„Það er mikilvægt að hafa í huga að þótt drengurinn segist vilja dvelja hér á landi og hér á landi sé fjölskylda sem vilji sjá um hann, þá á hann foreldra í heimalandi. Hvorki íslensk né kólumbísk barnaverndaryfirvöld hafa svipt þau forsjá,“ segir í yfirlýsingu frá Útlendingastofnunar vegna máls hins sautján ára gamla Oscar Anders Florez Bocanegra sem hefur verið synjað um landsvistarleyfi.
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli í dag vegna niðurstöðu kærunefndar útlendingamála í máli Oscars. Mótmælin hefjast á sama tíma og þingfundur, klukkan 15.
Mikið hefur verið um mál hans í fjölmiðlum og fósturforeldrar hans stigið fram og rætt um þann órétt sem Oscar upplifir. Þau segjast alls staðar ganga að lokuðum dyrum.
„Þegar endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi liggur fyrir þarf því að hafa hugfast að það getur gert viðkvæma stöðu barns enn erfiðari að ýtt sé undir væntingar sem ekki verða uppfylltar“
Í yfirlýsingu Útlendingastofnunar segir ennfremur að „það er eðlilega þungbært að fá aðra niðurstöðu í máli sínu en vonir stóðu til. Þegar endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi liggur fyrir þarf því að hafa hugfast að það getur gert viðkvæma stöðu barns enn erfiðari að ýtt sé undir væntingar sem ekki verða uppfylltar.“
Þá mótmælir Útlendingastofnun því sem haldið hefur verið fram, að umsókn Oscars um vernd hafi aldrei verið skoðuð efnislega af stjórnvöldum; málsástæður hans hafi verið metnar á sjálfstæðan hátt þegar hann var hér á landi ásamt föður sínum og systrum, í samræmi í samræmi við reglur laga um útlendinga og að teknu tilliti til ákvæða barnaverndarlaga og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.
Endurtekinni umsókn vísað frá
„Þegar drengurinn sótti síðar um vernd sem fylgdarlaust barn var staða hans vissulega önnur en áður. Eftir rannsókn Útlendingastofnunar var niðurstaðan að sú breyting væri þó ekki þess eðlis að hún breytti fyrri ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn hans um alþjóðlega vernd. Endurtekinni umsókn hans var því vísað frá,“ segir í yfirlýsingu Útlendingastofnunar. Þar er síðan tekið fram að kærunefnd útlendingamála hafi nú staðfest þessa niðurstöðu og úrskurðað að Oscar uppfylli ekki skilyrði laga til að fá alþjóðlega vernd.
Hér má lesa úrskurð kærunefndar í málinu í heild sinni.
Athugasemdir