Nú eru næstum þrjár vikur frá því að ég sprengdi óvart woke-tunnuna íslensku með einu orði (sem reyndar var orðið „Trump“) í umræðum á Samstöðinni. Ekki óraði mig fyrir því sem skeði í kjölfarið. Umræða um woke og ekki woke – en mest þó hvað woke er – blossaði upp á flestum miðlum og stendur enn í sumum. Í fyrstu var ég sorrí yfir þessu öllu, fannst ég skulda þjóð minni nokkra tapaða vinnudaga, en sé nú að samfélagið þurfti líklega á þessari óviljandi bombu að halda. Svo margt var ósagt, óuppgert og óljóst.
Ég hef reynt að fylgjast með umræðum og ummælum sem vöknuðu í kjölfarið en þó ekki náð þeim öllum. Mörg hef ég hitt sem fengu strax upp í kok á umræðunni og önnur sem segjast aldrei hafa verið ruglaðri í þessu rími en einmitt nú. Færri hafa þó haldið sönsum og sínu striki, mest fólk sem finnur anti-woke-ið á eigin skinni á degi hverjum. Trans fólk, brotaþolar, litað fólk, gott fólk og einlægir baráttusinnar.
Arna Magnea Danks, stjarnan úr Ljósvíkingum, stóð sig hetjulega í kappræðum við Þórarin Hjartarson, hlaðvarpara í Bítinu á Bylgjunni. Það var ójafn leikur þar sem málið snertir líf hennar með beinum og áþreifanlegum hætti á meðan hann var í raun bara orðinn þreyttur á þessu vitleysis-vóki. Eitt er að búa við ógn, annað að vera bara pirraður.
Hvað er svona þreytandi við réttindabaráttu annarra? Eru það gild rök í þjóðfélagsumræðu að það sé svo þreytandi að annað fólk fái að njóta sín jafn vel og við? Hvernig geta mannréttindi orðið þreytandi? Hvernig er hægt að gefa afslátt af mannréttindum? Er virkilega svona erfitt að standa með brotaþolum kynferðisofbeld
Enn öðrum þykir baráttan hafa gengið of langt og sjá woke í öðru ljósi. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir er ein þeirra og talar um „ógnarstjórn góða fólksins“ sem hér hafi ríkt undanfarin ár. Það er greinilega fleira sem fer á hvolf þegar ógninni sem vofað hefur yfir helmingi mannkyns alla hríð er snúið upp svo sýnileg sé. Og sárt að sjá hve margt gott fólk sér aðeins neikvæðar hliðar á mikilvægum gagnsemishreyfingum eins og MeToo og Woke.
Bakslagið er líka áþreifanlegt. Foringjar heimsins vilja snúa klukkunni til baka til þess tíma þegar kynin voru aðeins eitt og það fékk að komast upp með allt. Karlabarnið situr í sínu Hvíta húsi og annað í sinni Kremlarhöll og saman kalla þau fram öll heimsins karlabörn sem básúna það í hlaðvörpum og þingræðum að konan eigi að stefna aftur heim, hommar inn í skápinn og trans fólk í sitt gamla búr. Kynjafræði kalla þau „gremjufræði“. Hugtakið tradwife komst nýlega á kreik í Ameríku og endaði sem Hefðbundna Hanna í hnyttnum skaupskets hér heima. Drengirnir okkar eru klofnir á milli þess að skunda í messu hjá gamla samfélaginu eða hlusta á dæmda og alræmda bandaríska bakslagara rausa gegn jafnrétti og lýðræði í sína tröllauknu hljóðnema. Synir góðra mæðra í leit að einhverju æðra, kolruglaðir á karlmennskumyndinni sem var í góðri þróun þar til karlabörnin gengu aftur og hófu að fokka í henni.
Hvað gerðist? Urðu þjóðirnar bara þreyttar á þessu mannréttindaveseni eftir Covid? Eftir að hafa sjálfar þurft inn í skápinn aftur? Eða telur hér undirliggjandi ótti við óvissuna sem fylgir Trump og nýjum Bandaríkjum hans? Óttumst við innrás að vestan og erum því ósjálfrátt farin að tala eins og hann? Maður trúir því þó seint, ætli réttindaþreytan eigi sér ekki lengri sögu?
„Æ, já, það er bara komið gott af þessu homma- og lessudæmi. Við nennum ekki meiru í bili, öllum þessum jaðarhópum jaðarsins, trans, pan og bí og hvað þetta heitir allt, með alla sína fána. Ég bara nenni þessu ekki!“
„En hvað með hann frænda þinn sem er á leið í kynleiðréttingarferli?“
„Æ, mamma, ertu til í að loka?“
Satt að segja var ég hissa á allri reiðinni sem sýndi sig eftir þáttinn á Samstöðinni. Allir landar hægra megin við forystu Sjálfstæðisflokksins og vinstra megin við forystu Sósíalistaflokksins virtust taka vinstri og hægri höndum saman í baráttunni gegn woke, í baráttunni gegn réttindabaráttu þeirra sem enn standa höllum fæti. Já, já, allar þjóðfélagsbreytingar geta verið þreytandi, tölvupóstar, rafbílar, hopphjól og gervigreind, en þessar eru það þó varla, ef við hugsum málin ígrundað. Eða síðan hvenær leyfði baráttan fyrir betri heimi sér að skilja eftir okkar minnstu systkin?
Ég á erfitt með að skilja félaga mína á vinstri helmingnum sem leyfa sér slíkt. Ég á erfitt með að skilja verkalýðsforingja sem leyfa sér svo aðskiljandi umræðu, sem gefa slíkan tón út í samfélagið. Leiðtogaorðum fylgir alltaf ábyrgð.
Andstæðingarnir á hægri kantinum réðu sér enda ekki fyrir kæti. Með því að skammast út í woke árum saman, jafnvel þegar orðið var sjálfsögð hvatning í heimi svartra í Bandaríkjunum, þar sem það sannarlega var upp á líf og dauða, tókst heimshægrinu að breyta því í skammarorð uns hluti vinstrihreyfingarinnar tók þann vönd sér í hönd og hóf að nota heima hjá sér. Aldrei skal vanmeta karlabarnið og lengi hefur vinstrið glatt sinn andstæðing með átökum í eigin ranni, nú með hans eigin bareflum.
Vinstrafólk hefur þó lengi búið við sérsinna sjónarmið yst á væng sínum, eins og samúðarleysi sumra gagnvart Úkraínu sýnir, sem nota bene helst alveg í hendur við samúðina með Palestínuþjóðinni. Það er erfitt að skilja fólk sem er sama um eitt þjóðarmorð en ekki um hitt. Það er eins með samúðina og réttindabaráttuna, hún getur ekki leyft sér að fara í manngreinarálit.
Í viðtalinu á Bylgjunni nefndi Arna Magnea að woke væri aðeins annað orð yfir kjarna allra trúarbragða: Koma skaltu fram við náunga þinn eins og þú vilt að hann komi fram við þig. Í vikunni mættu 40 manns í anddyri dómsmálaráðuneytisins til að mótmæla brottvísun Óskars hins kólumbíska. Það var erfitt að sjá eitthvað „ömurlegt“ við það góða woke móment.
Allir þessir dagar sem liðnir eru hafa sýnt okkur að sá hópur sem á nú helst undir högg að sækja er trans fólk. Það er sótt að því víða eins og nýjustu fréttir frá Englandi og BNA sýna. Þetta er kannski ekki stór hópur en réttindabarátta og samfélagsframfarir spyrja aldrei um slíkt. Sérhver manneskja er heimur, jafnstór og þinn, jafnstór og minn. Að vera kona föst í gervi karlmanns er snúin staða. Að þrengja að aðþrengdu fólki er aldrei stórmannlegt, ekki heldur þótt það sé kallað anti-woke.
En hvað um það, réttindabaráttan heldur sínu striki, „þótt sumir vilji afturábak en aðrir standi í stað“. Sofnum ekki á verðinum, kæra fólk, verum vakandi, vók og hvað sem þetta heitir.
Athugasemdir