Rifjar upp stuðning Sigmundar Davíðs við ESB umsókn

Formað­ur Mið­flokks­ins seg­ir ekki hægt að „kíkja í pakk­ann“ hjá ESB en skrif­aði sjálf­ur í bréfi til kjós­enda vor­ið 2009 að for­dæmi væru „fyr­ir slíku í samn­ing­um annarra þjóða við Evr­ópu­sam­band­ið“.

Rifjar upp stuðning Sigmundar Davíðs við ESB umsókn

Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, rifjar upp stuðning Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, við að sækja um aðild að Evrópusambandinu árið 2009.

Sigmundur Davíð hefur gagnrýnt þá stefnu ríkisstjórnarinnar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort aðildarviðræður við Evrópusambandið hefjist að nýju. „Þeir sem gagnrýndu undirlægjuhátt stjórnvalda gagnvart ESB voru sakaðir um heimóttarskap og að treysta ekki þjóðinni,“ skrifaði Sigmundur Davíð á Facebook í júlí um sjónvarpsviðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. „Ég fékk „flashback“ til 2009. Fyrsta hreina vinstristjórnin virtist mætt aftur. Þetta frá fólkinu sem treystir þjóðinni ekki fyrir horn og allra síst fyrir sannleikanum.“

Gagnrýndi hann stjórnmálamenn sem vilja „kíkja í pakkann“ og kanna hvað sé í boði með aðildarumsókn að Evrópusambandinu áður en samningurinn verði lagður í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Nákvæmlega þetta var reynt þegar sótt var um á sínum tíma. Þá reyndu hins vegar fulltrúar ESB í forundran að útskýra fyrir íslenskum stjórnmálamönnum að það væri ekkert til sem héti samningaviðræður við ESB um hvað væri í boði. Ríki sæki um aðild með það að markmiði að fá inngöngu. Svo taki við viðræður þar sem umsóknarríkið leitast við að útskýra fyrir ESB hvernig það ætli að uppfylla kröfur ESB,“ skrifaði Sigmundur Davíð.

„Ríkisstjórnin veit að Íslendingar muni aldrei fallast á að ganga í ESB nema það takist að plata þá til þess með blekkingum, eitt skref í einu,“ bætti hann við að lokum.

Birtir bréf til kjósenda frá 2009

Benedikt, sem yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn og stofnaði Viðreisn á sínum tíma vegna skoðanna sinn á ESB aðild, birti á Facebook-síðu sinni í gær upprifjun á orðum Sigmundar Davíðs fyrir kosningar vorið 2009 þegar hann var nýorðinn formaður Framsóknarflokksins. Birtust þau í bréfi til kjósenda undir yfirskriftinni „Evrópa fyrir okkur öll“ og hljóðuðu svo:

„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkið þeirra viðræðna. Framsókn hefur sett það sem skilyrði fyrir aðild að fullveldi og óskorað forræði yfir auðlindum þjóðarinnar verði grundvallarkrafa í þeim viðræðum, auk skilyrða sem lúta m.a. að hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs. Fordæmi eru fyrir slíku í samningum annarra þjóða við Evrópusambandið og því algerlega rangt að halda því fram að þessar kröfur hamli því að af aðildarsamningi geti orðið.“

Benedikt bendir á að bréfið hafi verið sent til kjósenda vorið 2009. „Og hver skyldi hafa skrifað undir það?“

Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, vísar til þess í athugasemd að á þessum tíma, skömmu eftir bankahrun, hafi stuðningur almennings við Evrópusambandsaðild verið meiri. „Þegar það var hægt að toga atkvæði til Framsóknar um þetta mál, þá var það notað,“ skrifar Björn Leví.

Kjósa
19
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • BOO
    Barbara Osk Olafsdottir skrifaði
    Það er annðhvort fyndið eða fáránlegt að lesa fullyrðingar formanns miðflokksins um lygar þingmanna ríkisstjórnarflokkanna þegar komi að kosningum um aðild að Evrópusambandinu. Félagi Íslands í EES, Norska ríkið hefur í tvígang sótt um aðild að ESB, 1972 og 1992. Í bæði skiptin var aðildarsamningum lokið og síðan haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðin hafnaði aðildinni. Án vandkvæða. Ég hef því miklar efasemdir um sannleiksgildi orða formannsins um að fulltrúar ESB hafi haldið einhverju öðru fram.
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Gætu allt eins verið á hálendinu
4
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Gætu allt eins ver­ið á há­lend­inu

Lydía Angelíka Guð­munds­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræð­ing­ur, sjúkra­flutn­inga­mað­ur og fé­lagi í björg­un­ar­sveit­inni Kára, seg­ir sjúkra­við­bragð í Ör­æf­um ekki í sam­ræmi við mann­fjölda. Ferða­þjón­usta þar hef­ur stór­auk­ist und­an­far­in ár. Hún seg­ir að það hægi á tím­an­um á með­an hún bíði eft­ir að­stoð. En sjúkra­bíll er í það minnsta 45 mín­út­ur á leið­inni. Færð­in geti orð­ið slík að sjúkra­bíl­ar kom­ist ekki í Ör­æf­in.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
4
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár