Skelfingin æðir um og hörmungarnar skella á eins og flóðbylgja. Dauðinn sækir fórnarlömbin linnulaust. Illskan fer aldrei í vörn. Hún er ávallt í sókn. Hún er afl án miskunnar og barnadauðinn særir mest. „Ástandið á Gaza er verra en helvíti og við höfum brugðist,“ segir í yfirlýsingu frá Alþjóðaráði Rauða krossins og talsmaður UNICEF segir Gaza vera grafreit barna.
Af ómildum kemur illska. Illska birtist þar sem mennsku hefur verið fórnað fyrir völd, land, auð, hagsmuni, þar sem kærleikur, auðmýkt og góðvild hafa verið útilokuð. Af illum gefast ill ráð.
Illskan er aldrei ein. Hún er í fylgd siðblindu, lygi, öfundar, hefndar, haturs og doða. Við sjáum skýr, óafmáanleg merki um illsku víða um heim í gegnum söguna, ill verk sem ekki er hægt að afsaka, taka til baka eða réttlæta með neinum hætti.
Við vitum hvernig illskan birtist, hvar hún er: Á Gaza í Palestínu er barn myrt á 45 mínútna fresti. Ekki aðeins í dag og í gær, heldur í mörg ár. Fleiri en 60 þúsund, þar af fleiri 20 þúsund börn hafa verið myrt og 200 þúsund særð (ágúst 2025). 10 þúsund Palestínumenn eru í fangelsum. Þetta er afleiðing illskunnar, um það ríkir enginn vafi.
Óbeisluð illska verður svo kraftmikil að gerendur virðast ekki geta numið staðar. Það er þekkt staðreynd úr sögunni. Fólk missir vitið og glatar mennskunni, vill fjarlæga öll lífsgæðin frá öðrum og leggja þau undir sig. Voðaverkin eru af mannavöldum, þjóðarmorðið á Gaza er skipulagt illskuverk hatursfullrar ríkisstjórnar Ísraelsríkis.
Ofbeldið, kúgunin og eyðileggingin vex dag frá degi. Lífið eins og hertekið umráðasvæði þeirra. Engin lausn er í sjónmáli því illskan er ráðandi, hún flýgur stjórnlaust áfram, eirir engu og finnur skotmörk sín.
Illskan á Gaza sér óvini sína innan um sveltandi börn og saklausa foreldra. Heimkynni þeirra eru lögð í rúst og svo eru þau skotin þegar þau biðja um mat. Afleiðingin er aðeins böl, böl fyrir allt og alla, líkt og maðurinn sé borinn til böls.
Böl og aftur böl
Fólk hefur séð þetta ástand áður, undir merkjum nasisma, síonisma, fasisma, kommúnisma, þetta er alræðishugsun, ekki sátt eða samkomulag, heldur kúgun og ofbeldi, þar sem glæpir og morð eru réttlætanleg að mati gerenda. Þeir plægðu illsku og sáðu böli.
Þegar Hannah Arendt stjórnmálaheimspekingur skrifaði um illsku, var verið að gera upp helförina í síðari heimsstyrjöldinni. Núna horfum við upp á þjóðarmorð á Palestínufólki, sem er ekki aðeins fangar í eigin landi, heldur svipt öllum nauðsynjum og þvingað til að betla mat af kúgurum sínum – og skotið til bana.
Ísraelar treysta ekki neinum, taka ekki mark á athugasemdum alþjóðastofnana og ákúrum annarra ríkja. Þeir búast ávallt við því versta, það er gagnslaust að tala um sátt og samlyndi eftir þennan hrylling sem nú stendur yfir. Það tekur kynslóðir og meira en öld að slökkva það hatursbál sem nú logar.
„Þetta er verk illsku sem nærist í dimmu hjarta siðblindra“
Áfallið er alltumlykjandi og ef einhver hópur hefur getu til að binda enda á ofbeldið þá er ekki á hann hlustað – nema ríkisstjórninni sé stillt upp við vegg – og vonin vakni aftur?
Skelfingin felst líka í því að opinberar friðarumleitanir virðast vera yfirvarp. Heimilin eru hrunin og hver einasta lifandi manneskja á svæðinu verður í áfalli það sem eftir er ævinnar. Við sem sjáum og heyrum erum líka í áfalli, áfalli sem mun stíga reglulega fram í huga okkar og sál og valda ógleði og vanlíðan.
Þjóðarmorð á Gaza er staðreynd og það er sama hvaða réttlætingar fólk finnur, þetta er verk illsku sem nærist í dimmu hjarta siðblindra. Reyndar skortir orð og hugtök til að útskýra. Grimmdin er á meðal okkar en um leið handan skilnings. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að reyna að skilja hana og greina orsakir hennar.
Lygin mikla um mannlaus og tóm lönd
Lygin mikla í upphafi var sú að Palestína væri öll einskismannsland, land án þjóðar. Palestína væri kjörin fyrir evrópska gyðinga sem væru þjóð án lands. Síonistar „sáu“ ekki innfædda. Íbúar frá nýlenduþjóðum Evrópu „sáu“ ekki heimafólkið sem hefur frá þeim tíma búið við kúgun, útilokun og loks útskúfun í eigin landi.
Hatur er oft sögð frumtilfinning því það er sterkt og þurrkar út skynsemi og mannúð. Hatur er grimmt fjandsamlegt hugarfar í garð annarra, það eitrar andrúmsloftið og lífið. Hatur veldur eyðileggingu, þjáningu, hungursneyð og dauða, það býr til farveg fyrir illsku og grimmd.
Það er hungursneyð á Gaza. Sveltandi fólk með potta og bolla stendur í röð eftir matargjöf en hermenn hefja skothríð. Allslaus, valdalaus í eigin landi, skotin til bana, ekki af leyniskyttum heldur sýnilegum gangandi hermönnum eða fljúgandi drónum sem beint er að þeim, drónum sem finna skotmörkin með hjálp gervigreindar.
Orðin geta ekki lýst þessu, ekki blóðið heldur.
Hatur Evrópubúa á Gyðingum skapaði síonisma – flótti þeirra til Palestínu skapaði þjóðernishreyfingu Palestínumanna. Nasistar ætluðu að þurrka út samfélag Gyðinga og nú ætla síonistar að þurrka út samfélag Palestínumanna í Palestínu með því að svipta þá öllu. Illskan nærist á hatrinu.
„Nasistar ætluðu að þurrka út samfélag Gyðinga og nú ætla síonistar að þurrka út samfélag Palestínumanna“
Palestínumenn hafa búið við ógn að utan allt frá 1882, þegar fyrstu evrópsku síonistarnir settust að í landi þeirra. Palestínumenn fengu ekki neitt þegar stórveldin viðurkenndu sjálfstæði Ísraels. Árið 1948 reið Áfallið mikla yfir (Nakba) og 720 þúsund Palestínumenn voru hraktir í útlegð og í ömurlegar flóttamannabúðir í nágrannaríkjum og eru afkomendur þeirra enn þar.
Átakasagan er nú drifin áfram af ótta og vantrausti. Ísraelar voru í útlegð í 2000 ár og segjast vera komnir aftur heim. Palestínumenn hafa átt heima í landinu í þúsundir ára og saga þeirra er margflókin og sýnileg. Hún er til að mynda hluti af sögu Tyrkjaveldis þar sem gyðingar, múslímar og kristnir bjuggu saman. (Magnús Þorkell Bernharðsson. Mið-austurlönd, 2018).
Að „sjá“ ekki innfædda
Öll sagan hefur áhrif; nýlendustefnan, heimsvaldastefnan, kynþáttahyggjan, fordómar, saga ofbeldis, kúgunar og þjáningar. Réttur frumbyggja var einnig fótum troðin af Evrópuríkjum og stórveldunum sem stunduðu kerfisbundin þjóðarmorð á þeim.
Til að botna eitthvað í illskunni höfum við oftlega gripið til þeirrar skýringar að illskan sé skortur á einhverju; dómgreind, þekkingu, gæðum, kærleika. Hún felist í of miklum hroka, ágirnd, öfund og heift. Lausnin sé að læra, upplýsa, útskýra og bæta siðgæði, efla vísindi og listir.
En dugar það til? Hatrið slokknar ekki og heldur áfram að vera eldsneyti illskunnar.
„Evrópubúar „sáu“ ekki innfædda í Ameríku og þeir „sáu“ ekki innfædda í Palestínu“
Evrópubúar eiga við margvísleg fortíðaráföll að stríða sem byggð eru á gjörðum fyrri kynslóða. Friðsælir Norðurlandabúar fóru til Ameríku til að rækta og yrkja „tómt land“ Indíána, land án þjóðar. Þeir „sáu ekki“ frumbyggjana og orð var látið út berast um að heimafólkið myndi deyja út því „kynstofn“ þeim æðri væri á leið yfir hafið, hvítir landnemar frá Evrópu.
Sögurnar sem við heyrum af Norðurlandabúum sem landnemum í Ameríku eru hetjusögur því köflunum um ofbeldi og nauðungarflutninga er sleppt. Ekki er skýrt frá því hvernig svæðin urðu „tóm“ og „án þjóðar“, því Evrópubúar „sáu“ ekki innfædda í Ameríku og þeir „sáu“ ekki innfædda í Palestínu. (Kristín Loftsdóttir. Andlit til sýnis, 2023).
Við erum sjónarvottar
Nýlenduþjóðirnar stóðu fyrir nauðungarflutningum, drápum, útrýmingu innfæddra hvar sem þær ágirntust land. Nú hefur það verið boðað í Palestínu, bæði af ríkisstjórn Ísraels og Bandaríkjanna að innfæddir verði nauðugir fluttir frá Gaza á „öruggari“ svæði. Þau eru skilgreind sem óþjóðalýður og ofbeldið gagnvart þeim er réttlætt sem sjálfsvörn gagnvart „villimönnum“. Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels lýsti yfir Amalek eða „heilögu tortímingarstríði“ á Gazasvæðinu.
Einkenni illsku er miskunnarleysi, að tortíma því sem er óþægilegt. Illskan nærist á hatri. Hroki og hugmyndir um yfirburði, fordómar, flokkun og staðalímyndir eru vatn á myllu hatursins sem birtist svo í illsku.
„Málsvarar óbreyttra borgara, barna og foreldra á Gaza fá ekki rými til að tala“
Málsvarar óbreyttra borgara, barna og foreldra á Gaza fá ekki rými til að tala. Fréttafólk á svæðinu er sérstakt skotmark hersins og hafa um 200 þeirra verið myrt á tæplega tveimur árum. Suður-Afríka kærði Ísrael fyrir þjóðarmorð á Gaza og fullyrti að ekki einu sinni lífi nýbura væri þyrmt. Það reyndist rétt. Illskan fær að athafna sig óáreitt á svæðinu.
Áfall sjónarvotta ætti að vera dýpra og meira áfall en það virðist vera, við sem sjáum illvirkin og heyrum ópin ættum að gráta meira, öskra meira af angist, því það er enginn annar tilgangur með illsku en tortíming og dauði. Betlandi börn eru drepin daglega, við getum reynt að líta undan en augu illskunnar eru áfram jafn svört og tóm.
Við erum sjónarvottar. Fyllumst við örvæntingu – en getum við verið bjartsýn?
Snefill af ást til heimsins?
Áfallið steypir sér yfir fólk, áfallið bitnar mismikið á manneskjum fyrst í stað, en áfallið er staðreynd. Sum okkar hafa lamast eða þagnað, önnur öskra af harmi, nokkur líta undan og sjá ekki skaðann. Hugurinn leggur á flótta og einbeitir sér að öðru. Við verðum aldrei söm.
„Núna er Gazasvæðið skilgreint sem helvíti á jörðu fyrir börn“
Börn þjást og deyja, allt af manna völdum. Jemen og Sýrland voru fyrir nokkrum árum sögð versti staður á jörðinni fyrir börn. Núna er Gazasvæðið skilgreint sem helvíti á jörðu fyrir börn. Þessi dauði er ekki sökum náttúruhamfara og hungrið ekki af völdum uppskerubrests heldur af mannavöldum. Það er bláköld staðreynd. Viðurstyggð eyðileggingarinnar er á Gaza, þar er hungursneyð, þau fá hvorki að borða né drekka. Þetta er kerfisbundin tortíming þjóðar.
Takið eftir, alþjóðleg valdapólitík virðist ekki hafa getu til að bjarga börnum. Það er óyggjandi vitnisburður um eymd valdamestu ríkja heims. Ef þar væri að finna snefil af ást til heimsins þá mætti finna farsæla lausn.
Hvað getum við gert?
Það er ekkert þriðja eða æðra afl sem getur bjargað okkur út úr þessum ógöngum. Við þurfum að stöðva framgang illskunnar, slökkva hatrið, hætta að bera sprek í eldinn eða færa illskunni bráð. Við þurfum að halda myrkrinu í skefjum.
Að hjálpa ekki og að hindra hjálparstarf – er að breyta af ranglæti.
Ríkisstjórn Ísraels hefur engan rétt til að fremja glæpi sína, engan rétt til að ákveða hver býr á Gasa og hver ekki. Hún þarf að hætta umsvifalaust og ríkisstjórn Bandaríkjanna þarf að láta af stuðningi sínum við þetta fólk sem fremur glæpi gegn mannkyni. Við viljum ekki deila jörðinni með þeim sem skipuleggja morð á börnum.
Illskan er ekki fyrirhyggjusöm. Gerendur eiga enga undankomuleið. En skaðinn er skeður.
Við finnum til ábyrgðar vegna þess að við þekkjum staðreyndir og við verðum að taka þátt í því að stöðva illvirkin.
Athugasemdir