Palads kvikmyndahúsið, Palads Teatret, eins og það heitir, er samofið sögu kvikmyndasýninga í Danmörku. Þetta þekkta kvikmyndahús var stofnað árið 1912 og var þá til húsa í gömlu járnbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn, en núverandi brautarstöð, Hovedbanegården, var tekin í notkun árið 1911. Nokkrum árum síðar þurfti gamla járnbrautarstöðin að víkja og nýtt Palads kvikmyndahús var tekið í notkun árið 26. janúar 1918. Það þótti sérdeilis glæsilegt og salurinn gat rúmað 1.937 manns í sæti (í Eldborgarsal Hörpu eru, til samanburðar, 1.734 sæti) og í Palads var iðulega setið í hverjum stól. Yfirarkitekt var Andreas Clemmensen, þekktur á sínu sviði, og samstarfsmaður hans var Johan Nielsen. Palads, sem er í nýbarokkstíl, stendur fast við Sirkusbygginguna (Cirkusbygningen, byggð 1886) og National Scala samkomuhúsið sem reist var 1882 en er nú horfið. Tívolí skemmtigarðurinn, sem var opnaður 1843, er sömuleiðis í næsta nágrenni. Þessi blettur, skammt frá Ráðhústorginu, var einn af miðpunktum skemmtanalífsins í Kaupmannahöfn. Kvikmyndaframleiðandinn og leikstjórinn Sophus Madsen lét byggja Palads og rak bíóhúsið til ársins 1926 en þremur árum síðar keypti Nordisk Film kvikmyndafyrirtækið húsið og hefur rekið það síðan.
Flaggskip Nordisk Film
Palads skipar stóran sess í danskri kvikmyndasögu. Asta Nielsen og Carl Th. Dreyer voru sannkallaðar stórstjörnur kvikmyndanna á sínum tíma, myndir þeirra voru frumsýndar í Palads. Árið 1921 var tónskáldið Jacob Gade ráðinn hljómsveitarstjóri og stjórnaði um 10 ára skeið 30 manna hljómsveit hússins en á árum þöglu myndanna var oftast leikin tónlist á sýningum. 30 manna sveit þótti mjög vel í lagt en sýnir að í Palads var ekkert til sparað. Árið 1925 samdi Jacob Gade tónverkið Tango Jalousie, sem er eitt þekktasta verk danskrar tónlistarsögu, það var fyrst flutt við frumsýningu kvikmyndarinnar Don Q, sonur Zorros, 14. september 1925.
Leikstjóri var Douglas Fairbanks, hann lék jafnframt aðalhlutverkið ásamt Mary Astor en þau voru í hópi skærustu stjarna þöglu myndanna.
Stórfyrirtæki
Nordisk Film hefur í áratugi verið stórfyrirtæki á sínu sviði, framleiðslu og dreifingu kvikmynda og þáttaraða fyrir sjónvarp og hefur enn fremur rekið fjölmörg kvikmyndahús, í Danmörku og fleiri löndum. Margir vinsælustu sjónvarpsþættir, og kvikmyndir, sem framleiddir hafa verið í Danmörku hafa orðið til í kvikmyndaveri Nordisk Film í Valby í Kaupmannahöfn. Meðal annars sjónvarpsþættirnir Matador og kvikmyndirnar (samtals 14) um hina seinheppnu þremenninga Olsen banden. Ein myndanna snýst reyndar um tilraun þeirra til að ræna helgarsölunni í Palads eftir lokun á sunnudegi. Leikstjóri Olsen banden-myndanna um þá Egon, Kjeld og Benny, var alla tíð Erik Balling, einn þekktasti leikstjóri Dana fyrr og síðar. Hann leikstýrði líka Matador-þáttunum sem urðu samtals 24. Nefna má að hann leikstýrði kvikmyndinni 79 af stöðinni hér á Íslandi árið 1962, myndin hét Pigen Gogo þegar hún var sýnd í dönskum kvikmyndahúsum.
Það var líka í Palads sem fyrsta danska talmyndin, Præsten i Vejlby, kom fyrir augu og eyru Dana, það var árið 1931.
Örar breytingar, aukin tækni og svo sjónvarpið
Kvikmyndirnar nutu frá upphafi mikilla vinsælda og á fyrstu áratugum síðustu aldar litu margar tækninýjungar dagsins ljós. Árið 1927 er iðulega talið upphaf talmyndanna (The jazz singer), kvikmyndir í lit urðu æ algengari í upphafi fjórða áratugarins, cinemascope-tæknin, stórbætt hljómgæði mætti nefna og kvikmyndaframleiðslufyrirtækin urðu stórveldi í skemmtanaiðnaðinum.
Heimabíóið og John Logie Baird
Á fyrstu áratugum kvikmyndasýninga grunaði fáa að innan tiltölulega fárra ára yrði almenningur víða um heim kominn með bíóhúsið heim í stofu, sem sé sjónvarpið.
26. janúar árið 1926 bauð skoski verkfræðingurinn og uppfinningamaðurinn John Logie Baird (1888–1946) nokkrum starfsmönnum bresku vísindastofnunarinnar á vinnustofu sína við Frith Street í London. Tilefnið var að kynna uppfinningu sem John Logie Baird hafði unnið að um nokkurt skeið og hann kallaði Television. Blaðamaður The Times var viðstaddur kynninguna og greindi frá henni í blaðinu. Fréttir blaðsins vöktu mikla athygli og þremur árum síðar byrjaði breska útvarpið, BBC tilraunaútsendingar í samvinnu við John Logie Baird. Fyrsta sjónvarpsútsending í Danmörku fór fram 30. október 1932. Það var dagblaðið Politiken sem í samvinnu við breska tæknimenn endurvarpaði sendingu frá London á kvikmyndatjald í Arena kvikmynda- og leikhúsinu í Tívolí. 800 manns voru í salnum en vegna tæknilegra vandamála var útsendingin öll í molum. Áhorfendum var boðið að koma aftur nokkrum dögum síðar og þá gekk allt upp. Eftir þessa fyrstu sjónvarpsútsendingu gerðist fátt árum saman en í september árið 1948 var bresk vika í Tívolí í Kaupmannahöfn. Þar gafst gestum kostur á að sjá tvo þekkta danska söngvara syngja nokkur lög úr óperettunni ,,Sumar í Týról“ og enn fremur stutta kennslustund í hagnýtum heimilisfræðum, ,,Husmoderens to minutter“, þar sem húsmæðrum var kennt að vinda borðtuskur. Danska útvarpið, sem í upphafi hét Statsradiofonien, hafði frá því sendingar hófust árið 1925, slíkan ,,húsmæðraþátt“ á dagskránni, sá hét ,,Husmoderens fem minutter“ og var síðan lengdur í tíu mínútur.
Hörð samkeppni
Danska sjónvarpið hóf reglulegar útsendingar 2. október 1951. Sent var út í eina klukkustund frá kl. 20–21, fjóra daga í viku, ekkert sjónvarp á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Þróunin varð á næstu árum mjög hröð en verður ekki rakin frekar hér, til gamans má þó nefna að árið 1956 voru 32 sjónvarpstækjaframleiðendur í Danmörku, aðeins einn þessara framleiðenda er enn starfandi: Bang og Olufsen, B&O.
Ekki gat farið hjá því að tilkoma sjónvarpsins hefði áhrif á aðsókn í kvikmyndahúsin. Þær raddir heyrðust sem töldu að útbreiðsla sjónvarpsins yrði banabiti kvikmyndahúsanna, aðrir töldu ótímabært að lýsa slíku yfir. En sjónvarpið hafði fljótlega mikil áhrif á rekstur kvikmyndahúsanna sem gripu til ýmissa ráða til að halda sjó, eins og það er kallað.
Fleiri en minni salir
Í lok áttunda áratugarins fækkaði bíógestum í Danmörku mikið, eins og víðar. Eigendur Palads brugðust við með því að breyta húsinu, innrétta minni sali og auka úrvalið. Skömmu fyrir 1980 varð Palads eitt fyrsta kvikmyndahús í heiminum með marga sali. Eftir breytingarnar voru salirnir í húsinu 12 og síðar fjölgað um fimm til viðbótar. Með þessu móti var hægt að hafa 80–90 sýningar á hverjum degi. En það var við ramman reip að draga, sjónvarpsstöðvunum óx sífellt ásmegin. Daglegum útsendingartímum fjölgaði og sömuleiðis sjónvarpsstöðvunum. Eigendur kvikmyndahúsa hafa gert margt til að fá fólk til að koma í ,,biffen“. Í fyrra voru bíógestir í Danmörku samtals 9,8 milljónir og hafði fækkað lítillega frá árinu áður.
Skrautlega randamálningin
Þegar Palads var byggt árið 1918 var það málað hvítt að utan. Þannig var það allt til ársins 1989 þegar listamaðurinn Poul Gernes (1925–1996) var fenginn til að mála húsið. Poul Gernes, sem er meðal þekktustu listmálara Dana fyrr og síðar, var ekki hvað síst þekktur fyrir litskrúðug málverk sín. Hann fékk frjálsar hendur við litavalið á Palads-húsinu og óhætt er að segja að útkoman hafi vakið athygli, og gerir enn. Bleikur og fjólublár litur er áberandi og þótt margir hafi gagnrýnt útkomuna á sínum tíma telst Palads, það er að segja veggmálningin, meðal helstu verka Poul Gernes.
Nordisk Film vildi rífa og byggja nýtt
Árið 2017 óskaði Nordisk Film, eigandi Palads, eftir að fá leyfi til að rífa húsið og byggja nýtt kvikmyndahús á sama stað. Að sögn forsvarsmanna Nordisk Film var húsið orðið óhentugt og svaraði ekki kröfum tímans. Með beiðninni um leyfi til niðurrifs fylgdu teikningar hins þekkta arkitekts Bjarke Ingels af nýrri byggingu. Þessari tillögu var hafnað af skipulagsyfirvöldum í Kaupmannahöfn. Fimm árum síðar lagði Nordisk Film fram þrjár nýjar tillögur. Að mati eigenda Nordisk Film sker ein tillagan sig úr, þar heldur gamla húsið sér að miklu leyti ásamt áfastri nýrri byggingu. Þessi nýja tillaga er verk arkitektastofunnar Cobe.
Óljóst hvað gerist
Áðurnefnd tillaga frá arkitektunum Cobe var tekin fyrir á fundi tækni- og umhverfisnefndar Kaupmannahafnar 15. september síðastliðinn og er þar til umfjöllunar þegar þessar línur eru settar á blað. Hvert framhaldið verður er útilokað að spá fyrir um en ólíklegt verður að telja að Palads-byggingin verði rifin.
Athugasemdir