Líf nútímamannsins er í auknum mæli handahófskennd röð af viðbrögðum við áreiti. Það þarf að skoða Facebook. Best að skoða Facebook og horfa um leið á sjónvarpsþáttinn sem allir eru að tala um. Bamm, tvær flugur í einu höggi. Og svo þarf að lesa greinina sem allir eru að læka. Kommenta. Og semja listilega smíðað háð um Snorra Másson til að sýna að maður er lýðræðiselskandi þjóðfélagsþegn sem stendur sína plikt. Hvað er aftur að gerast í þessum þætti? Skítt með þáttinn, Skúli í næsta húsi er úti að skokka. Skúli hljóp hálfmaraþon um helgina. Ég hata „Strava“. Ég hata Skúla. Ég tek fimm kílómetra á hlaupabrettinu á morgun. Ekki gleyma að kveikja á „Strava“. Hvað eru margir búnir að læka það sem ég sagði um Snorra? Best að tékka. Smoothie. Það þarf að búa til smoothie eftir ræktina. Verð að fara í Bónus. Hvort á hann að vera „low fat“ eða „high protein“? Best að googla það. Nei, andskotinn, Skúli var í bröns. Þarf að fara í bröns. Helst botnlausan. Það er kominn nýr sjónvarpsþáttur sem allir eru að horfa á. Set hann í tækið. Tékka á Facebook í leiðinni. Önnur grein sem þarf að læka. Og Snorri Másson er aftur búinn að segja eitthvað, þar sem hann stendur í nútíðinni, horfir til framtíðar og talar í fortíðinni, sem þarf að semja brandara um. Fari það í heitasta helvíti: Skúli er kominn með hlaðvarp.
Í ljóðinu „Dagblaðið“ frá árinu 1785 líkir enska skáldið George Crabbe fréttum við örstutta ævi dægurflugunnar. Dægurflugan lifir aðeins einn dag. Bróðurpartinum af honum ver hún í trylltum dansi.
Hópsýking af sálrænum toga
Árið 1374 breiddist dularfull plága milli bæja Rínardalsins. Á götum úti engdist fólk um í stjórnlausum dansi. Það hvíldist ekki og borðaði ekki. Slys urðu á fólki. Dansplágan breiddist út um Evrópu uns hún fjaraði út nokkrum mánuðum síðar.
Fyrr á öldum rann óútskýrt dansæði reglulega á samfélög á meginlandi Evrópu. Í fyrstu var djöflinum kennt um. Síðar spruttu upp kenningar um að sveppur hefði komist í hveiti og valdið ofskynjunum. Sagn- og sálfræðingar eru nú á einu máli um að dansæðið sé dæmi um það sem kallað er „hópsýking af sálrænum toga“. Í daglegu tali er slíkt æði nefnt múgæsing.
Í fyrradag var sumardagurinn fyrsti. Senn látum við af æstum dansi við dægurfluguna. Það þýðir þó ekki að við hættum að dansa.
Nú skal lifa og njóta. Ef maður er ekki að njóta er maður ekki að lifa. Við lifum bara einu sinni. Hverjum degi skal lifað eins og hann sé sá síðasti. Það þarf að ganga á fjöll, grilla, lesa bók, bera tærnar, kanna hálendið og lönd hinum megin á hnettinum. Það þarf að gera sér glaðan dag og gera betur í dag en í gær. Gera, gera, gera.
En það þarf líka að gera ekki neitt. Auðnuleysi er uppspretta hugmyndanna. Það er þegar okkur leiðist sem hugmyndirnar fæðast. Maður verður að vera frjór. Og fyndinn. Segja brandara á Facebook. Hvað gerði Donald Trump í dag? Upp með símann.
Nei, niður með símann. Það er komið sumar og ekki flott að vera sófakartafla. Það þarf að fara í göngu. Ganga rösklega. Helst á jökul. Ná hjartslættinum upp. Upp, upp, upp. Upp í 150 slög á mínútu. Upp, upp mín sál og allt mitt geð. Upp, upp mitt hjarta og –
Nei, stopp, stopp, stopp. Það þarf að staldra við og þefa af rósunum. Fara sér hægt og dvelja í andartakinu. Andartakið er allt. Hitt er aðeins eftirsókn eftir vindi. Anda inn, anda út. Nei, hvur andskotinn: Skúli er í Marokkó. Ég sem er bara að fara til Tene. Ég bæti Marokkó á „to-do“ listann meðan ég lifi í núinu. Þú nærð ekki til tunglsins nema þú setjir markið á stjörnurnar.
Býður Jeff Bezos upp á sumarfrí út í geim? Verð að bóka á undan Skúla.
Úps, andartakið; ekki gleyma að vera – hér og nú. Njóta þess smáa. Leika við börnin. Byggja úr Legó. Ég þoli ekki Legó. En það gengur ekki. Þú verður að njóta. Það er ekki nóg að kubba heldur verður þér að finnast það gaman. Gaman, gaman, njóta, njóta.
Hvenær byrjar skólinn aftur?
Lífið er æði. Óðs manns æði. Gleðilegt sumar.
Athugasemdir