Fyrir einhverjum árum síðan byrjaði að bera á umræðu um svokölluð hugvíkkandi lyf. Lyfin hafa verið í deiglunni undanfarin ár, bæði vegna aukinna rannsókna á lyfjunum og vegna vaxandi áhuga almennings á þeim mögulega lækningarmætti sem þau hafa. Umræðan hefur verið nokkuð pólaríseruð, einkennst af annað hvort af kraftaverkasögum eða hálf lítilsvirðandi orðræðu um efnin, skorti á nákvæmum upplýsingum og jafnvel hræðsluáróðri sem þjónar engum.
Eftir að hafa lesið viðtalið við Pétur Maack, formann Sálfræðingafélags Íslands, eru nokkur atriði sem nauðsynlegt er að halda til haga:
Fíkniefni, vímuefni eða lyf? Orðanotkun skiptir máli þegar ætlunin er að koma ákveðnum skilaboðun á framfæri. Ekki er hægt að setja öll lyf í sama flokk. Einn mikilvægur munur tengist svokölluðum „fíknistuðli“, sem vísar til þess hversu ávanabindandi lyfið er. Sum efni, eins og ópíóðar eða nikótín, hafa mjög mikla fíknihættu (hár fíknistuðull), en önnur, eins og psilocybin, fela í sér afar litla möguleika á líkamlegri fíkn eða áráttuneyslu. Hugvíkkandi efni eins og psilocybin, MDMA eða ketamín eru lyf, líkt og ópíóðar, sem geta bæði bjargað lífum eða verið lífshættuleg, allt eftir notkun og samhengi.
Mikilvægi umgjörðar (set & setting): Öryggi og árangur meðferðar með hugvíkkandi efnum veltur á faglegri leiðsögn, réttum undirbúningi, öruggu umhverfi og faglegri eftirfylgd. Rannsóknir sýna að með réttum stuðningi geta þessi efni haft djúpstæð og varanleg jákvæð áhrif á geðheilsu, meðal annars í meðferð við þunglyndi, áfallastreitu og fíknivanda (Carhart-Harris et al., 2018; MAPS 2021).
Áhættan er raunveruleg – en stýranleg: Hætta á geðrofstilfellum eykst hjá þeim sem eru með undirliggjandi geðrofssjúkdóma, en rannsóknir sýna að þegar skimað er fyrir áhættuþáttum og meðferð fer fram undir eftirliti er tíðni alvarlegra aukaverkana mjög lág (Johnson et al., 2008). Hið sama á við um ofskömmtun og líkamlegar aukaverkanir – áhættan eykst þegar efni eru notuð án eftirlits eða óhrein efni eru fengin á svörtum markaði.
Lögmæti er ekki vísbending um gagnsemi eða skaðsemi: Við dæmum ekki gagnsemi eða skaðsemi annarra hluta eftir lögmæti þeirra. Ef svo væri, mætti halda því fram að áfengi, morfín, fallhlífarstökk og akstur bifreiða, nú eða bara hvað annað sem ber með sér ákveðna áhættu ætti allt að vera ólöglegt. Það sama á við um hugvíkkandi efni – lögin eru ekki vísindalegt mat á gagnsemi þeirra eða skaðsemi.
Læknisfræðilegur ávinningur er staðfestur: Hugvíkkandi efni hafa verið rannsökuð síðan á sjöunda áratugnum og nú á síðustu árum hefur fjöldi slembirannsókna sýnt marktækan ávinning, jafnvel hjá sjúklingum sem hafa ekki svarað hefðbundnum meðferðum (Griffiths et al., 2016; Davis et al., 2021).
Skortur á regluvæðingu skapar hættu: Vegna ólögmætar stöðu er engin formleg löggilding fyrir þá sem bjóða þjónustu sem byggir á hugvíkkandi efnum. Þetta skapar bæði öryggisleysi og hættu á misnotkun, jafnvel skaðlegum „meðferðaraðferðum“, þar sem fagmennska er lítil sem engin. Í flestum öðrum löndum núorðið, þar á meðal á öllum hinum Norðurlöndunum, eru öflug fagfélög heilbrigðisstarfsfólks sem vinna að klínískum leiðbeiningum, öryggisstöðlum og menntun meðferðaraðila.
Ketamín er löglegt og notað í meðferð: Ketamín er löggilt deyfilyf, notað á Landspítalanum bæði í svæfingum og í meðferð sálfræðilega kvilla eins og alvarlegu þunglyndi og sjálfsvígshugsunum. Lyfið er gefið í mun lægri skömmtum við sálfræðilega meðferð og með viðeigandi eftirliti getur það bjargað mannslífum.
Réttar upplýsingar eru lífsnauðsynlegar: Án fræðslu er fólk að taka ákvarðanir um eigin geðheilsu án þess að hafa tækin til að meta þá áhættu sem fylgir. Réttar upplýsingar draga úr slysum, rangri notkun og hættu á skaða.
Niðurstaðan er þessi. Hugvíkkandi efni eru ekki kraftaverkalyf og þau eru ekki án áhættu. En þau eru heldur ekki „hættuleg fíkniefni“ sem á að fordæma í heild sinni. Rétt eins og Pétur nefnir, þá vitum við ekki hversu margt fólk hér á landi er að nota þessu lyf, en það get ég fullyrt að er mun stærri hópur, sem teygir sig mun víðar um samfélag okkar, en fólk almennt áttar sig á.
Ef við viljum minnka skaða og auka öryggi þarf:
-
Almenna fræðslu til almennings og fagfólks.
-
Regluverk sem tryggir að einungis löggilt fagfólk veiti þessa meðferð.
-
Rannsóknir og klínískar leiðbeiningar byggðar á bestu gögnum sem völ er á.
Það er kominn tími til að færa umræðuna úr hræðslu og fordómum yfir í gagnrýna, upplýsta og faglega umfjöllun sem þjónar raunverulega hagsmunum sjúklinga og samfélagsins alls.
Að lokum vil ég nota tækifærið og benda þeim aðilum sem eru forvitin um efnin, á fræðslunámskeiðið Stuðningsnámskeið fyrir ferðalanga. Námskeiðið, sem undirrituð heldur úti, inniheldur allar þær upplýsingar sem nauðsynlegt er að fólk hafi aðgang að áður en það ákveður að nýta sér hugvíkkandi efni. Námskeiðið hefur verið mikið gæfuskref fyrir þau sem á það koma, bæði þau sem ákveða eftir námskeiðssetu að halda sínu striki með að nota efnin, og þau sem hafa að námskeiði loknu tekið þá ákvörðun að leita frekar annarra leiða í eigin bata.
Athugasemdir