Mér finnst þessi röksemdafærsla ekki ganga upp,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor emeritus í hagfræði, um fullyrðingar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þess efnis að hækkun veiðigjalda leiði til flutnings fiskvinnslu úr landi.
Samtökin hafa mótmælt fyrirhuguðum breytingum á veiðigjaldi og halda meðal annars fram að ríkið sé að taka upp „norsku leiðina“, sem geti valdið atvinnumissi á landsbyggðinni. Þau telja einnig að sjávarútvegurinn „mali ekki gull“ og að veiðigjaldið sé nú þegar hærra en nauðsyn krefur.
Arðsemi eigin fjár ekki lýsandi mælikvarði
Í myndböndum sem SFS birtu á samfélagsmiðlum leiðréttir Birta Karen Tryggvadóttir, hagfræðingur samtakanna, ýmislegt í máli Hönnu Katrínar Friðriksson ráðherra um veiðigjöld. Hún mótmælir meðal annars fullyrðingum um að sjávarútvegurinn „mali gull“ og bendir á að arðsemi hans sé sambærileg annarri atvinnustarfsemi, jafnvel minni en í byggingargeiranum og smásölu. Til stuðnings sýnir hún súlurit um meðalarðsemi eigin fjár 2019–2023, en á því má sjá að sjávarútvegurinn sé með aðeins minni meðalarðsemi en smásala.

Þórólfur segir hins vegar arðsemi eigin fjár ekki vera lýsandi mælikvarða til að hrekja þá fullyrðingu að sjávarútvegurinn mali gull.
„Atvinnugrein getur gengið mjög vel þótt einstök fyrirtæki innan atvinnugreinarinnar gangi ekkert sérstaklega vel samkvæmt bókhaldinu. Fyrir því eru margar ástæður. Eitt er það til dæmis að rekstrarfélög í sjávarútvegi eru í eigu eignarhaldsfélaga. Og eignarhaldsfélögin taka þá til sín tekjurnar frá rekstrarfélögunum. Þau skuldsetja rekstrarfélögin og þá þarf rekstrarfélagið að borga stórar fúlgur í vexti til eignarhaldsfélagsins,“ útskýrir hann.
73 milljarða hagnaður 2023
Þetta hafi í för með sér að þrátt fyrir að hagnaðurinn sé gríðarlega mikill þá sjáist hann ekki í rekstrarfélaginu. En Þórólfur segir að tölurnar sem SFS taki mið af séu einmitt frá rekstrarfélögunum, ekki eignarhaldsfélögunum. „Þau eru bara að horfa á rekstrarfélögin. Svo eru náttúrlega alls konar leiðir til að láta bókhaldið líta vel út,“ segir hann.
Þórólfur bendir á að honum þyki besta aðferðin til að skoða heildarafkomu í sjávarútvegi vera árgreiðsluaðferð sem Hagstofan notist við í skýrslu sinni um Hag veiða og vinnslu. Þar sé horft í gegnum eignarhaldið og aðferðin truflist því ekki af aðgreiningu eignarhalds- og rekstrarfélaga.
Samkvæmt þessari aðferð Hagstofunnar var hreinn hagnaður sjávarútvegsins 24 prósent af tekjum, að frádregnum milliviðskiptum með hráefni, árið 2023. „Í fjárhæðum talið nam hagnaðurinn tæpum 73 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð rúmum 38 milljörðum króna,“ segir í skýrslu Hagstofunnar frá því í janúar.
Svo erfist kvótinn eins og ekkert sé og enginn segir neitt.
Þessir bílar hafa undanfarin ár verið að brjóta niður íslenska vegakerfið og ekki tekur Útgerðarin þátt í því að laga eftir sig skemmdir þjóðvegum þjóðarinnar