Karlmaður á áttræðisaldri var í apríl sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness fyrir grófar nauðganir gegn ólögráða barnabarni sínu. Maðurinn var borinn þeim sökum að hafa nauðgað dótturdóttur sinni, annars vegar árið 2015 og hins vegar árið 2019, með því að „nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans sem afa hennar“.
Bæði brotin áttu að hafa átt sér stað meðan dótturdótturin var í pössun þar sem hún gisti hjá ákærða.
Maðurinn var sýknaður en dómurinn taldi framburð brotaþola ekki nægilega skýran og áreiðanlegan, auk þess sem ósamræmi væri í lýsingum hennar um meint brot – bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Að mati dómsins gætti töluverðs óskýrleika og jafnvel ósamræmis í frásögn stúlkunnar um hvað afi hennar ætti að hafa gert á hennar hlut.
Aldur stúlkunnar kemur ekki fram í dómnum. Í gögnum málsins kemur þó fram að málsaðilar séu sammála um að afinn og barnabarnið hafi síðast hist í fermingarveislu stúlkunnar, og má því áætla út frá því að brotin hafi átt sér stað áður en hún komst á fermingaraldur.
„Svona bullukolla“
Eiginkona afans bar um það vitni fyrir dómi að hún hefði alltaf verið heima þegar stúlkan gisti hjá þeim hjónum og afinn hafi því aldrei verið einn með dótturdótturinni. Við yfirheyslu þvertók afinn fyrir að hafa brotið gegn dótturtóttur sinni og að hann áttaði sig ekki á því af hverju hún bæri slík ósannindi á hann.
Hún ætti það til að vera „svolítið mikil svona bullukolla.“ Samband hans við dótturdótturina og systkini hennar hafi verið náið og gott þangað til dóttir hans hætti samskiptum við hann um áramótin 2021-2022. Börnin hefðu oft verið í pössun hjá honum og konu hans.
Að mati dómsins þótti framburður afans hnökralaus og trúverðugur. Þá ætti hann sér stoð í öðrum vitnisburðum og skjalfestum sönnunargögnum.
Greindist með áfallastreitu
Stúlkan sótti tíu sálfræðitíma hjá Barnahúsi 2022-2023 þar sem hún greindist með áfallastreituröskun. Í dóminum segir að einkenni hennar hafi einkum birst í endurupplifun ágengra minninga um meint kynferðisbrot.
Sagði sálfræðingur frá Barnahúsi fyrir dómi að einkenni áfallastreituröskunar hjá stúlkunni hefðu verið „svo sértæk“ fyrir því að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi að sálfræðingurinn taldi engan vafa leika á að afi stúlkunnar hefði gert eitthvað á hennar hlut. Einkennin gætu ekki stafað af öðru áfalli en kynferðisbrotum ákærða.
Þetta þótti þó ekki styðja sérstaklega framburð stúlkunnar fyrir dómi, en hún hefði hætt meðferðarviðtölum áður en til þess kom að rætt yrði um meint kynferðisbrot afa hennar gegn henni. Ályktun sálfræðingsins þótti því óvarleg.
Þrátt fyrir stöðuga frásögn stúlkunnar að afi hennar hefði brotið á heni kynferðislega voru tiltekin atriði sem vöktu þá spurningu hvort hún væri „örugglega að lýsa atviki sem hún hafi upplifað af eigin raun,“ að því er segir í dómnum.
„Eftir standa orð ákærða gegn orðum brotaþola um meint kynferðisbrot. Þykja þau hvort fyrir sig trúverðug og hallar alls ekki á ákærða við slíkt mat.“
Athugasemdir