Kókaín, bananar og ferðatöskur

Starfs­fólki í 12 Coop versl­un­um í Dan­mörku brá í brún þeg­ar ver­ið var að bæta á ban­ana­hill­urn­ar fyr­ir skömmu. Í ban­ana­köss­un­um voru ekki ein­göngu ban­an­ar held­ur einnig mörg hundruð kíló af kókaíni. Notk­un á kókaíni hef­ur þre­fald­ast í Kaup­manna­höfn á tíu ár­um og sömu sögu er að segja frá mörg­um Evr­ópu­lönd­um.

Skúmaskot, þoka og rigning eru algengur vettvangur atburða í glæpasögum og kvikmyndum samtímans. Grunsamlegar skjala- og ferðatöskur koma sömuleiðis stundum við sögu að ógleymdum skammbyssum, og á síðari árum farsímum.

Fæstum koma líklega bananar í hug þegar afbrot eru annars vegar. Þeir koma hins vegar við sögu í bröndurum og myndasögum þar sem fólk rennur til á hálu hýðinu.

Einn vinsælasti ávöxtur í heimi

Bananar vaxa úr blómi bananaplöntunnar og eru hirtir af plöntunni þegar þeir eru um það bil 9 mánaða gamlir. Hýði óþroskaðs banana er grænt en gulnar þegar þroskinn verður meiri.

Banani er einn vinsælasti ávöxtur í heimi og árlega neyta jarðarbúar um það bil 100 milljarða banana.

Rannsóknir vísindamanna benda til að bananaplantan sé meira en 7 þúsund ára gömul og meðal elstu plantna sem ræktaðar eru í heiminum. Að líkindum er bananinn upprunninn í Nýju Gíneu um 5 þúsund árum fyrir Krist en breiddist fljótt út til landa í Suður-Asíu og Afríku.

Til eru hundruð afbrigði banana en það lang algengasta heitir Cavendish, það er þetta afbrigði sem við sjáum í öllum matvöruverslunum. Fram á 7. áratug síðustu aldar var annað afbrigði banana lang útbreiddast, það heitir Gros Michel. Þessi tegund, eða afbrigði, hvarf að mestu leyti vegna sveppasjúkdóms, sem nefndist Panamaveikin. Cavendish afbrigðið þoldi hins vegar þessa skæðu veiru og er nú nær einrátt á markaðnum.

Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um þennan vinsæla ávöxt, ein sú þekktasta er líklega „ Banana, the fate of the fruit that changed the world“ eftir Bandaríkjamanninn Dan Koeppel. Í bókinni, sem kom út árið 2007 lýsti höfundur áhyggjum vegna „framtíðar bananans“ eins og hann komst að orði. Hvað muni gerast ef sveppasjúkdómur, líkt og Panamaveikin, breiðist út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum?

Helstu framleiðendur banana eru Indland, Kína, Brasilía,Filippseyjar, Ekvador, Kólumbía, Perú og Kosta Ríka. Stór hluti þeirra banana sem fluttir eru til Evrópu kemur frá þeim fjóru síðastnefndu.

Vísindamenn víða um heim hafa um árabil reynt að þróa erfðabreytta banana sem geymast betur og verða ekki brúnir. Breska líftæknifyrirtækið Tropic tilkynnti í febrúar á þessu ári að vísindamenn fyrirtækisins hefðu fundið aðferð til að auka líftíma banana, eins og það var orðað.

Kókaín í bananakössum

Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils rak starfsfólk í verslunum Coop fyrirtækisins á Sjálandi í Danmörku í rogastans þegar það opnaði bananakassa sem voru nýkomnir á lagerinn og áttu að fara beina leið í búðarhillurnar. Í kössunum voru nefnilega ekki bara bananar, þar voru einnig pokar með hvítu dufti, sem í ljós kom að var kókaín. Ekki hefur verið upplýst hvað magnið í bananasendingunni var mikið en þó var upplýst að það hefði verið meira en 840 kíló, sem var annars mesta magn sem tollgæsla og lögregla í Danmörku höfðu komist yfir í einni sendingu (sú sending var reyndar í ferðatöskum). Hvaðan bananasendingin til Coop kom hefur ekki verið upplýst.

Daginn eftir að uppvíst varð um „bananasendinguna“ til Coop greindi danska lögreglan frá því að starfsmaður fyrirtækisins hefði verið handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann hafði stungið undan rúmlega einu og hálfu kílói af kókaíni og komið fyrir í farangursgeymslunni í bíl sínum. „Með gróðablik í auga“ sagði einn dönsku miðlanna. Götuverð á einu grammi af kókaíni í Danmörku er um þessar mundir 500 – 700 danskar krónur.

Ekki í fyrsta sinn

Sú aðferð að koma kókaíni fyrir innan um banana er ekki alveg ný af nálinni. Í desember í fyrra (2024) lögðu yfirvöld í Dóminíska lýðveldinu hald á 9,5 tonn af kókíni í sendingu sem ætlunin var að færi til Belgíu. Um svipað leyti fundust 95 kíló af kókaíni í bananakössum á lagernum í þýskri matvöruverslun og skömmu fyrir jól árið 2023 fundust 134 kíló af kókaíni í bananasendingu til Noregs. Í nóvember 2024 lagði spænska tollgæslan hald á 13 tonn af kókaíni, það var í gámi sem var kyrfilega merktur sem bananafarmur. Mörg fleiri tilvik mætti nefna sem öll eiga það sameiginlegt að kókaíni hafi verið komið fyrir í bananasendingum. Eftirspurn eftir kókaíni hefur nær þrefaldast í Evrópu á síðustu 10 árum, að mati lögreglu.

Dropoff aðferðin

Auk þess að senda kókaín með bananaförmum hefur aðferð sem tollayfirvöld nefna „dropoff“ talsvert verið notuð. Hún felst í því að kókaíni er komið fyrir í ferðatöskum sem eru búnar eins konar flotholtum þannig að þær sökkvi ekki. Síðan er töskunum, iðulega nokkrar bundnar saman og með staðsetningarbúnað, varpað í sjóinn á tilteknum stað og tíma, skammt undan landi. Svo þarf einhver samstarfsmaður sem kemur á svæðið, til dæmis á trillu, að hirða töskurnar upp og koma þeim til lands, svo lítið beri á. Þarna þarf margs að gæta til að allt gangi upp, og það vil stundum bregðast. 840 kílóin sem nefnd voru framar í þessum pistli voru einmitt í ferðatöskum sem ráku á strendur við Sjálandsodda árið 2024. Í ágúst sama ár handtók lögreglan sex menn sem voru að koma til lands á Langalandi með 700 kíló af kókaíni í „flottöskum“ eins og það var orðað í tilkynningu frá lögreglu. 

Af hverju kókaín með bananasendingum?

Ástæða þess að kókaínsmyglarar hafa í síauknum mæli beint sjónum sínum að bananaflutningum til að komast framhjá evrópskum tollvörðum er, að mati tollavarða einföld. Bananar eru viðkvæm vara (öðruvísi en til dæmis gúmmískór eins og einn tollvörður komst að orði) og þess vegna áríðandi að tollafgreiðsla þeirra gangi hratt fyrir sig. Kókaínsmyglararnir kunna öll trikkin í bókinni, eins og sagt er, og reyna að koma því svo fyrir að sendingar þeirra komi á annatímum hjá tollgæslunni þegar eftirlitið er stundum minna. Komið hefur í ljós að þeir eiga sér samstarfsmenn meðal hafnarverkamanna og jafnvel áhafna flutningaskipa.

Fréttamaður danska útvarpsins, DR, spurði Henrik Vigh prófessor við Hafnarháskóla og yfirmann rannsóknarseturs í afbrotafræðum hvað væri til ráða í baráttunni við kókaínsmyglarana. Hann svaraði því til að eina leiðin til að ná árangri í þeirri baráttu væri stórbættur tækjakostur tollgæslunnar, t.d gegnumlýsingarbúnaður fyrir gáma ásamt auknum mannskap og samvinnu við tollayfirvöld í öðrum löndum. „En kókaínsmyglararnir eru kunnáttumenn á sínu sviði og þeir hafa mikla peninga milli handanna þannig að einhver lokasigur í baráttunni við þá næst kannski aldrei“ sagði Henrik Vigh.

Bananalýðveldi

Flestir kannast við að hafa heyrt talað um bananalýðveldi, oftast um lönd þar sem spilling er útbreidd. Orðið er oft rakið til áhrifa stórfyrirtækja í stjórnmálum í Hondúras og Gvatemala. Bananar hafa lengi verið ein helsta útflutningsvara þessara landa og stórfyrirtæki hafa lengi haft mikil áhrif á stjórn landanna, með mútum og glæpum.    

Kjósa
24
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Biðu tímunum saman eftir viðeigandi aðgengi á Vori í Vaglaskógi
3
Fréttir

Biðu tím­un­um sam­an eft­ir við­eig­andi að­gengi á Vori í Vagla­skógi

Hjör­dís Heiða Ásmunds­dótt­ir seg­ir að­gengi hafa ver­ið mjög lé­legt á tón­list­ar­há­tíð­inni Vor í Vagla­skógi þrátt fyr­ir að hún væri aug­lýst að­gengi­leg. Eini kam­ar­inn fyr­ir hreyfi­haml­aða fyllt­ist af úr­gangi, tjald­svæði var í háu grasi og eng­ir pall­ar voru svo hægt væri að sjá svið­ið. Jakob Frí­mann Magnús­son seg­ir tón­leika­hald­ara hafa brugð­ist við af bestu getu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Biðu tímunum saman eftir viðeigandi aðgengi á Vori í Vaglaskógi
6
Fréttir

Biðu tím­un­um sam­an eft­ir við­eig­andi að­gengi á Vori í Vagla­skógi

Hjör­dís Heiða Ásmunds­dótt­ir seg­ir að­gengi hafa ver­ið mjög lé­legt á tón­list­ar­há­tíð­inni Vor í Vagla­skógi þrátt fyr­ir að hún væri aug­lýst að­gengi­leg. Eini kam­ar­inn fyr­ir hreyfi­haml­aða fyllt­ist af úr­gangi, tjald­svæði var í háu grasi og eng­ir pall­ar voru svo hægt væri að sjá svið­ið. Jakob Frí­mann Magnús­son seg­ir tón­leika­hald­ara hafa brugð­ist við af bestu getu.

Mest lesið í mánuðinum

Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
3
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár