Sjálfstæðisflokkurinn í borginni nýtur stuðnings tæplega 34 prósent kjósenda. Samfylkingin hefur á sama tíma stuðning 20 prósent borgarbúa. Það er um það bil jafn mikið og flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Þetta eru niðurstöður könnunar Gallup fyrir Viðskiptablaðið.
Sósíalistaflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkurinn, með rúmlega 13 prósenta fylgi, en stuðningur við Flokk fólksins er svo lítið að flokkurinn næði ekki fulltrúa inn í borgarstjórn, yrðu þetta niðurstöður kosninga. Flokkurinn mælist með 3,6 prósent stuðning.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig töluverðu fylgi frá kosningunum 2022, þegar flokkurinn fékk 24,5 prósent atkvæða. Hann var þá engu að síður stærsti flokkurinn í borgarstjórn.
Framsóknarflokkurinn vann það ár mikinn sigur og reif fylgi sitt upp í 18,7 prósent í kom sér í meirihluta. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, sleit hins vegar meirihlutanum eftir að hafa sjálfur sest í borgarstjórastólinn. Nú mælist fylgið 4,7 prósent.
Stuðningur við Vinstri græna mælist 4,6 oprósent, sem er á sömu slóðum og í kosningunum 2022. Virðist fylgi flokksins á hægri uppleið frá lágpunkti sem birtist í könnun í október á síðasta ári, þegar flokkurinn mældist með 1,9 prósent.
Fylgi Pírata hefur helmingast frá kosningum og mælist nú 5,5 prósent, samanborið við 11,6 prósenta kjörfylgi. Fylgi Miðflokksins hefur á sama tíma tvöfaldast, farið úr 2,4 prósentum í kosningunum og upp í 5,1 prósent. Það myndi tryggja flokknum fulltrúa í borgarstjórn.
Á móti myndi Flokkur fólksins missa sinn eina fulltrúa.
Athugasemdir