Ekki hlusta á allt sem heilinn þinn segir þér. Hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér.“ Það var geðlæknirinn sem lét þessi orð falla um mitt síðasta sumar.
Á þessum síðsumardögum, þegar læknirinn bað mig að hunsa heilann og hans tillögur, var ég að kljást við dekksta lit þunglyndis. Það fyrsta sem ég hugsaði á morgnana þegar ég vaknaði var hvort ég gæti mögulega sofnað aftur. Bara að það væri komið kvöld, þá yrði ég ekki að bíða þess að dagurinn liði. Kannski ætti ég að prófa að skipta um stað til að liggja á í dag. En svo ætlaði ég aftur inn í rúm.
Ég hafði aldrei orðið svona veik. Nokkrum mánuðum áður, á afmælisdaginn minn, 21. apríl, hafði ég farið í leikhús og orðið svo yfir mig hrifin. Ég hreinlega sveif, fann lífið þrútna og tútna út í tær. Ég kallaði yfir bekki á fólk sem ég þekkti. Marga bekki. Ég kynntist sessunaut mínum til hægri. Vinkona mín sem var mér á vinstri hönd hélt eftir sýninguna að hinum megin við mig hefði einhver setið sem ég þekkti, svo innilega malaði ég við hana. Nei, nei, ég var að hitta sessunautinn í fyrsta skipti. Vinkona mín sagði mér að það væri góð hugmynd að tala við geðlækninn minn daginn eftir.
Ég fékk þá greiningu fyrir um 15 árum að ég væri með geðhvörf. Eftir að hafa tekið lyf öll þessi ár hafði ég ekki kennt mér meins en manía var þarna í hægðum sínum að banka upp á. Þetta hafði verið að smágerast og þá er oft erfitt fyrir aðra að sjá og fatta.
Nokkrum dögum áður en ég fór í leikhúsið á afmælisdaginn hafði ég verið að feta mig hærra og hærra í mestu makindum. Ég fann þessa undurvellíðan og pipraði hana aðeins aukalega. Spilaði fallegustu lög í heimi, skemmtilegustu lögin, tilfinningaþrungnustu lögin. Pavarotti, Celine Dion, Emilíana Torrini, þau biðu þarna í hrönnum að fá að hefja upp raust sína á Spotify; tónlistarfólk sem söng frá kjarnanum.
Ég var allan daginn hátt uppi á eins manns tónlistarfestivali, á milli þess sem ég hringdi í vinkonur mínar og sagði þeim bráðsniðugar sögur. Ég var að eigin mati skemmtilegasta og sniðugasta manneskja í heimi. Ég var þó greinilega meðvituð um að þetta væri ekki alveg eðlilegt því þegar það var hálftími í að Freyr, eiginmaður minn, og sonur kæmu heim úr vinnu og skóla lækkaði ég tónlistina og reyndi að ljá heimilinu sakleysislegt yfirbragð. Um hálf fimm slökkti ég því á organdi Pavarotti og yfirvegaði stærðfræðingurinn Bach var settur á fóninn.
„Látið lífsgleðina mína í friði!
Um leið þurfti ég að setja ósýnilegt tyggigúmmí á raddböndin því talfærin voru á fleygiferð. Þannig reyndi ég að tala hægar og draga seiminn. Það mátti enginn fatta hvar ég var stödd. Látið lífsgleðina mína í friði!
Ég skríkti í laumi yfir því að vera svona flink og hvað allir voru fattlausir. Ég var farin að hugsa svo hratt að ég gaf öðrum ekki tækifæri á að vera til, þeir urðu líka að hugsa og tala hratt. Annars vildi ég hrinda þeim.
Ég var óhrædd við allt, blátt áfram við hvern sem er. Þetta olli því að sumt fólk varð hvumsa, á því sem ég vildi allt í einu gera upp. Ímyndið ykkur stofusenuna í Hafinu eftir Baltasar Kormák þar sem við blasir uppgjör við alla fjölskylduna. Þannig breytti ég sakleysislegri heimsókn á fimmtudegi í dramatíska íslenska leikhússenu.
Þeir feðgar voru orðnir þreyttir á manneskju sem talaði út í eitt. Ég stakk upp á að við prófuðum að setja mig í þagnarbindindi. 15 mínútur í senn. Og svo fengi ég að tala í 10 mínútur. Þegar Freyr fór í þvottahúsið stalst ég til að hringja í fólk. Ég stalst líka til að hringja þegar hann var uppi, hvíslaði bara í símann. Ég fór fram á stigagang til að finna einhvern til að tala við. Ég fór út á svalir til að reyna að finna nágranna sem væri líka úti á svölum.

Ég hafði samband við lækninn. Þetta var spurning um innlögn en ég vildi að mér yrði gefinn séns. Læknirinn gaf mér tækifæri. „En ekki fara út úr húsi, ekki á samfélagsmiðla, ekki vera að hringja og ekkert uppgjör.“ Ég sagðist myndi hlýða en það varð ekki raunin. Enda var ég fljótlega komin inn á spítala.
Ég viðurkenni þetta allt þegar ég sit uppi á spítala með læknum og hjúkrunarfólki stuttu síðar. Það eru líka nemar, fullt af fólki og mér finnst bara gaman að hafa sem flesta.
Það versnar þó í því þegar ég ligg inni á herberginu mínu á geðdeild. Í heyrnartólunum syngur Celine Dion sérstaklega til mín. Ég snarslökkti á tónlistinni. Ég hafði sjálf tekið viðtöl við fólk sem lýsti sams konar upplifun. Það fólk var alvarlega geðveikt. Engu að síður hvísla ég því að nýrri vinkonu minni þarna inni að við séum einu sjúklingarnir sem séu heilbrigðir og finnst ég um leið vera að ræna þessari línu úr bók. Þetta er þó það sem mér í alvörunni finnst.
Allir hjálpuðust að við að toga mig niður úr háloftunum. Loksins gat ég verið ég sjálf, ég var á geðdeild. Og ég var með mikilmennskubrjálæði. GOTT að ég var þarna. Ég fann að ég gat fengið fólk sem var langt niðri til að segja mér hluti og ég var ekki aðeins að vinna gott félagslegt starf, fannst mér, heldur var ég líka svolítið lunkin í lyfjum. Ég ráðlagði einni sem var með geðhvörf að fá lamictal, „mjög gott jafnvægislyf“. „Þú ert auðvitað auðsjáanlega með geðhvörf,“ - greindi ég annan. En ég grét líka eina nóttina í örmum hjúkrunarfræðings og sagðist vilja losna við þennan „ógeðslega sjúkdóm“.
Það voru margar vikur liðnar frá útskrift af geðdeild þegar læknirinn sagði mér að hlusta ekki á allt sem heilinn segði mér. Smátt og smátt var ég lent á jörðinni en lendingin var ekki mjúk. Geðhæðum fylgja nær alltaf geðlægðir. Og þær geta verið hættulegar. Sjö kíló voru farin á örfáum vikum. Heima velti ég matarbitunum á disknum til og frá og skoðaði þá frá öllum sjónarhornum, rembdist við að kyngja. Ég átti erfitt með að hreyfa mig og tala. Freyr teymdi mig áfram, út úr húsi, upp í bíl og inn á biðstofu Landspítalans við Hringbraut. Ég lallaði á eftir honum eins og þreytt og þungt burðardýr.
„Stundum eru það annarra manna heilar og annarra manna hjörtu sem vita best
Læknirinn sá strax ástandið. Þunglyndislyfin voru ekki að virka eins hratt og við óskuðum. Og hvað þá? spurði ég örvæntingarfull. Get ég fengið rafstuð? Heilaskipti? Bara hvað sem er. Ég vissi að ég myndi aldrei framar líta glaðan dag. Ég vildi fara. Ég var bara að velta fyrir mér aðferðinni. „Ekki hlusta á allt sem heilinn segir þér. Hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér. Þetta verður betra.“
Sumir leggja upp með að maður hlusti annaðhvort á heilann eða hjartað. Stundum ætti hvorugt að eiga atkvæðarétt. Stundum eru það annarra manna heilar og annarra manna hjörtu sem vita best. Ég hafði orð læknisins hugföst meðan ég beið. „Þetta verður betra.“ Ég beið eftir að réttu lyfin fyndust, rétt skammtastærð, að þau færu að virka. „Þetta verður betra.“ Ég viðurkenni að á meðan ég beið trúði ég ekki þessum orðum.
En þau rættust.
Athugasemdir