Að hugsa – er samtal við sjálfan sig. Forsendan fyrir því að geta sett sig í spor annarra er að geta hugsað út frá tveimur eða fleiri sjónarhornum. Sjálfsmyndin á ekki að vera einsleit, hún má vera eins og mósaíkmynd.
Ég skrifaði bókina Vending – vínlaus lífsstíll (2024) en glíman í bókinni felst í því að venda kvæði sínu í kross og mæta eigin hugsunum. Það var töluverð áskorun að skrifa þessa bók því ég þurfti að koma skikki á hugarstarfið og þær tilfinningar sem vilja ráða för.
Ef við nemum staðar og viljum snúa við blaðinu vaknar innri mótstaða sem kalla má skugga, rödd eða tvífara. Þetta er alþekkt í sögu mannsandans.
Hver hefur sinn tvífara að draga
Í textanum nota ég því hugtakið tvífari til að lýsa þeirri ummyndun sem getur átt sér stað þegar persóna nemur staðar, horfir í spegilinn og uppgötvar að hún er ekki á þeirri leið sem hún ætlaði sér. Hún sér skuggamynd sína, sem er sterk löngun og þrá sem ræður of oft ferðinni og gerir það sem persónan sjálf vill ekki.
Áður hafði ég lesið skáldsögur um tvífarann til dæmis eftir Fjodor Dostójevskí, Robert Louis Stevenson, José Saramago, Valdimir Nobokov og smásögur eftir Edgar Allan Poe, Guy de Maupassant og heillaðist af Skugganum eftir H.C. Andersen. Ég held að sjálfselska einkenni oft tvífarann.
„Löngunin til að lifa dauðann af knýr okkur þá til að hugsa um hvernig best sé að lifa lífinu, dyggðugu eða lastalífi, og þetta skapar svo innri átök
Texti Páls postula í Rómverjabréfinu lýsir tvífaranum vel. „Það sem ég vil geri ég ekki, hitt sem ég hata, það geri ég.“ og „En ef ég geri það sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur sem framkvæmi það heldur syndin sem í mér býr.“ (Róm. 7.14–22). Syndin er hér tákn yfir tvífarann.
Skugginn, sem gerir það sem við viljum ekki, hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum aldirnar, jafnvel kallaður djöfull og púki. Otto Rank (1884–1939) sálgreinir taldi að óttinn við dauðann og hugmyndin um að sálin gæti lifað líkamann, hafi skapað fyrsta tvífarann. Löngunin til að lifa dauðann af knýr okkur þá til að hugsa um hvernig best sé að lifa lífinu, dyggðugu eða lastalífi, og þetta skapar svo innri átök.
Sókrates talar á svipaðan hátt um sálina. Hún flytur ekkert með sér til handanheima nema menntun sína og siðferði, að hans mati. Þessi túlkun býður líka upp á tvífara. Sókrates taldi að eftir dauðann myndi sálin annaðhvort elta skuggamyndina eða fylgjuna sína.
Ég varð spenntur að greina eigin tvífara þegar ég skrifaði bókina mína. Ég greindi tvöfalt sjálf í þessum efnum, eldri útgáfuna af mér sem hafði tekið að sér það hlutverk að tefja mig í viðleitni minni til að breyta um lífsstíl; telja mér trú um að ég þurfi þess ekki. Þessi útgáfa er hluti af undirvitund, hvötum og sögu sem fylgir mér. Þetta er ákveðin barátta því oft er ríkjandi rödd í höfðinu á fólki sem telur því trú um að það sé ekki gáfulegt að breyta miklu í háttum sínum. Röddin er íhaldssöm og gerir allt til að halda í sitt. Ég skrifaði á tímabili stílabækur sem voru eins konar samtal við tvífara minn, skrifin voru mikilvægur liður í því að ná sátt, mæli með slíkum skrifum.

Hvaða lærdóma má draga af þessu?
Hver hefur sinn djöful að draga, segir málshátturinn og var merkingin upphaflega bókstafleg. Ég kortlagði gömlu útgáfuna og mótaði nýja og nú þekki ég metnað hennar, lífsorku og lífsvenjur. Þótt hún væri í mótun þá tapaði ég ekki sjónar af henni þegar sú gamla náði yfirhöndinni um stund.
Flestir eiga við einhvern veikleika að stríða, það gæti verið leti eða sérhlífni, það gæti verið einhver sjálfsblekking og agaleysi, það gæti jafnvel verið tilhneiging til að kvelja sjálfan sig og aðra eða einhver tegund af fíkn. Listinn yfir mannlega ókosti er langur en það er listinn yfir mannkosti líka. Dyggðamegin getur markmiðið falist í því að vera skapandi, skýr, öguð, gefandi og iðjusöm.
„Sættist við tvífarann ykkar, þótt hann taki frekjuköst og sé lævís og lipur
Útgáfurnar tvær af mér eru eins og litir sem eiga ekki nógu vel saman. Þær hafa hvor sinn ljósstyrk, önnur verður því að vera ráðandi litur. Ég þurfti harðfylgni til að takast á við skuggamyndina sem vann leynt og ljóst að því að fela það sem mér var kært.
Sættist við tvífarann ykkar, þótt hann taki frekjuköst og sé lævís og lipur. Friður getur komist á í sálinni og samlífið orðið farsælt. Hann fylgir mér eflaust eins og skugginn, en það er líka hans staður. Lífið væri eflaust bragðdauft ef ekki væri tekist á við tvífarann sem hverfur aldrei en getur orðið undir og dregið sig í hlé.
Ég er hrifinn af þessari líkingu og goðsögn um tvífarann. Jafnvel sagan um Jesúm og djöfulinn sem freistar hans í eyðimörkinni er tvífarasaga. Tvær raddir og loks segir önnur: „Vík brott, Satan!“ (Matt.4. 10). Tvífarinn hefur því lengi verið kunnur og hann er meðal annars að finna í nýlegri bók eftir Naomi Klein sem nefnist Doppleganger og ég mæli með.
Hvorki ég né tvífari minn erum ein rödd heldur margar. Í bókinni minni skrifaði ég ekki bara um tvífarann heldur einnig „raddirnar“ og áhersluna að tala við sjálfan sig. Hugsun er þáttur í hugarstarfi þar sem samtal milli mín og mín á sér stað, tveir fyrir einn!
Hver manneskja er mótsagnakennd og þarf að hafa taumhald á sjálfri sér. Það er nauðsynlegt að efast. Ef við verðum eintóna í höfðinu þá verðum við líka auðsveip og við getum orðið alræðinu að bráð eða spegluð útgáfa af einhverjum öðrum.
Ergó
Að hugsa og að skrifa er að tala við sjálfan sig og í því samtali er mikilvægt að heyra fleiri en eina rödd. Skugginn og fylgjan eða engillinn og púkinn og tvær útgáfur eru tákn fyrir innra samtal. Markmiðið er að ná sátt, ekki að þurrka út, heldur að efla styrkleika sína og dempa veikleika. Sættast við tilveru tvífarans með einni, sterkri fjölþátta sjálfsmynd.
Athugasemdir