Í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum á síðasta ári gaf frambjóðandinn Donald Trump sig út fyrir að vera verndari tjáningarfrelsisins. Fullyrti hann að tjáningarfrelsið ætti undir högg að sækja fyrir tilstilli hinnar svo kölluðu „woke“-hreyfingar.
Við upphaf síðasta mánaðar kvaðst Trump forseti „búinn að endurvekja tjáningarfrelsið í Bandaríkjunum“. Fimm dögum síðar var frönskum vísindamanni meinuð innganga í landið sökum þess að flugvallarstarfsmenn fundu skilaboð í síma hans sem þóttu gagnrýna Trump.
Þeir sem töldu sig kjósa tjáningarfrelsið er þeir greiddu Donald Trump atkvæði sitt virðast hafa keypt köttinn í sekknum. Bækur eru nú fjarlægðar úr hillum barnaskóla; starfsfólki fjölmiðla, sem flytja fréttir sem Trump líkar ekki, er meinaður aðgangur að fréttamannafundum hans; stjórnendum háskóla, sem leyfa mótmæli sem Trump styður ekki, er hótað niðurskurði; orðin „fjölbreytileiki“, „jafnrétti“ og „inngilding“ eru fjarlægð af vefsíðum opinberra stofnana og háskólafólk sem notar slík hugtök í umsóknum fær ekki rannsóknarstyrki.
Hvað varð um ást Trumps á tjáningarfrelsinu?
Sjálftaka stjórnmálanna
Ekki alls fyrir löngu skrifaði ég pistil á þessa sömu síðu um starfskjör borgarstjóra. Var það í kjölfar þess að fréttir voru fluttar af launum hennar, sem mörgum þóttu há. Sagði fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason þau bera „vott um gríðarlega sjálftöku stjórnmálanna á Íslandi“.
„Þeir vildu einfaldlega sjálfir vera þeir sem gátu skarað eld að sinni könnu og útbýtt bitlingunum
Í kjölfarið bárust mér skammir úr ýmsum áttum. Hvað með það þó að laun núverandi borgarstjóra væru há? Það voru laun forvera hennar líka. Vissi ég ekki að fréttir af málinu væru runnar undan rifjum Morgunblaðsins, sem reyndi að koma höggi á pólitískan keppinaut Sjálfstæðisflokksins?
Í síðustu viku vakti athygli önnur frétt, runnin undan rifjum Morgunblaðsins. „Inga Sæland skipar bara sitt fólk“, kvað í fyrirsögn við frétt um að félags- og húsnæðismálaráðherra hefði skipað nýja stjórn yfir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Af fimm nefndarmönnum komu fjórir úr Flokki fólksins – þann fimmta varð Samband íslenskra sveitarfélaga að fá að tilnefna.
Uppi varð fótur og fit. Ekki þó endilega yfir vinnubrögðum Ingu heldur tvískinnungi Morgunblaðsins; fjölmargir bentu á að blaðið hefði ekki lagt það í vana sinn að flytja sams konar fréttir þegar Sjálfstæðisflokkurinn átti í hlut.
Endalok spillingar
Trump reyndist ekki kæra sig um tjáningarfrelsi eftir allt saman. Hann vildi einfaldlega vera sá sem réði því hvað mátti segja og hvað mátti ekki segja. Hann drýgir nú sömu syndir og hann sakaði „woke“-riddara um að fremja.
Í aðdraganda þingkosninga á síðasta ári lögðu þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn áherslu á mikilvægi þess að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum svo að binda mætti enda á spillingu, flokksræði, frændhygli og almennan ósóma.
Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur á stuttum tíma stigið áræðnari skref en margur hefði trúað að nokkurri ríkisstjórn væri fært í átt að upprætingu einkavinavæðingar stjórnmálanna. Má þar nefna leiðréttingu veiðigjalda, afnám greiðslna til handhafa forsetavalds og nýjar reglur sem miða að því að faglega sé skipað í stjórnir stærstu ríkisfyrirtækja en ekki flokkspólitískt.
En eins og í tilfelli Trumps virðist sem minni spámenn hafi aldrei ætlað sér að uppræta spillinguna. Þeir vildu einfaldlega sjálfir vera þeir sem gátu skarað eld að sinni könnu og útbýtt bitlingunum.
Fréttamennska Morgunblaðsins er sannarlega duttlungafull. Blaðið þreyttist ekki á að fjalla um ákvörðun Heiðu Bjargar Hilmisdóttur um að halda stöðu sinni sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga samhliða starfi borgarstjóra. Heiða Björg hætti að endingu sem formaður sambandsins. Morgunblaðið virtist þó ekki sjá ástæðu til að beita Rósu Guðbjartsdóttur sama aðhaldi þegar hún tók sæti á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ákvað að víkja ekki sem bæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði, formaður bæjarráðs og stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem hún situr enn og hlýtur að launum fyrir allt heila klabbið rúmar 2,6 milljónir króna á mánuði að því að talið er.
En staðreyndin er engu að síður sú að þótt maður skjóti sendiboðann er ósómi enn þá ósómi og spilling enn þá spilling.
Athugasemdir (1)