Hinsegin kórinn fordæmir allt ofbeldi og misrétti gegn hinsegin fólki. Alvarlegt bakslag hefur átt sér stað í réttindabaráttu hinsegin fólks víða um heim og við finnum því miður fyrir því bakslagi hér heima. Nýlega fengum við fréttir frá Bretlandi þar sem hæstiréttur þar í landi úrskurðaði að kona er sú sem fékk það líffræðilegt kyn við fæðingu. Þar með neita þau tilvist transfólks og fólks með ódæmigerð kyneinkenni (intersex).
„Ógnin er veruleg og hún færist nær okkur með hverri vikunni sem líður“
Mikið hefur borið á hatri í garð hinsegin fólks vestanhafs og okkur berast nýjar fréttir í hverri viku um það hvernig frelsi þeirra hefur verið takmarkað á nýja vegu. Sértu sjáanlega hinsegin er leyfilegt að neita þér um mikilvæga þjónustu, þú gætir þurft að sanna kyn þitt á klósettum og aðkast á hinsegin fólk hefur aukist til muna. Ógnin er veruleg og hún færist nær okkur með hverri vikunni sem líður.
Bandaríkin hættusvæði fyrir hinsegin fólk
Kórinn fékk boð um að fara til Bandaríkjanna í sumar og taka þátt í World Pride hátíðinni sem haldin er í Washington þetta árið. Okkur bauðst einstakt tækifæri að koma fram í Smithsonian safninu og vorum við full tilhlökkunar. Þegar nær dró og kosningar í Bandaríkjunum voru að baki, benti ýmislegt til þess að þar í landi væri að hefjast herferð gegn hinsegin fólki, leidd af nýkjörnum forseta. Þetta er mikil afturför fyrir Bandaríkin, sem hafa verið framarlega í mannréttindabaráttu hinsegin fólks síðustu ár, þó vissulega verði fólk um allan heim fyrir mismunun og áreiti vegna hvern það elskar eða hvernig það kýs að tjá kyn sitt.
Strax eftir að Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna gaf hann út tilskipun um að alríkið viðurkenni bara tvö kyn, karla og konur. Sú tilskipun ógnar félagslegu og lagalegu öryggi hinsegin fólks. Tilskipunin ýtir undir fordóma og hatur og strax eru farnar að berast fréttir um árásir og áreiti sem hinsegin fólk verður fyrir í auknum mæli, ekki síst transfólk. Við fögnum viðbrögðum utanríkisráðherra Íslands sem hefur talað opinskátt um það í fjölmiðlum að staða hinsegin fólks muni ekki breytast hér á landi og ráðuneyti hennar hefur gefið út sérstakar ferðaleiðbeiningar fyrir hinsegin fólk.
„Árás á eina hinsegin manneskju jafngildir árás á okkur öll!“
Vegna þessa ástands hætti Hinsegin kórinn við ferðina til Washington. Við skynjuðum óöryggi í hópnum og stóðum frammi fyrir þeim veruleika að innan okkar raða væri fólk sem ekki er velkomið til Bandaríkjanna og er í aukinni hættu á að lenda í átökum eða erfiðleikum. Það kom ekki til greina að skilja hluta kórsins eftir heima, við æfum sem heild og ferðumst sem heild. Við látum ekki koma illa fram við systkini okkar eða eyðileggja samstöðuna sem ríkir í okkar samfélagi, jafnvel þó slíkt sé leitt af forseta Bandaríkjanna. Árás á eina hinsegin manneskju jafngildir árás á okkur öll!
Samstaða skiptir miklu máli
Við megum ekki láta alla sigra sem við höfum unnið í mannréttindabaráttu síðustu áratuga verða að engu vegna þess að við sofnum á verðinum á meðan fordómar og hatur grassera í samfélaginu. Við þurfum að auka umræðuna um réttindi hinsegin fólks og leggja áherslu á fjölbreytileika mannfólksins. Við eigum ekki að rífast um það hvort við séum með XX eða XY litninga eða hvern við kjósum að elska. Við eigum að hlúa að mennskunni sem býr í okkur öllum, hvernig svo sem við skilgreinum okkur.
Miklar framfarir urðu í réttindamálum hinsegin fólks á Íslandi þegar við fórum að ganga gleðigöngu um Miðborgina og þjóðin stóð saman um að glæða mannlífið með öllum litum regnbogans. Mannréttindabarátta þarf að vera skemmtileg þó tilefnið sé grafalvarlegt.
Þrátt fyrir að við gátum ekki látið þann draum rætast að syngja á World Pride, þá höfum við ákveðið að fagna baráttu og elju hinsegin fólks, með því að verða fulltrúar Íslands á norræna hinsegin kóramótinu „Queertune“, sem verður haldið í Kaupmannahöfn í júní á þessu ári. Einnig höfum við ákveðið að koma fram hér heima á vortónleikunum okkar, „Baráttusöngvar Hinsegin kórsins“.
Tónleikarnir verða haldnir fimmtudaginn 8. maí klukkan 20:00 í Fella- og Hólakirkju. Á dagskrá verða fjölbreytt lög sem öll eiga það sameiginlegt að styrkja baráttuþrek- og anda hinsegin fólks, hvert með sínum hætti. Við leggjum áherslu á að fagna gleði og góðri tónlist, en nú skiptir samstaða með hinsegin fólki og málefnum þeirra máli sem aldrei fyrr.
Athugasemdir