Sagan er afar mikilvæg, án söguþekkingar er erfitt að skilja samfélagið og heiminn sem við byggjum. Margir hafa sagt fleyg orð um mikilvægi söguþekkingar, spænsk-bandaríski heimspekingurinn, rithöfundurinn og ljóðskáldið George Santayana sagði að þeir sem ekki þekktu söguna væru dæmdir til að endurtaka hana, Winston Churchill sagði að þeir sem lærðu ekki af sögunni væru dæmdir til að endurtaka hana. George Bernard Shaw, Karl Marx og Mark Twain hafa einnig látið falla fræg ummæli um söguna.
Íslendingar stæra sig af því að vera söguþjóð, en hvað vitum við í raun um okkar eigin sögu? Jón J. Aðils og Jónas frá Hriflu mótuðu söguskilning Íslendinga með bókum sínum. Svo mjög að enn má oft heyra enduróm þessarar söguskoðunar í hátíðarræðum stjórnmálamanna og víðar. Draga má þennan skilning saman: Saga Íslands hafi byrjað þegar frjálsbornir höfðingjar í Noregi sættu sig ekki við kúgun Haraldar hárfagra konungs og flýðu til Íslands þar sem þeir settu á stofn fyrirmyndarríki og fyrsta löggjafarþing heims. Það hafi verið gullöld Íslendinga sem hafi lokið þegar Gissur Þorvaldsson jarl sveik þjóðina í hendur Noregskonungs með Gamla sáttmála 1262. Þá hafi lagst miðaldamyrkur yfir þjóðina og ekki hafi byrjað að rofa til fyrr en með fæðingu Jóns Sigurðssonar 1811. Danir hafi kúgað og arðrænt þjóðina og selt henni maðkað mjöl í krafti svínslegrar einokunarverslunar.
Íslendingar stæra sig af því að vera söguþjóð en hvað vitum við í raun um okkar eigin sögu?
Á síðustu áratugum hafa sagnfræðingar almennt skotið í kaf þessar hugmyndir. Nefna má fjölda ritsmíða og bóka eftir virta sagnfræðinga eins og Önnu Agnarsdóttur, Gísla Gunnarsson, Guðmund Hálfdánarson, Guðmund Jónsson og Helga Skúla Kjartansson og miklu fleiri. Sjálfur nefni ég til viðbótar þrjú rit: Mellan kung och allmoge-ämbetsmän, beslutsprocess och inflytande på 1700-talets Island doktorsritgerð Haralds Gustafssonar, Hnignun, hvaða hnignun eftir Axel Kristinsson, sem er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur í Reykjavíkur- akademíunni, sem kom út 2018 og Á söguslóðum eftir Helga Þorláksson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands sem kom út 2022. Í öllum þessum bókum er gamla söguskoðunin gagnrýnd og eiginlega jörðuð. Engu að síður virðist þetta enn viðtekinn söguskilningur þorra Íslendinga og sérstaklega stjórnmálamanna.

Harald Gustafsson, sem skrifaði doktorsritgerð sína undir handleiðslu dr. Björns Þorsteinssonar, sagnfræðiprófessors við Háskóla Íslands. Í henni kemur fram að íslenskir embættismenn hafi ráðið langmestu á Íslandi 18. aldar og langflestir voru úr þeirri stétt sem Gustafsson líkir við aðal. Þetta fólk átti eða réði 90% jarða, bændur voru nánast allir leiguliðar eða 95 prósent þeirra.
Gustafsson segir að örlög tillagna landsnefndar um breytingar til hagsbóta almennings sýni glögglega hversu valdastéttinni tókst að verja hagsmuni sína og koma í veg fyrir breytingar á samfélaginu. Tilgangur landsnefndarinnar virðist hafa verið að efla fiskveiðar og fjölga sjálfseignarbændum til að bæta efnahag landsins. Áhrif „aðalsins“ eru einnig augljós þegar hugað er að hvernig honum tókst að hrinda áformum dönsku stjórnarinnar að skattleggja auðstéttina (Plus ça change, plus c´est la même chose).
Annað dæmi um áhrif auðstéttarinnar er að kaupmönnum var bannað að stunda útgerð og þannig keppa um vinnukraft við landbúnaðinn. Þarna voru grjótharðir hagsmunagæslumenn og dr. Gísli Gunnarsson skrifaði í blaðagrein í Morgunblaðið 11. maí 1988: „.... að þorri íslenskra landeigenda og embættismanna hafi verið andsnúinn afnámi einokunarverslunarinnar af því að þeir hafi óttast eflingu fiskveiða á kostnað landbúnaðar“.
Það er einnig algengur misskilningur að Íslendingar hafi verið mikil fiskveiðiþjóð á þessum tíma. Svo var ekki, það eru heimildir um að það hafi verið 3–400 erlend skip við veiðar á Íslandsmiðum 1771. Dr. Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus, segir það hafa valdið furðu allra útlendinga sem heimsóttu landið af hverju Íslendingar hefðu ekki stundað meiri fiskveiðar.
Dr. Helgi Þorláksson, prófessor emeritus, segir að hugmyndin um að landnámsmenn hafi allir átt glæsileg skip sé ekki sannfærandi, þetta hafi verið dýr skip og bara á færi efnamanna og af hverju hefðu norskir efnamenn átt að setjast að á Íslandi? Miklu líklegra sé að landnámsmenn hafi ekki ráðið yfir jarðnæði, þeir hafi verið yngri synir. Margir hafi komið við á Bretlandseyjum og fengið sér kvonfang þar.
Axel Kristinsson leggur sitt af mörkum til að jarða goðsögn sem fundin var upp í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga um meinta hnignun íslensks samfélags eftir „gullöld“ á þjóðveldistímanum. Axel gagnrýnir harðlega staðhæfingar um að Ísland hafi verið „fátækasta land Evrópu“ um aldamótin 1900. Hann efast um staðhæfingar um að erlend yfirráð hafi verið skaðleg fyrir Íslendinga, engin óvenjuleg kúgun hafi verið í gangi á Íslandi, hafi kúgunin verið með vægara móti.
Hugsanlega sjá einhverjir hagsmuni í því að útmála allt erlent og alþjóðlegt sem hættulegt en hið innlenda og þjóðlega sem æskilegt
Þjóðernisrómantík 19. og 20. aldar varð illu heilli til þess að upphefja þjóðerniskennd/rembing/hroka og líta á hið innlenda og þjóðlega sem æskilegt og jákvætt en flest erlent og alþjóðlegt neikvætt, jafnvel hættulegt og ógnvekjandi. Hugmyndin um ásælni útlendinga, samsæri gegn Íslandi og hræðsla við útlendinga á ættir að rekja til þessarar þjóðernisminnimáttarkenndar. Í sambandslögunum 1918 kveður önnur grein á um að Danir skuli njóta sama réttar á Íslandi og Íslendingar og öfugt. Í umræðu fyrir atkvæðagreiðslu um sambandslögin töldu sumir ekki hægt að samþykkja þetta ákvæði vegna ótta um að Danir fjölmenntu til Íslands til að taka öll völd. Auðvitað var þetta ástæðulaus ótti.
Í söguskilningi þjóðernisrómantíkunnar voru Danir taldir hafa verið sérstaklega vondir við Íslendinga, ekki síst er einokunarverslunin talin til dæmis um það. En dönsk stjórnvöld voru ekkert verri við Íslendinga en fólk í öðrum hlutum Danaveldis. Einokunarverslun var ekki sett á til að arðræna Íslendinga sérstaklega, þetta var hluti merkantílisma (kaupauðgisstefnu) sem var í tísku.
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir sagnfræðingur skrifar á Vísindavefinn um þessa ímynd einokunarverslunarinnar: „Hún á rætur að rekja til þjóðernislegrar sagnritunar sem spratt upp úr sjálfstæðisbaráttunni, í lok nítjándu aldar og á fyrri hluta tuttugustu aldar, þar sem Dönum var kennt um flest sem aflaga fór á Íslandi. Má þar nefna sem helsta fulltrúa þjóðernishugmynda sagnfræðinginn Jón J. Aðils og Íslandssögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu sem kennd var í barnaskólum hér á landi allt fram á síðustu áratugi tuttugustu aldar.“
En af hverju hafa allar þessar rannsóknir, öll þessi rit í meira en hálfa öld ekki náð að breyta hefðbundnum söguskilningi Íslendinga? Svarið liggur ekki í augum uppi, hugsanlega sjá einhverjir hagsmuni í því að útmála allt erlent og alþjóðlegt sem hættulegt en hið innlenda og þjóðlega sem æskilegt. Hugsanlega er það vegna þess að upplýsingaóreiða getur verið langlíf.
Lítið dæmi um hversu erfitt getur verið að leiðrétta falsfréttir er sú ímynd að Napóleón Frakkakeisari hafi verið lágvaxinn. Það var sú mynd sem breskir skopteiknarar drógu upp af þessum erkifjanda breska heimsveldisins. Í raun var Napóleón meðalmaður að hæð.
Athugasemdir