Öflugt tónlistarlíf í landinu fer ekki fram hjá neinum. Hljóðfæraleikarar, söngvarar og tónskáld hljóta verðskuldaða viðurkenningu víða um heim og innanlands er fjölbreytt tónlistarstarf. Þessi velgengni er ekki tilviljun. Í bókinni „Tónar útlaganna“ rekur Árni Heimir Ingólfsson æfi og störf þriggja erlendra tónlistarmanna sem hröktust hingað til lands undan þjóðernisofstopa í heimalöndum þeirra og lögðu hér grunn að tónlistarmenningu og tónlistarfræðslu sem framsýnir tónlistarunnendur og áhrifamenn studdu í framhaldinu. Ein sterkasta stoðin voru lög um tónlistarskóla sem sett voru árið 1963.
Allt síðan hafa tónlistarskólar laðað að sér hæfileikaríka nemendur og gert foreldrum kleift að veita börnum sínum þroskandi og tónlistaruppeldi. Fæstir nemendur skólanna gera tónlistina að starfsvettvangi en námið hefur samt gefið þeim mikið, bætt árangur í öðrum námi og veitt þeim ánægju af tónlist. Ófáir syngja þeir í kórum eða iðka aðra tónlist sér og öðrum til ánægju. Þeir sem gert hafa tónlist að starfi og bera uppi hróður hennar og landsins heima og erlendis hafa líklega stigið fyrstu skref sín á þeirri braut í einhverjum tónlistarskólanna og notið þar kennslu árum saman.
Lögin frá 1963 um fjárhagslegan stuðning við tónlistarfræðslu féllu vel að hugsjónum stofnenda Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, sem hóf störf 1964 með það að markmiði í anda laganna að gefa fólki kost á því að kynnast og leggja stund á tónlist óháð fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Á þeim grundvelli tókst honum með stuðningi félagasamtaka og verkalýðsfélaga að byggja upp öflugan skóla sem fylgt hefur þessari stefnu æ síðan.
Sveitarfélögin bera þungann af fjárhagslegum stuðningi við tónlistarskóla. Þau sem hafa bolmagn og metnað reka eigin tónlistarskóla eða styðja rekstur einkarekinna skóla. Opinber stuðningur við ólögbundna starfsemi er fallvalltur og hafa tónlistarskóla oft þurft að sæta skerðingu framlaga þótt starfsemi þeirra sé mikils metin í samfélaginu og foreldrar séu reiðubúnir til að greiða há skólagjöld til að börn þeirra fái notið tónlistarkennslu. Reykjavíkurborg hefur nýlega tilkynnt þeim skólum sem hún leggur fé til samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla að framlög til þeirra verði lækkuð að raungildi um 7% milli skólaára. Skiljanlegt er að sveitarfélög í þröngri fjárhagsstöðu þurfi að grípa til aðhaldsaðgerða en setja verður spurningarmerki við að það sé látið bitna óhóflega á viðkvæmri stöðu tónlistarskóla eins og nú virðist vera. Fylgi Reykjavík boðuðum niðurskurði eftir mun nemendum Tónskóla Sigursveins sem ég þekki nokkuð til fækka um marga tugi. Er það í fyrsta skipti í yfir 60 ára sögu skólans að hann myndist neyðist til slíkra ráðstafana. Hrunið og Covid lifði hann af án slíkra fórna.
Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra 1963 þegar lög um tónlistarskóla voru sett að hans frumkvæði. Það hlýtur að vera Borgarstjórn Reykjavík undir forystu arftaka Alþýðuflokksins þung spor að beita sér gegn því góða starfi sem fyrrum formaður þess flokks átti stóran þátt í að koma á legg og byggt hefur verið upp með atbeina félagshyggjufólks. Slíkt er ábyggilega ekki ráðgert að ófyrirsynju. Sveitarfélög landsins með mörg og mikilvæg verkefni eru í fjárþröng og tekjustofnar þeirra takmarkaðir. Útsvarið er einn þeirra. Fjármagnstekjur hafa verið vaxandi hluti heildartekna einstaklinga en breytingar á skattalögum á síðust áratugum hafa orðið til þess að þær tekjur mynda ekki útsvarstofn og fjöldi vel settra borgara greiðir því ekkert útsvar til sveitarfélaga af stórum hluta tekna sinna. Leiðréttingu á þessu hefur að nafninu til hefur verið á dagskrá ríkisstjórna árum saman. Væri ekki ráð að sveitarfélögin geri kröfu um að henni sé komið til framkvæmda áður en mikilvægri starfsemi á vegum þeirra er fórnað.
Athugasemdir