturinn af. Þeim aurum sem hefur verið wasted í íslenskukennslu og starfslaun rithöfunda mætti sjálfsagt fjárfesta í hernaðaruppbyggingu Evrópu. Maður minn, það er vaxandi iðnaður, annað en óskilvirkt örmál.
Athugasemdir