Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.“
Svo orti Tómas Guðmundsson í ljóðinu Fjallganga. Hann situr á bekknum við Tjörnina og fylgist með breytingunum eins og ég. Tómas fæddist við upphaf 20. aldar og ég við lok hennar. Síðan ég fæddist hafa um 70 jöklar horfið á Íslandi. Ég verð þrítug á næsta ári.
„Urð og grjót.
Upp í mót.
Ekkert nema urð og grjót.“
Ég hef hugsað svolítið um þessa línu upp á síðkastið. Tilefnið er blendið. Í dag, 21. mars, er Alþjóðadagur jökla haldinn í fyrsta skipti í heiminum. Það er ótrúlega fallegt að nú sé kominn árviss dagur tileinkaður stórbrotnum jöklum. Einstakri náttúru sem skiptir máli fyrir lífið sjálft, en jöklar geyma um 75% alls ferskvatns á jörðu og sjá fjölda fólks, réttara sagt tveimur milljörðum manneskja, fyrir mat og vatni. Þessi dagur ætti að skipta okkur á Íslandi miklu máli enda erum við svo heppin að búa á meðal þessara risavöxnu, hrikalegu og fögru fyrirbæra sem þekja um 11% af landinu okkar. Minnumst jöklanna okkar í dag.
Tilefnið er blendið af því að ástæða þess að við erum nú komin með Alþjóðadag jökla er tilkomin vegna þess að jöklarnir okkar eru að hverfa á ógurlegum hraða og það af mannavöldum. Ég hugsa um urð og grjót og ekkert nema urð og grjót af því að þannig lítur framtíðin út núna. Engir ísi þaktir tindar, engar dauðadjúpar sprungur og engir bláleitir jöklar. Bara urð og grjót. Minnstum horfnu jöklanna okkar í dag.
Það er auðvelt að ímynda sér og lifa sig inn í fjallgönguna erfiðu sem Tómas orti svo listilega um. Spennan stigmagnast og óttin við að hafa ekki tök á aðstæðum eykst í hverri línu. Óskhyggjan og vonin um að allt fari á endanum vel, að komist sé að lokum örugglega heim, er innileg og sterk. En ólíkt ljóði Tómasar er lausn á erfiðri för okkar ekki í sjónmáli og stjórnleysi ræður ríkjum. Við höfum sleppt öllu taki á aðstæðunum og leyfum nú jöklunum okkar að bráðna. Og þeir bráðna hraðar og hraðar eftir því sem tímanum líður og skilja ekkert eftir sig, ekkert nema urð og grjót.
Við höfum leyft náttúrunni að lúta í lægra haldi og látið eins og hún sé einskis virði. Látið eins og við tilheyrum henni ekki lengur. Látið eins og við séum utanskilin þeirra áhrifa sem loftslagsváin hefur.
„Landslag yrði
lítils virði,
ef það héti ekki neitt.“
Oft og tíðum óska ég að þessi snilldarlegu skrif gætu orðið sönn. Því að í dag er ekki nóg að landslag eigi sér nöfn.
Hofsjökull eystri, Ok, Torfajökull, Snæfellsjökull... Horfnir og hverfandi jöklar með nöfn og tilgang. Landslag sem geymir minningar og drauma sem bráðna nú og streyma út í hafið. Landslag sem er alls virði. Um næstu aldamót gæti svo orðið að Vatnajökull standi einn eftir. Virði alls landslags þjappað saman og komið fyrir á einum stað, einmanna á íslausri eyju.
Landslag yrði
lítils virði,
Ef það væri ekki til.
Framundan er krefjandi og langt ferðalag en það er vel þess virði. Mikilvægasta og erfiðasta fjallgangan er hafin. Og að lokum munum við líta um öxl, minnast alls þess sem við lögðum á okkur og vonandi sjáum við tindinn, ísi þaktan tindinn.
Heimildir:
https://www.un-glaciers.org/en
https://www.theguardian.com/environment/2025/mar/20/glacier-meltdown-risks-food-and-water supply-of-2bn-people-says-un?CMP=Share_AndroidApp_Other
https://islenskirjoklar.is/#/page/map
https://www.ni.is/is/jord/vatn/joklar
https://un.is/joklar-a-islandi/
https://www.vedur.is/um-vi/frettir/althjodaar-jokla-hafid
https://www.ruv.is/frettir/erlent/2023-01-08-adeins-thridjungur-jokla-eftir-um-aldamot-ef-fram-held ur-sem-horfir
https://glaciercasualtylist.rice.edu/
http://vefir.unak.is/heimaslod/grennd/urd_og_grjot.html
Athugasemdir (1)