„Stuðningsyfirlýsingin er hvatning til félagshyggjufólks að standa með þeim fulltrúa í borgarstjórn sem vinnur markvisst í anda félagshyggju í borginni en hefur þurft að þola mikinn mótbyr innan eigin flokks frá nýkjörnum stjórnum flokksins,“ segja þær Laufey Líndal Ólafsdóttir og Sara Stef. Hildardóttir, ábyrgðarmenn undirskriftasöfnunar til stuðnings Sönnu Magdalenu Mörtudóttir, í sameiginlegu svari til Heimildarinnar um ástæður þess að stofnað var til undirskriftalistans: „Helsta ástæðan er það tómarúm sem er orðið til á vinstri vængnum í íslenskum stjórnmálum.“
Sanna er borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins og tekur sem slíkur þátt í meirihlutasamstarfinu í Reykjavíkurborg. Laufey og Sara hafa báðar starfað lengi innan Sósíalistaflokksins og gegnt þar trúnaðarstörfum þar til hallarbylting varð í flokknum í vor. Þá er Sara starfandi gjaldkeri Vorstjörnunnar, félags sem stofnað var af fyrri stjórn Sósíalistaflokksins og hefur fengið hluta af opinberum styrkjum flokksins, og ein þeirra þriggja sem ný framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins kærði til lögreglu í sumar fyrir efnahagsbrot.
Svæðisfélag Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi sendi á dögunum frá sér vantraustsyfirlýsingu á Sönnu þar sem hún er sögð haldin óvild í garð flokksins og vinni að því með fyrri stjórn hans að stofna nýjan stjórnmálaflokk með ríkisstyrk Sósíalistaflokksins, en Sanna situr í stjórn Vorstjörnunnar.
Laufey og Sara segja það sína trú að sá „mótbyr endurspegli ekki vilja meirihluta félagsmanna flokksins og því síður kjósenda flokksins í borginni, enda hafa kannanir undanfarin 8 ár sýnt fram á mikið traust almennra borgara til Sönnu, traust sem nær greinilega langt út fyrir kjörfylgi flokksins.“
Undirskriftarlistinn er á vefnum Félagshyggja.com en þar segir meðal annars: „Nýlega var gefin út vantraustsyfirlýsing á hendur Sönnu sem flokkur hennar, Sósíalistaflokkur Íslands, hefur ekki brugðist við. Þögnin setur starf Sönnu í mikla óvissu. Við teljum það óásættanlegt þar sem hún nýtur mikils trausts meðal borgarbúa eins og kannanir hafa sýnt.“
„Við höfum skiljanlega áhyggjur af störfum hennar undir þessum kringumstæðum“
Sanna var endurkjörin sem pólitískur leiðtogi flokksins á síðasta aðalfundi þar sem fulltrúum í stjórn flokksins var skipt út fyrir nýja forystu. Hún sagði sig hins vegar frá trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eftir fundinn.
Í nýlegu viðtali við Sönnu á Samstöðinni sem tekið var í kjölfar vantraustsyfirlýsingarinnar greinir hún frá ólíðandi framkomu í sinn garð frá meðlimum nýrra stjórna flokksins. „Hún greinir þar frá krefjandi samskiptum og óeðlilegum afskiptum stjórna af störfum borgarfulltrúanna. Við höfum skiljanlega áhyggjur af störfum hennar undir þessum kringumstæðum og vildum því teygja okkur eftir stuðningi við hana út í samfélagið,“ segja Laufey og Sara.
Þegar þessar línur eru ritaðar hafa ríflega 200 manns skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við Sönnu.
Athugasemdir