Sama dag og seðlabankastjóri tilkynnti ákvörðun bankans um að stýrivextir skyldu standa í stað steig fjármálaráðherra fram og boðaði aukið aðhald í ríkisfjármálum. Reyndar minntist Seðlabankinn ekkert á ríkisfjármál við rökstuðning ákvörðunar sinnar, enda er almennt ekki litið svo á að núverandi verðbólgu megi rekja til útgjalda ríkissjóðs. Hins vegar er það pólitísk stefna núverandi ríkisstjórnar að stunda svokallað aðhald í ríkisrekstri og vona að það, ásamt háum stýrivöxtum, svelti hagkerfið til bata, verðbólgan skríði niður og vextir um leið.
Þessi nálgun sver sig í ætt við stefnu sem á ensku kallast austerity og hefur verið þýdd sem niðurskurðarstefna á íslensku. Hún nær þó ekki aðeins til niðurskurðar í ríkisrekstri, heldur líka til hárra stýrivaxta og tilhneigingar til að skerða réttindi launafólks. Vandinn er sá að sveltistefnan hefur aldrei virkað til að taka á ríkisfjármálum eða koma efnahag á réttan kjöl. Hún hefur hins vegar í tímans rás og í öðrum löndum gert hina ríku ríkari, minnkað millistéttina og skert lífskjör vinnandi fólks. Hér er því ekki haldið fram að núverandi efnahagsstefna sé hrein og tær niðurskurðarstefna, en það eru blikur á lofti og mikilvægt að staldra við þá hugmyndafræði sem býr að baki.
Vegið að réttindum launafólks
Varla er til sá íbúi á Íslandi sem hefur ekki fundið fyrir skorti á viðhaldi og uppbyggingu innviða. Landspítali er keyrður á hæsta viðbúnaðarstigi mánuðum saman vegna skorts á starfsfólki og legurýmum, börn í viðkvæmri stöðu fá ekki þjónustu við hæfi innan menntakerfisins og það eru óþarflega margir holóttir vegir. Sveitarfélög eru farin að nota lóðasölu sem tekjustofn til að geta tekist á við lögbundin verkefni sín, sem aftur verður til þess að húsnæðisverð hækkar og fæðir verðbólguna, sem við borgum flest dýrum dómi.
Allt á þetta rætur sínar í pólitískri naumhyggju. Hún getur á endanum brotið niður samfélög og leitt til útbreidds stuðnings við pólitísk öfgaöfl sem bera á borð einfaldar skýringar á vandanum, til dæmis með því að kenna útlendingum eða öðrum minnihlutahópum um allt sem aflaga fer. Eitt mikilvægasta tólið í baráttunni gegn slíku niðurbroti eru sterk og stöndug stéttarfélög sem verja réttindi launafólks og almenna velferð og tryggja að aukin verðmæti rati til launafólks, en ekki einungis eigenda fyrirtækja og fjármagns.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er hins vegar vegið að réttindum launafólks. Félagsmálaráðherra ætlar að stytta tímabil atvinnuleysistrygginga um heilt ár án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Hún lofar virkniúrræðum og snemmtækri íhlutun, nokkuð sem Vinnumálastofnun hefur haft á sínu verksviði um langa hríð en afraksturinn reynst misgóður. Hér er byrjað á öfugum enda, með refsistefnu gagnvart vinnandi fólki, fremur en hvetjandi úrræðum. Um leið á að lengja ávinnslutímabil réttinda, sem aftur skerðir réttindi vinnandi fólks.
Samráð eftir ákvarðanatöku
Stjórnvöld vísa gjarnan til þess að á hinum Norðurlöndunum sé atvinnuleysisbótatímabilið styttra. Hér er gripið til hins gamalkunna klækjabragðs að tína til eitt atriði sem hentar málstaðnum en hundsa fjölmörg önnur atriði sem gera það ekki. Á hinum Norðurlöndunum er allt velferðarkerfi vinnandi fólks öðruvísi uppbyggt og stöðugleiki á vinnumarkaði er meiri. Hér á landi hefur stefnan almennt verið sú að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur, sem þýðir að það er óþægilega auðvelt að segja fólki upp, en að réttindi til atvinnuleysistrygginga séu góð. Með einhliða breytingum á atvinnuleysistryggingum er verið að vega að þessu jafnvægi, sem er ein af grunnstoðum íslensks vinnumarkaðar, og það án samráðs við fólkið sem á allt undir.
En hvers vegna er verið að stytta bótatímabilið? Annars vegar vegna hins boðaða aðhalds og hins vegar til að fjármagna annars afar jákvæðar og góðar breytingar á örorkulífeyriskerfinu. Um leið er framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði milli lífeyrissjóða fært niður í núll krónur, aftur einhliða aðgerð stjórnvalda og þvert á samninga á vinnumarkaði. Afleiðingar þess eru skert eftirlaunaréttindi lífeyrisþega framtíðar, sérstaklega þeirra sem tilheyra lífeyrissjóðum erfiðisvinnufólks. Líkt og félagsmálaráðherra boðar fjármálaráðherra til samráðs og samtals, eftir að ákvörðun hefur verið tekin.
Skortir stórhug í húsnæðismálum
Það er orðið frægt þegar núverandi forsætisráðherra mundaði sleggju í kosningabaráttu og sagðist ætla að lemja niður verðbólgu og vexti. Seðlabankastjóri hafði sagt kjarasamninga mesta óvissuþáttinn fyrir vaxtalækkunarferlið en þrátt fyrir afar hóflega kjarasamninga hefur hávaxtastefnan verið keyrð áfram með gríðarlegum fórnarkostnaði fyrir þau sem skulda og þau sem leigja. Verðbólgan á að allra mestu leyti rætur í óstjórn í húsnæðismálum en samt er enn beðið eftir haldbærum aðgerðum. Það er jákvætt að nú eigi að reisa skorður við skammtímaleigu og styrkja réttindi leigjenda lítillega, en þessu má í mesta lagi líkja við lítinn leikfangahamar og alls ekki sleggju.
Það er vissulega engin töfralausn til í húsnæðismálum og lýðræðið nær illa til hávaxtastefnunnar. Stjórnvöld eiga samt sem áður að gera allt sem í þeirra valdi stendur og fjárlagafrumvarpið ber ekki vitni um stórhug í þeim efnum. Þvert á móti á að skerða húsnæðisbætur og afnema eina raunverulega úrræðið sem hefur verið í boði fyrir húsnæðisskuldara, möguleikann á að leggja séreignarsparnað inn á húsnæðislán. Og það án þess að nokkuð komi í staðinn. Þetta úrræði hefur sína galla, en vaxtabótakerfið var í raun eyðilagt til að fjármagna séreignarsparnaðarúrræðið og þegar það er núllað stendur ekkert eftir.
Stórframkvæmdir fyrir hvaða pening?
Samhliða fjárlagafrumvarpinu hefur ríkisstjórnin boðað mótun atvinnustefnu fyrir Ísland. Það er afar jákvætt að ráðast í gerð slíkrar stefnu og við í VR höfum þegar skilað umsögn í samráðsgátt stjórnvalda með áherslu á að byggja upp góð störf og að ágóðinn af tæknibreytingum skili sér til launafólks og til samfélagsins. Atvinnustefnu er ekki hægt að móta án radda þeirra sem eiga að vinna störfin sem stefnan tekur til og því er gagnrýnivert að atvinnustefnuráð sé öðru fremur saman sett af háttsettu viðskiptafólki, fjárfestingabankafólki og fræðimönnum, en ekki fulltrúum vinnandi fólks. Við treystum því engu að síður að samráðið verði gott og ekki í anda þess samráðs sem að framan greinir, þar sem ákvarðanir eru fyrst teknar og síðan boðið til samtals.
Í tengslum við atvinnustefnuna hefur forsætisráðherra boðað stórframkvæmdir í öllum landsfjórðungum. Ekki veitir af innviðauppbyggingunni, en þegar litið er á fjáralagafrumvarpið sér þessa framkvæmda hvergi stað. Því hefur gripið um sig nokkuð rökstuddur ótti um að hugmyndin sé að fá einkafjárfesta til að fjármagna innviði og þá gegn því að þeir hafi hag af þeim um áratuga skeið. Slíkt fyrirkomulag hefur nánast undantekningalaust reynst skattgreiðendum afar kostnaðarsamt og er líklegra til að ýta undir óhóflega gjaldtöku og mikinn kostnað heimila til framtíðar. Innviðafjárfestingar eru nauðsynlegar, en það er ekki sama hvernig að þeim er staðið.
Kjarasamningar eru undir
Við undirritun síðustu kjarasamninga undirgengust stjórnvöld þær skuldbindingar að varpa ekki auknum kostnaði á launafólk í gegnum gjaldskrárhækkanir. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á nú að hækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu um heilan milljarð króna. Þetta getur haft umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir launafólk og er ekki í anda kjarasamninga. Almennt aðhald og niðurskurður hefur líka í gegnum tíðina dregið úr þjónustu við launafólk og leitt til hækkana á gjaldskrám og að fólk þurfi að fara um lengri veg til að sækja þjónustu. Verkalýðshreyfingin mun ekki una við það að aðhald og niðurskurður komi beint úr vösum vinnandi fólks, sem nú þegar ber miklar byrðar af ótryggu efnahagsástandi.
Nýta þarf meðbyrinn vel
Samkvæmt könnunum gætir talsverðrar jákvæðni í garð ríkisstjórnarinnar. Fólk vill gefa stjórninni séns og leyfa henni að láta til sín taka. Það er virðingarvert og um leið góður meðbyr sem þarf að nýta. En ef meðbyrinn er nýttur til þess að draga úr réttindum og lífskjörum launafólks, er hætt við að vindar snúist hressilega, og það hratt.
Ríkisstjórnin er þegar að verða búin með fyrsta fjórðung síns kjörtímabils og launafólk er langeygt eftir aðgerðum. Tíminn til að sýna á spilin er núna og vonandi er eitthvað fleira á hendi en fjárlagafrumvarpið ber merki um.
Höfundur er formaður VR.
Athugasemdir