Ég er hættur! Eftir að hafa setið við stjórnvölinn hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri í aldarfjórðung hef ég ákveðið að hætta. Eða réttara sagt, við hjónin höfum ákveðið að þessu tímabili í lífi okkar sé lokið og nú sé rétt að eiga meiri tíma fyrir eigin hugðarefni. Líf okkar og fjölskyldunnar hefur snúist um menningarstarf og veitingarekstur á Skriðuklaustri allt frá aldamótum. Í upphafi ætluðum við bara að taka að okkur uppbyggingu í svona fimm ár og fara svo að gera eitthvað annað. En svo voru árin allt í einu orðin tuttugu og fimm. Dæturnar orðnar fullorðnar og við orðin miðaldra. Skrýtið hvernig lífið flýgur hjá þegar nóg er að gera og viðfangsefnin eru skemmtileg.
Lífið líður hratt og við vitum aldrei hvenær okkar tími er kominn. Einmitt þess vegna er mikilvægt að staldra við annað slagið og spyrja sjálfan sig: Er ég sáttur eða vil ég breyta einhverju í lífi mínu? Það er ekki alltaf tækifæri til að breyta. Stundum heldur lífið okkur bara við róðurinn og við getum ekki sleppt árunum án þess að eiga á hættu að báturinn stöðvist. En það er samt hollt að taka veðrið og velta vöngum. Annars fljótum við bara áfram stjórnlaust. Því að ef við tökum ekki stjórn á eigin lífi þá gera kröfur samfélagsins það og vinnan heldur okkur við efnið. Við þekkjum öll íslensku vinnusemina sem okkur hefur verið innrætt af eldri kynslóðum og getur endað í vítahring kulnunar og lífsleiða.
Í eina tíð var það viðtekin venja að skipta ekki mikið um vinnu eða vinnustað. Nú er tíðin önnur og yngri kynslóðir neita að undirgangast þessi gömlu lögmál. Að bæta reglulega við sig námi og þekkingu telst eðlilegt og með því opnast dyr að nýjum störfum. Það er ekki einu sinni víst að vinnan krefjist þess að alltaf sé unnið í sömu byggingu eða sama landi.

Sum störf geta líka vaxið með manni og sennilega er það ástæðan fyrir aldarfjórðungs tryggð minni við Skriðuklaustur. Að fá að takast á við uppbyggingu menningarstofnunar er heldur ekki tækifæri sem maður fær upp í hendurnar á hverjum degi. En viss hætta er á að slíkt verkefni verði eins konar síamstvíburi sem erfitt er að slíta sig frá. Góðir vinir hafa strítt mér og sagt mig líkjast Gunnari skáldi meir með hverju ári enda sé ég búinn að vera mun lengur en hann á Skriðuklaustri. En hvað hef ég lært á þessari kvartöld á Klaustri?
„Stöðugleiki býr til tækifæri en stöðnun ekki“
Ekki staðna! Stöðnun getur haft alvarlega afleiðingar fyrir bæði fólk og stofnanir. Ef stjórnandi er ekki meðvitaður um það og opinn fyrir nýjungum og áskorunum þá er voðinn vís. Stöðnun er annað en stöðugleiki. Stöðugleiki býr til tækifæri en stöðnun ekki. Við sem manneskjur þurfum að ástunda hreyfingu til að viðhalda góðri heilsu. Það er eins með starfsemi safna og setra, það þarf að halda starfinu lifandi, brydda upp á nýjum verkefnum, nýju samstarfi, nýjum lausnum. Annars endar starfsemin og starfsfólk í viðjum vanans.
Treystu öðrum! Hér kem ég við kvikuna hjá sjálfum mér. Mér hættir nefnilega til að treysta bara á sjálfan mig og deila hvorki ábyrgð né verkum. En í þeim efnum hef ég þó bætt mig á öllum þessum árum í starfi forstöðumanns. Smámunasemin og fullkomunaráráttan hafa aðeins látið undan síga. Það er gott að hafa sjálfstraust en við eigum líka að hafa trú á öðrum og ekki hika við að setja traust okkar á starfsfólk, samstarfsaðila og yfirboðara. Því viti menn, í langflestum tilfellum er fólk traustsins vert.
„Í samtali milli fólks fæðast nýjar hugmyndir sem eru grundvöllur þróunar“
Samstarf er nærandi! Að vinna með litla menningarstofnun lengst uppi í sveit austur á landi er ávísun á einangrun. Það er auðvelt að gleyma sér á slíkum stað og einblína á það sem stendur næst manni. Öll þessi ár hafa kennt mér að næringin kemur gegnum samstarf við aðra. Samstarfsverkefni á nærsvæði, á landsvísu og yfir höf og lönd hafa nært mig og stækkað sjóndeildarhringinn. Um leið hafa þau nært starf stofnunarinnar. Samstarfsnet lítillar menningarstofnunar getur verið umfangsmikið og orðið kjölfesta í nýjum verkefnum og lausnum. Í samtali milli fólks fæðast nýjar hugmyndir sem eru grundvöllur þróunar. Þess vegna er svo mikilvægt að vera í virku samstarfi og forðast einangrun. Það á jafnt við um fólk og stofnanir. Annars festumst við bara inni í sömu bergsmálshellum og tröllríða samfélagsmiðlunum.
Menning skiptir máli! Það er endalaust hægt að þræta um skilgreiningu á menningu en menningarstarf skiptir klárlega máli fyrir bæði einstaklinga og samfélög. Við verðum fjórri í hugsun eftir að hafa lesið bók eða sótt listviðburði, hvort sem það er fámennur upplestur hjá skáldi eða fjölmennir þungarokkstónleikar. Að komast í samband við hugmyndir og hugsanir annarra gegnum listir og menningu stækkar hjartað og nærir hugann. Að skoða og fræðast um menningararf skapar jarðveg fyrir nýja sköpun og við drögum lærdóm af sögunni. Eða hvað? Dregur mannskepnan einhvern tíma lærdóm af sögunni? Ég er ekki viss.
En ég er viss um að ég er hættur! En samt hætti ég ekki fyrr en í árslok. Þangað til held ég vonandi áfram að þroskast í starfi. Ég á enn nokkrum verkum ólokið sem ég setti á verklistann fyrir margt löngu. En ef það er eitthvað sem ég hef lært á tuttugu og fimm árum í starfi þá er það að listinn er aldrei tæmdur og svo lærir sem lifir.
Athugasemdir