Árið 2021 flutti ég til Hafnar í Hornafirði og bjó hjá afa eitt sumar á meðan ég vann í frystihúsinu. Hann er fæddur 1943 en ég 1998. Sambúðin gekk vel. Kynslóðabilið var stundum frekar augljóst, eins og þegar afi fékk sér kaldar pylsur í kvöldmat en ég vildi frekar elda kínóasalat.
Það sem ég lærði þetta sumar, fyrir utan að þekkja muninn á þorskflaki og ýsuflaki, var að finna leikgleðina í lífinu. Afi er ævintýrakall og býr yfir einstökum hæfileika til að gera hversdagsleikann heillandi.
Í síðustu viku vorum við á göngu um miðbæ Reykjavíkur og stoppuðum í búð sem selur myndavélar, dróna og annan tæknibúnað. Afi keypti dróna fyrir okkur svo við gætum „leikið okkur saman“ í sumar við að taka upp náttúrulífið á Höfn. En þessi kaup voru meira en yfirfærsla eignar á svífandi myndavél. Fyrir honum vorum við að stofna flugfélag, ég flugmaðurinn og dróninn fyrsta vélin í flotanum. Ævintýrið er rétt að byrja og flugferðirnar fram undan æsispennandi.
Í hversdagsleikanum víkur leikgleðin gjarnan fyrir alvarleika barnauppeldis, skilafrestum í vinnunni og hálfmaraþon-áætlunum. Við erum á hlaupum hingað og þangað, alltaf aðeins of sein með höfuðið hangandi ofan í símann.
Nú þegar sól fer hækkandi og sumardagurinn fyrsti nálgast er tilvalið að krydda upp á hversdagsleikann, búa til ævintýri úr nærumhverfinu og finna leikgleðina á ný.
Athugasemdir