Stjórnendur bandaríska sultuframleiðandans Smucker’s sendu Donald Trump Bandaríkjaforseta nýverið bréf þar sem þeir lýstu yfir þungum áhyggjum af magni evrópskra sultutegunda í hillum bandarískra verslana. Óskuðu þeir eftir því að forsetinn legði toll á innflutt aldinmauk.
Sultuframleiðandinn er ekki einn um að nýta sér til framdráttar veru Trumps í Hvíta húsinu. Fréttir herma að forsetinn hafi fengið send mörg hundruð bréf frá hagsmunaaðilum sem bera upp sams konar erindi.
Hin evrópska sultukrukka virðist hvergi óhult. Annars konar ógn steðjar þó að henni hér í Bretlandi þar sem ég bý.
Ég var stödd í matvöruverslun í Lundúnaborg þegar maður strunsaði inn í verslunina með slíku offorsi að viðskiptavinir hrukku úr vegi hans. Engum duldist erindi mannsins – síst af öllum öryggisverði sem stóð við dyrnar. Ekki sála aðhafðist þó er maðurinn fyllti körfu af kaffi, kjöti, ostum, kexi, súkkulaði og sultu og arkaði svo út aftur án þess að borga.
Sjón sem þessi er daglegt brauð í Bretlandi þar sem „þjófnaðarfaraldur“ gengur nú yfir. Upptök hans má rekja til niðurskurðar innan lögreglunnar sem hefur ekki lengur bolmagn til að bregðast við smáglæpum. Segja verslunareigendur búðarþjófnað orðinn glæp án refsingar. Sú staðreynd hefur þó áhrif á fleira en rekstrarreikning verslana.
Feimnir þjóðarleiðtogar
Athygli hafa vakið yfirlýsingar Donalds Trump um að koma höndum yfir eigur annarra. Auk þess að ætla að eigna sér náttúruauðlindir Úkraínu, Panamaskurðinn og Kanada ítrekaði forseti Bandaríkjanna um síðustu helgi áform sín um að gera Grænland að sínu, jafnvel þótt hervald þyrfti til.
Þótt Trump eigi ekki nokkurt tilkall til verðmætanna virðast þjóðarleiðtogar annarra landa feimnir við að segja það beint út. Því oftar sem Trump stagast á kröfum sínum því lágværara verður tuldur andmælenda.
Sveltandi hundur
Stærsti skaðinn sem yfirstandandi þjófnaðaralda í Bretlandi veldur er ekki fjárhagslegur. Stærsti skaðinn er sú eyðilegging sem stuldur fyrir allra augum veldur grunnstoð samfélagsins: Trú á leikreglur þess, skráðar og óskráðar.
Í hvert sinn sem við horfum upp á fingralangan samborgara labba óáreittan út úr verslun með þýfi sitt trosnar lítið eitt þráðurinn sem hnýtir saman réttarríkið: Leikreglurnar skipta ekki lengur máli; það tekur því ekki að verja þær; hvers vegna ættum við þá að fara eftir þeim?
Sama má segja um Donald Trump. Í hvert sinn sem veröldin horfir þegjandi upp á Trump sýna skeytingarleysi lögum, reglum, samningum og sóma kvarnast úr grunnstoðum alþjóðasamfélagsins.
Það eru ekki aðeins bandarískir sultuframleiðendur sem leitast nú við að koma ár sinni vel fyrir borð. „Það sem blasir við á alþjóðavettvangi veldur mér áhyggjum,“ sagði Crawford Falconer, lávarður og fyrrum yfirmaður samninganefndar breska ríkisins á sviði alþjóðaviðskipta, um kenjótta framgöngu Trumps, sama dag og Trump hótaði að taka Grænland með hervaldi. „En sé honum alvara að gera við okkur viðskiptasamning ætti Bretland að stökkva á tækifærið eins og sveltandi hundur.“
Að manni læðist sá grunur að ástæða þess að ekki er hrópað hærra um þau brot á alþjóðalögum sem Trump segist blákalt ætla að fremja sé vonin um að græða á ófremdarástandinu. En sultugerðarmenn veraldarinnar ættu að vara sig.
Upphaflega voru það aðallega skipulögð glæpagengi sem stálu varningi úr verslunum sem þau seldu veitingahúsum, smáverslunum og almenningi á markaðstorgum internetsins. Stjórnarformaður verslunarinnar Marks & Spencer segir hins vegar millistéttina eiga stóran þátt í þeirri öldu gripdeilda sem nú ríður yfir. Sakaði hann fólk með nóg á milli handanna um að freistast í síauknum mæli til að setja í innkaupapokann vörur sem mistókst að skanna í sjálfsafgreiðslunni en ný könnun sýnir að þriðjungur millistéttarfólks hefur gerst sekt um slíkt athæfi.
Hversu langt er þess að bíða að áður heiðvirð stjórnvöld hætti að virða lög, landamæri og leikreglur sjái þau sér skammtíma hag í því?
Kokkur Putins Pirishenko fjármagnaði tröllaverksmiðju í Petursborg þar sem fólk á launum bloggaði og gerði athugasemdir í þeim eina tilgangi að tala illa um okkar vestræn gildi, hvort það voru fjölmiðlar, stjórnvöld eða annað.
Bandarískir öfgatrúarhópar með lúkur af fjár slógu svo í sama strengi með andúð sinni á öllu sem er vísindi (þróunarsaga!) eða hinsegið.
Við sjáum blíkur af þessu einnig hér heima þegar þingmaður agnúist í kynjafræðslu eða aðrir vilja loka RÚV.
Í athuasemdum talar fólk um "lygar" í okkar fjölmiðlum en virðist hafa sína vitneskju úr RTV (rússneskum áróðursmiðli) og álíka vafasömum heimildum.
Að fara svo eftir ráðum neoliberalistískra ráðgjafa hefur leitt til þess að allar stoðir samfélags hafa svo verið vanhirtar með sparnaði, hvort það eru samgönguinnviði, skólar, heilbrigðiskerfið eða lögreglan og fleira mætti nefna.
Við erum komin að vegamótum. Hvað viljum við, skæruhernað allir gegn öllum eða virkt samfélag bæði í nærumhverfi sem og á alþjóðavetvangi þar sem lög og samningar eru virt og umhyggja er borin fyrir alla meðborgara?