Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hlaut 98,7 prósent atkvæða í endurkjöri til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í dag. Hún var ein í framboði til embættisins.
Formaðurinn ávarpaði fundinn þegar niðurstöðurnar lágu fyrir og þakkaði flokksmönnum traustið. „Það er heiður að fá að leiða Samfylkinguna áfram og ég er ótrúlega þakklát fyrir endurnýjað umboð. Ég gæti þetta ekki án ykkar og ég mun leggja mig alla fram hér eftir sem hingað til,“ sagði hún.
Þá lofaði hún að yrði ekki fjarlæg og að hún myndi ekki missa tenginguna við fólkið í flokknum og landinu. „Samfylkingin er komin á réttan stað núna. Ég held við finnum það öll. Þetta er mjög náttúrulegt. Hér eigum við að vera, í forystustjórn landsmálanna.“
Landsfundur Samfylkingarinnar fer fram í dag og á morgun í Fossaleynir Studio í Grafarvogi í Reykjavík.
Síðar í dag munu kjör í önnur embætti liggja fyrir en Guðmundur Árni Stefánsson, sitjandi varaformaður Samfylkingarinnar, er einn í framboði til varaformanns.
Athugasemdir