Samgöngustofa telur áætlun Reykjavíkurborgar um að fella tré í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis við Reykjavíkurflugvöll ekki uppfylla skilyrði sem stofnunin setti í janúar. „Af því leiðir að Samgöngustofa getur ekki fallist á þá niðurstöðu borgarinnar að með aðgerðaráætluninni séu tilmæli stofnunarinnar uppfyllt og málinu lokið,“ segir í bréfi Samgöngustofu sem barst í maí og borgarráð tók fyrir á fundi sínum á fimmtudag.
Meirihlutinn í borgarráði auk fulltrúa Framsóknarflokks furða sig á viðbrögðum Samgöngustofu við áætluninni.
Samgöngustofa gagnrýnir í bréfi sínu að aðgerðaráætlun borgarinnar hafi ekki verið unnin í samstarfi við Isavia og það hafi verið staðfest af Isavia. Þá veitti stofan Reykjavíkurborg frest til 9. júní til að upplýsa hvort borgin mundi skila uppfærðri aðgerðaráætlun í samræmi við skilyrði. Þá yrði veittur frestur til að skila áætluninni til 30. júní.
„Verði ekki gripið til framangreindra ráðstafana mun Samgöngustofa horfa til þeirra lagalegu úrræða sem stofnunin hefur samkvæmt lögum um loftferðir 80/2022 til að grípa til aðgerða,“ segir í bréfi Samgöngustofu.
Borgarráð tók bréfið fyrir á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag. „Samstarfsflokkarnir í borgarráði furða sig á svari Samgöngustofu,“ segir í bókun meirihlutaflokkanna. „Samstarfsflokkanir vísa því á bug að áætlunin uppfylli ekki þau skilyrði sem sett voru í þágu flugöryggis en beiðnin sneri að aðgerðaáætlun um trjáfellingar í Öskjuhlíð. Að okkar mati gerir aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar því góð skil hvernig borgin hyggst uppfylla skipulagsreglur Reykjavíkurflugvallar þar sem gengið var svo langt að leggja til að GPS merkja hvert einasta tré og fella þau sem skaga upp í skilgreindan VSS flöt sem geta talist íþyngjandi og umfangsmiklar aðgerðir. Telji Samgöngustofa að áætlunin uppfylli ekki þær kröfur sem lagt var upp með, væri æskilegt að veittar væru leiðbeiningar þess efnis hvað vanti upp á.“
Þá segja fulltrúar meirihlutans að samráð hafi verið haft við hagaliða og þar á meðal Isavia. „Eins er minnt á að ISAVIA er hagaðili málsins og getur það talist sérstakt að eftirlitsaðilinn og stjórnvaldið Samgöngustofa vísi alfarið á hagaðila. Að lokum minna samstarfsflokkanir á mikilvægi þess að þeir samningar sem gerðir hafa verið milli ríkis og borgar sem snúa annars vegar að flugvellinum og hins vegar að uppbyggingu kennslu- og æfingaflugvallar séu uppfylltir,“ segir í bókuninni.
Fyrrum borgarstjóri furðar sig
Einar Þorsteinsson, fulltrúi Framsóknarflokks í borgarráði og fyrrverandi borgarstjóri, tekur í sama streng. „Bréf Samgöngustofu vekur furðu því borgarfulltrúi Framsóknar telur ljóst af ferli málsins að aðgerðaáætlunin var unnin í samráði við bæði Isavia og Samgöngustofu í byrjun ársins,“ segir í bókun hans. „Afar mikilvægt er að fá skýrt fram hvaða kröfur Samgöngustofa setur fram gagnvart borginni og væntanlega Kópavogi vegna aðflugs yfir Kársnes. Framsókn telur brýnt að vinna málið í góðri sátt og með það að markmiði að tryggja rekstraröryggi flugvallarins enda gegnir hann afar mikilvægu hlutverki.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bættu því við að málið ætti að vinna í sem bestu samstarfi við flugmálayfirvöld í því skyni að tryggja flugöryggi á og við Reykjavíkurflugvöll. „Uppfæra þarf aðgerðaáætlun um trjáfellingar í Öskjujhlíð í þágu flugöryggis,“ segir í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks. „Jafnframt þarf að greiða fyrir afgreiðslu nokkurra smávægilegra skipulagsbreytinga í því skyni að auka öryggi á Reykjavíkurflugvelli. Breytinganna er þörf vegna fyrirhugaðrar uppsetningar nýrra aðflugsljósa við vesturenda flugvallarins, færslu eldsneytisgeyma og uppsetningu á myndavélamastri.“
Athugasemdir