Framsóknarflokkurinn mælist með 5,8 prósenta stuðning í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Flokkurinn fengi fjóra fulltrúa kjörna, væru þetta niðurstöður kosninga, en flokkurinn hefur mælst í einskonar fallbaráttu undanfarin misseri.
Í síðasta Þjóðarpúlsi mældist flokkurinn með 4,5 prósent fylgi og utan þings. Það er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkurn tíma mælst með hjá Gallup.
RÚV greindi fyrst frá niðurstöðunum í kvöld.
Samfylkingin mælist sem fyrr stærsti flokkurinn og hefur nokkra yfirburði í mælingunni. Flokkurinn mælist með 34 prósenta fylgi og 24 fulltrúa. Viðreisn, sem er þriðji stærsti flokkurinn, mælist með 12,6 prósent stuðning og 9 fulltrúa á þingi. Það þýðir að flokkarnir gætu myndað tveggja flokka meirihlut á þingi.
Flokkur fólksins, sem er samstarfsflokkur Samfylkingar og Viðreisnar í núverandi meirihluta, mælist með 6,9 prósent og fjóra fulltrúa í Þjóðarpúlsinum. Meirihlutinn stendur því sterkum fótum, miðað við þetta.
Sjálfstæðisflokkur er nærst stærstur í könnuninni með 19,5 prósenta fylgi og 14 fulltrúa. Miðflokkurinn mælist með 11,8 prósent og átta fulltrúa.
Vinstri græn og Píratar, sem duttu af þingi í kosningunum í nóvember, mælast með 3,6 og 2,9 prósent, og næði hvorugur flokkurinn kjöri á þing. Það myndu Sósíalistar ekki heldur gera með 2,1 prósenta fylgi.
Væru þetta niðurstöður kosninga myndu Sósíalistar hins vegar falla af fjárlögum og ekki fá framlag úr ríkissjóði til að reka sig, líkt og flokkurinn hefur gert undanfarin kjörtímabil.
Athugasemdir