Þorsteinn Már Baldvinsson mun láta af störfum sem forstjóri Samherja í júní næstkomandi en hann hafði verið forstjóri fyrirtækisins frá stofnun árið 1983. Þessu greindi hann frá í bréfi til starfsfólks í dag sem sjá má á vefsíðu fyrirtækisins.
Sonur Þorsteins Más, Baldvin Þorsteinsson, mun taka við af föður sínum, en hann hefur verið stjórnarformaður í Samherja frá árinu 2023.
„Sjávarútvegur hefur verið mitt ævistarf og það hafa verið sönn forréttindi að byggja upp þetta félag með ykkur á undanförnum rúmum fjórum áratugum,“ skrifaði Þorsteinn Már.
„Ég ákvað fyrir löngu síðan að ég ætlaði að hætta sem forstjóri á mínum forsendum áður en ég yrði gamall og leiðinlegur. Eftir rúma fjóra áratugi í svona starfi er eðlilegt að líði að starfslokum. Allt hefur sinn tíma og sjálfum finnst mér þessi tímasetning heppileg. Ekki dugar að biða eftir lygnum sjó, í þessari grein kemur sá tími líklega seint.“
Hann segist þó ekki alveg sestur í helgan stein, enda sitji hann í stjórnum félaga svo sem Samherja fiskeldi ehf. og Síldarvinnslunni hf.
Athugasemdir