Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokks, steig 68 sinnum í pontu til þess að ræða frumvarp um veiðigjöld sem samþykkt var á lokadegi Alþingis 14. júlí. Hún segist hafa viljað tjá sig um málið þar sem það varði hennar sérsvið og í ræðum sínum lagt áherslu á mikilvægi auðlindagjalda.
Halla Hrund skrifaði færslu á Facebook við þinglok þar sem hún sagðist ekki hafa tekið þátt í málþófi stjórnarandstöðunnar vegna málsins. Frumvarpið var rætt í yfir 162 tíma á Alþingi og varð þar með það mál sem lengst hefur verið rætt síðan Alþingi varð að einni málstofu árið 1991.
„Eins og margir vita ákvað ég persónulega að taka ekki þátt í málþófi stjórnarandstöðunnar,“ skrifaði hún. „Skoðun mína á málinu tjáði ég hins vegar skýrt í nokkrum ræðum á þingi, á fundum og í fjölmiðlum. Sú skoðun er í anda þess sem ég hef lengi talað fyrir í orkumálunum: Það er eðlilegt að nýting takmarkaðra náttúruauðlinda færi þjóðinni arð og hann á að aukast. Þess vegna styð ég markmið ríkisstjórnarinnar um að auka ábata þjóðarinnar af sjávarútvegi. Það er mikilvægt, og rétt áhersla sem ber að fagna.“
Flestar ræður Höllu Hrundar eftir að málþóf var boðað
Erfitt er að segja með vissu hvenær málþóf stjórnarandstöðunnar til að tefja atkvæðagreiðslu um veiðigjöld hófst en Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði 20. júní í pontu að það væri „heilög skylda“ andstæðinga frumvarpsins að standa í gegn málinu „í allt sumar ef til þarf“.
Fyrir það höfðu ýmsir stjórnarliðar sakað stjórnarandstöðuna um málþóf og starfsáætlun Alþingis felld úr gildi en þingi átti upphaflega að fresta 13. júní. Málþófinu lauk þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, lagði til að 71. grein þingskaparlaga yrði beitt til að takmarka ræðutíma um málið.
Halla Hrund flutti fimm ræður um veiðigjöld á vorþingi og 63 andsvör, sem eru styttri ræður sem mega að jafnaði ekki vera lengri en tvær mínútur.
Síðast fór hún í pontu vegna málsins 2. júlí síðastliðinn. Steig hún þá 11 sinnum í pontu, fyrst til að flytja ræðu og síðan andsvör. Fór hún síðast upp í andsvör kl. 21:49 eftir ræðu Nönnu Margrétar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Miðflokks. Aðeins þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna stigu í pontu það kvöldið.
Þá steig hún tvisvar í pontu 30. júní í andsvör og 32 sinnum dagana 19. til 21. júní.
Þátttaka í umræðum sé ekki málþóf
Í svari við fyrirspurn Heimildarinnar ítrekar Halla Hrund að hún hafi ekki tekið þátt í málþófinu með þessum ræðuhöldum. „Auðlindamál eru þungavigtamál sem hafa langtímaáhrif á samfélagið,“ segir hún. „Því er mikilvægt að taka þátt í þeim og koma sjónarmiðum á framfæri, sér í lagi ef þau tengjast sérsviði þingmanna sem er í mínu tilfelli meðal annars auðlindanýting.“
„Áhersla mín var á mikilvægi auðlindagjalda“
Hún segir það eðlilegt og að hlutverk þingmanna sé að sinna því af natni. „En allt annað er að tefja mál umfram slíkt í marga daga til þess að þau komist ekki í atkvæðagreiðslu,“ segir hún. „Ég hélt fjórar til fimm stuttar ræður og tók þátt í andsvörum sem eru oftast 1 mínúta, eins konar spurningar og svör. Áhersla mín var á mikilvægi auðlindagjalda sem var sjónarmið sem heyrðist minna af í þingsal og ég hef talað um lengi í samhengi við orkumálin.“
Athugasemdir