Ég tilheyri þúsaldarkynslóðinni, „millenials“, sem eru samkvæmt óvísindalegum kynslóðafræðunum í krónískri klemmu milli alviturrar og dómharðrar boomer-kynslóðarinnar og yngri Z-kynslóðarinnar sem einnig er dómhörð og alvitur en með mun styttri athyglisspönn. X-kynslóðin þvælist svo auðvitað þarna á milli en er heldur minna til vandræða.
Þessi staða er auðvitað streituvaldur í sjálfri sér og einhver endalaus þversögn fólgin í því að frelsið sem fylgdi því að alast upp hjá foreldrum, fæddum á eftirstríðsárunum, hafi gert mig svo grjótharða að ég þori beinlínis að svara símtölum úr ókunnugum númerum og jafnvel dyrabjöllunni þegar ég á ekki von á neinum.
Mamma og pabbi höfðu, sem betur fer hefði maður haldið, takmarkaða trú á skipulögðum tómstundum og treystu mun betur á svona almennt en hóflegt afskiptaleysi.
Boomer-kynslóðin aðhylltist nefnilega uppeldisstefnu hinna munnlegu fyrirmæla, svolítið eins og ræninginn Matthías þegar hann hleypti Ronju sinni eftirlitslausri út í óvissuna og æpti á eftir henni óljós fyrirmæli um að passa sig á hinum og þessum skrímslum og mannætum án óþarfa málalenginga.
Pabbi var nú enginn ræningi og þaðan af síður mamma, en þau bjuggu yfir æðruleysi góðs fólks sem treysti veröldinni mögulega eitthvað aðeins betur en raunverulegt tilefni var til. Þessi kærleiksríka og stefnulausa uppeldisstefna varð til þess að ég er hert og brennd í ýmiss konar eldi en skemmtanagildið er þó algjörlega óumdeilt.
Vissulega hef ég verið bitin af nokkrum grádvergum en það grær víst áður en ég gifti mig og allt byggir þetta upp seiglu og karakter. Ég er sjaldan kvíðin, finnst alls konar fólk yfirleitt áhugavert, þar á meðal grádvergar, og ég vil helst ganga þótt það sé rok og rigning.
Þvert á það sem vitur maður hefur sagt er ungum börnum nefnilega ekkert sérstaklega hollt að missa hvorki móður sína né föður
Þvert á það sem vitur maður hefur sagt er ungum börnum nefnilega ekkert sérstaklega hollt að missa hvorki móður sína né föður. Hins vegar er frelsið frá þeim eitthvað það besta sem þau geta gefið barni sínu.
Frelsi til að skoða heiminn og gera mistök. Læra að halda kúli og finna lausnir. Fara að heiman, lenda í ævintýrum, þvælast. Finna skrítnu gleðina sem býr í hversdagsglegum og ómarkvissum ferðum án fyrirheita. Eyða tíma sem er laus undan klukkum og stundatöflum. Fara í leiki sem hafa ekki markmið vegna þess að þeir eru markmið í sjálfum sér.

Ilmurinn af rigningu á malbikinu, trén í Öskjuhlíðinni, þykkt og daunillt svartamyrkrið í neðanjarðarbyrgjunum, pálmatrén í Kringlunni. Lyktin á heimilum ókunnugra, draugalegar myndir á veggjum, heklaðir dúkar, þykk gólfteppi, kettir og tóbakslykt.
Margar skrítnar sögur. Einkennilegt fólk, sumir varhugaverðir en margir góðir. Flestir þó einhvers konar blanda af þessu tvennu og þar liggur efinn sem ekki verður umflúinn. Barn á líf sitt, hamingju, þroska og öryggi undir tengslum sínum við aðrar manneskjur á sama tíma og þessar sömu manneskjur geta valdið því óbætanlegum skaða. Hvernig tökumst við eiginlega á við þennan hrylling?
Okkur krakkana dreymdi um Chicago Bulls, My Little Pony, VHS og BMX frekar en að fá að fara í sveit á sumrin, smala kúm og fá kartöflupoka í laun
Það var alltaf einhver óútskýrður munur á veröld skólabókanna og veruleikans sem við bjuggum í. Í skólanum lásum við bækur þar sem stelpur voru telpur og gengu í litlum kjólum og lesendur voru stranglega áminntir um kristin gildi og að hanga ekki aftan í bílum. Ég velti stundum fyrir mér hvar þessir krakkar væru sem voru nógu leiðir á lífinu til að hanga aftan í bílum á Miklubrautinni þegar umferðin var sem þyngst. Varð þó aldrei vitni að því.
Æðsta markmið barna í öllum skólabókum var líka að fara í sveit á sumrin og lifa eins og í teikningu eftir Halldór Pétursson. Skólinn var kirfilega fastur í pastellituðu miðbiki tuttugustu aldarinnar þótt gamla veröldin væri komin í upplausn.
Fáar mæður voru heimavinnandi, allavega ekki mín. Okkur krakkana dreymdi um Chicago Bulls, My Little Pony, VHS og BMX frekar en að fá að fara í sveit á sumrin, smala kúm og fá kartöflupoka í laun.
Þetta hugmynda- og fagurfræðilega misræmi er að líkindum álíka mikið í dag, ef ekki hreinlega meira, og engin leið er að verja börnin fyrir bjánahrollinum sem fylgir því að alast upp í heimi sem breytist á klukkutíma fresti og eldri kynslóðir eiga ekki séns í að fylgja, hvað þá skilja. Hvernig undirbýr maður börn fyrir veröld sem enginn veit hvernig verður? Hvað er okkur að yfirsjást? Hvernig þolum við þennan hrylling sem fylgir óvissunni?
Sannleikurinn er sá að við þolum hryllinginn mun betur en margir halda. Börnin líka. Og þau geta þeim mun betur tekist á við falsfréttirnar, áreitið, misræmið, efann og flækjustigið ef þau fá leyfi umheimsins til að takast á við mótlætið. Hrufla á sér hnén, missa af strætó, elta kött inn í húsagarð með slímugum gosbrunni og láta einhvern brjálaðan kall öskra á sig (byggt á sönnum atburðum). Sinnast við vini sína og sættast við þá aftur. Lenda í óveðrinu og fatta að vindurinn er ekki svo slæmur og stundum er meira að segja hægt að dansa við hann. Allt með réttum öryggisbúnaði að sjálfsögðu og ítarlegri leiðsögn um viðeigandi umgengni við grádverga og skógarnornir, stikaðar gönguleiðir við Helvítisgjána og uppbyggileg samskipti við rassálfa.
Athugasemdir