Ég var tíu ára gömul þegar ég gekk um ganga Kringlunnar ásamt móður minni, grunlaus um að veröldin mín væri að fara að breytast. Það voru breskir dagar í Kringlunni og margs konar kynningar tengdar breskri menningu voru í boði. Ævintýrapersónur heimspekingsins og rithöfundarins Lewis Carroll gengu um gangana og buðu góðan daginn að breskum sið. Breska háttvísin lét íslensku sauðkindina í mér finna til smæðar sinnar og hef ég verið hugfangin af breskri menningu síðan. Ég rölti með móður minni um Kringluna hugfangin og lét mig dreyma um aðalstign og sveitasetur í Surrey. Þá gerðist það að við mæðgur mættum Hattaranum og Hjartadrottningunni úr ævintýrinu um Lísu í Undralandi og virtust þau pískra eitthvað sín á milli. Þau gengu til okkar og sögðu móður minni að það væri verið að efni til keppni um hver væri líkust Lísu í Undralandi á Íslandi og töldu þau mig vera góðan kost í þá keppni.
Móðir mín uppveðraðist eins og títt er meðal foreldra þegar krakki manns fær athygli sökum útlits en ég fór á flug. Ég var samstundis skráð til keppni og hugði á farsælan og gjörsamlegan sigur. Ég rauk heim og sagði samstundis tveimur nágrannavinkonum frá áætlunum mínum um algjör yfirráð. Í kjölfarið bauð ég þeim með mér til útlanda en sigurverðlaunin voru flugmiðar og hótel á skáldaslóðir Carroll í Bretlandi.
Sama kvöld var hringt heim og móður minni tilkynnt að ég hefði komist í undanúrslit og átti ég að mæta prúðbúin í Kringluna daginn eftir. Það kom mér ekki á óvart því ég var ljóshærð, hnellin og með rauðar kinnar. Ég taldi því sigurinn vísan. Móðir mín stökk hæð sína af gleði en ég sýndi viðbrögð líkt og mikilfenglegur tígur við hlið maurs. Fullvissan um yfirráð var algjör. Ég var ung, mjög uppfull af sjálfri mér og óvelviljaðir í minn garð myndu segja að lítið hafi breyst síðan þá. Mögulega er eitthvað til í því.
Er kona enn á lífi eftir þrítugt?
Ég las fyrir stuttu frétt um konu sem hugði á þátttöku í keppninni um Ungfrú Ísland. Þátttaka hennar þótti merkileg fyrir þær sakir að hún var að nálgast fertugt og vildi með þátttöku sinni senda þau skilaboð út í samfélagið að það væri líf eftir þrítugt. Ég staldraði við og gaf sérstakan gaum að árunum mínum fjörutíu og þremur. „Er ég þá bara úreld og lúin núna?!“ hugsaði ég og ákvað í kjölfarið að heimsækja bestu vinkonu mína sem er skarpari en flestir. Hún hefur líka öðruvísi gildismat heldur en margur því hún hefur verið veik af krabbameini í rúmlega tuttugu ár og er sem stendur í enn einni meðferðinni. Ég bar undir hana orð brautryðjandans og beið svars. Vinkona mín þagði, dæsti og sagði svo: „Veistu, ef dóttir mín myndi tilkynna mér að hún væri að taka þátt í fegurðarsamkeppni þá myndi ég líta svo á að ég hefði brugðist sem foreldri.“ Svo einfalt var það.
Hlébarðakonur
Þegar vinkona mín greindist fyrst með krabbamein vorum við í kringum tvítugt og framheilinn óþroskaður og hegðun í samræmi við það. Við þessa greiningu þróaðist hins vegar hennar heili á ljóshraða og verðmætamat varð í takt við það sem raunverulega skiptir máli. Skynsemi og rökvísi varð að öllum hennar persónuleika og hversdagsleiki mánudagsins varð mikilvægari en áður. Þegar hún svo missti hárið í fyrsta skiptið hættum við áreynslulaust öllum samanburði og keppni við aðrar konur og fórum þess í stað að hrósa þeim. Hæfileikinn til að gera það þegar þú ert hárlaus gegn eigin vilja kallast tíguleg reisn og hana kaupir þú ekki af áhrifavaldi.
Þegar hún var lasin og í innlögn á spítala bað hún mig stundum að taka sig á rúntinn. Þá keyrðum við niður Laugaveginn og hrósuðum konum. Þetta snerist aldrei um hver væri líkust Lísu í Undralandi eða Ungfrú Íslandi heldur fannst okkur geggjað að sjá konur sem þorðu að vera öðruvísi en fyrirmæli feðraveldisins eða kapítalismans sögðu okkur að við ættum að vera. Konur í litum, áberandi fötum, eldri konur með sítt grátt hár og rauðir varalitir í dagsbirtu voru í uppáhaldi. Konur sem klæddar voru í hlébarðamunstur urðu sjálfkrafa og samstundis systur okkar. Konur sem örkuðu einbeittar og með bakið beint. Konur sem þrömmuðu eftir sínum eigin takti og konur sem virtust ekki vera að bíða eftir að aðrir staðfestu tilvist þeirra. Sterkar konur sem tóku pláss.
Við lögðum okkur fram við að hrósa og þess vegna er þetta sjálfsagður partur af samskiptum okkar í dag. Við erum hins vegar sammála um að svo sé ekki milli allra vinkvenna eða vinkvennahópa og þykir okkur það mikið miður. „Konur eru konum bestar, nema þegar kemur að útliti og þyngd,“ sagði vinkona mín eitt sinn og held ég að það sé rétt hjá henni. Sjúklegur samanburður milli kvenna er netið sem heldur okkur föstum innan marka þess sem aðrir ákveða.
Útlit og þyngd eru óstöðugustu breyturnar í lífi kvenna en samt er okkur kennt að skilgreina alla okkar farsæld, fegurð og hamingju út frá því hversu vel við getum barist við að halda þeim stöðugum. Þessum langlífa vígvelli í lífi kvenna er viðhaldið af þeim sem vilja halda okkur frá valdi og aðgengi. Þeim sem óttast að við inngildingu fjölbreytileika fegurðar bíði endalok valdatíðar þeirra.
Fegurð mannkosta
„Er virkilega verið að keppa í þessu núna?!“ sagði vinkona mín með mikilli forundran enda er það umhugsunarvert að á meðan heimurinn stendur á heljarþröm eru Íslendingar enn uppteknir af því að keppa í hver sé sætust. „Ég skil að þetta hafi verið mikið mál þegar Hófí og Linda Pé kepptu því þá fengu þær að ferðast um heiminn og fengu auglýsingasamninga, en nær allir geta ferðast í dag og allir geta orðið sölumenn á samskiptamiðlum,“ sagði vinkona mín og hélt áfram að prjóna. Ég var sammála. Þessi titill inniheldur ekki lengur þau forréttindi og aðgengi sem gerðu hann svo eftirsóttarverðan hér áður.
Ég horfði á vinkonu mína þar sem hún sat hárlaus og sterabúttuð og í raun svipt öllu því sem okkur er talin trú um að geri konur fallegar og eftirsóttar í augum annarra. Samt er það augljóst þeim sem hana þekkja að fegurð hennar er mikilfengnari en margra annarra því hennar fegurð inniheldur líka reisn og hugrekki. Hún ver mig með kjafti og klóm en lætur mig heyra það þegar belgingurinn verður of mikill. Hún tekur regluleg innlit inn í sálarlíf mitt og nótar hjá sér í hvert sinn sem eitthvað mikilvægt er að gerast hjá mér. Hún segir alltaf setninguna: „Þú hefur aldrei litið betur út,“ þegar hún veit að ég er hamingjusöm og hún er sú eina sem ég þekki sem þorir að taka skýra og skömmustulausa afstöðu með heilindum sínum. Hugrekki, reisn og þor eru mannkostir og mannkostir eru æðsta form fegurðar.
Ég var að lokum ekki valin „Ungfrú líkust Lísu í Undralandi“ á breskum dögum í Kringlunni og þrátt fyrir mikil mótmæli sjúklega sjálfhverfrar tíu ára frekju er ég guðs lifandi fegin í dag. Ég hefði sjálfsagt orðið meira óþolandi ef ég hefði strax í æsku fengið verðlaun fyrir það að vera lík einhverjum sem þótti sæt. Belgingurinn hefði sjálfsagt orðið til þess að sjálfsmynd mín á fullorðinsaldri væri sífellt á varðbergi gagnvart því að eldast og breytast og ég væri örugglega alltaf kvíðin yfir því að einhver sem skiptir mig engu máli þætti ég ekki sæt.
Það fylgir því frelsi að losna úr feni einhæfðrar fegurðarhyggju og takmarkalaus hamingja fylgir því að geta hrósað öðrum konum með þeirri fullvissu um að það gjaldfelli sjálfa þig ekki á neinn hátt.
Athugasemdir (1)