Um daginn rakst ég á spurningu á Facebook þar sem fólk var beðið að velja hvort það vildi frekar; fara aftur í tímann og laga allt sem úrskeiðis fór eða eignast tíu milljónir dollara. Ég var ekki lengi að ákveða mig; ég tæki peninginn. Ekki af því ég þarf tíu milljón dollara endilega, þótt það gæti verið ágætt, heldur af því að allur lærdómurinn, reynslan, sorgir og sigrar er það sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Fyrir utan það myndi ég hreinlega ekki nenna að lifa aftur unglingsárin og sama gildir um öll hin árin líka, þó þau hafi flest verið alveg ágæt og mörg frábær. Það er nefnilega bara fínt að vera til akkúrat núna og vera orðin 58 ára. Alveg þrælfínt.

Þegar ég var fimm ára ákvað ég að verða heimsfræg leikkona og ljóðskáld. Ég er hvorugt, en það skiptir engu máli. Sem ljósmyndari og blaðamaður fæ ég útrás fyrir sköpunarþörfina og nýt þess að hitta nýtt og spennandi fólk í hverri viku sem segir mér sínar sögur. Ég elska að hlusta á sögur annarra og finnst alltaf nýjasti viðmælandi minn sá mest spennandi. Það eru forréttindi að vinna við það sem manni þykir skemmtilegt; það hef ég lært.
Leikkonudraumarnir lifðu reyndar alveg fram til tvítugs eða svo. Fyrsta hlutverkið var í Rauðhettu litlu í sex ára bekk í Vance School í Connecticut í Bandaríkjunum. Mig langaði ekkert heitar í lífinu en að fá að leika Rauðhettu en þar sem þetta var söngleikur, og ég hef aldrei getað sungið, hreppti önnur stúlka aðalhlutverkið. Ég þurfti að sætta mig við hlutverk mömmunnar sem var þó mun skárra en að leika tré eins og flestir bekkjarfélagarnir gerðu. Hvað lærði ég þarna strax á unga aldri? Að takast á við höfnun og vita að maður fær ekki allt sem maður vill. Allir draumar geta ekki ræst.

Eftir því sem tíminn æddi áfram og lífið leiddi mig á aðrar brautir en lagt var upp með, sá ég betur og betur að allt er breytingum háð. Ég valdi ekki leiklist heldur fyrst myndlist, síðan blaðaljósmyndun, seinna listfræði og loks blaðamennsku. Það kenndi mér að oft er plan B alveg jafngott og plan A. Jafnvel plan C getur alveg dugað. Og það má skipta um skoðun oft á lífsleiðinni, enda þroskast maður og lærir út ævina.
En varðandi leiklistina, þá þykist ég vera að skrifa kvikmyndahandrit. Kannski skrifa ég bara sjálf hlutverk fyrir mig í kvikmyndinni minni og læt þann draum rætast þó óljóst sé úr þessu hvort ég öðlist heimsfrægð, en aldrei að segja aldrei. Án drauma yrðu mörg verkefni aldrei að veruleika og því er nauðsynlegt að leyfa sér stundum að dreyma líka.
„Það má skipta um skoðun oft á lífsleiðinni, enda þroskast maður og lærir út ævina
Fleira hafði unga Ásdís á stóra planinu. Alveg var ég viss um að ég yrði gift þriggja barna móðir fyrir þrítugt; alveg eins og mamma. Það fór nú ekki svo en ég gifti mig þó rúmlega þrítug og var svo heppin að eignast tvo drengi þegar ég var 35 og 37 ára. Enginn planar skilnað, þó um helmingur okkar lendi í því, þar á meðal undirrituð. Í dag er ég mjög sátt við hlutskipti mitt því ég hef nefnilega lært að það er frábært að vera einhleyp. Þá þarf ég ekkert að plana mitt líf í kringum annan einstakling heldur get hagað því alveg eftir mínu höfði og enginn hrýtur í rúminu við hliðina á mér og heldur fyrir mér vöku.

Með auknum þroska, og það er svo merkilegt hvað maður virðist geta þroskast endalaust, hef ég lært að maður stjórnar engum nema sjálfum sér. Og það getur alveg verið nóg að díla við eigin ófullkomleika, að reyna sífellt að verða betri manneskja, að hætta að dæma og hætta að reyna að stjórna öllu og öllum. Ég er líka að læra að þegja þegar það á við; ég þarf ekki alltaf að segja mína skoðun.
Ég uppgötvaði það fyrir rúmum áratug að áfengi var ekki skemmtilegur ferðafélagi þannig að ég henti honum út á ferð og sé ekki eftir því. Ég hef sannarlega lært að lífið er miklu skemmtilegra án áfengis. Og í leiðinni þá lærði ég líka að ef eitthvað bjátar á, má maður biðja um og þiggja hjálp. Fólk er tilbúið að rétta fram hjálparhönd.
„Ég hef sannarlega lært að lífið er miklu skemmtilegra án áfengis
Í seinni tíð hefur mér lærst betur og betur að njóta litlu stundanna. Það þarf ekki flugeldasýningu til að gleðja mig. Mér nægir að drekka góðan kaffibolla og horfa á vorið út um gluggann. Að leysa lífsgátuna með bestu vinkonunni. Að keyra úti á landi með Leonard Cohen í botni. Að fara árlega í Flatey, besta stað veraldar, og horfa út á haf í dásamlegri kyrrð. Að fá hlátursköst með systrum mínum og mömmu. Að bjóða stórfjölskyldunni í mat, jafnvel á mánudegi eftir vinnu, og elda uppáhaldsréttinn, ítalskar kjötbollur og spagettí. Að horfa á syni mína borða glóðvolgt bananabrauð með smjöri í eldhúsinu heima.

Þakklætið eykst með árunum; þakklæti fyrir góða heilsu og gott fólk. Eins mikið og ég nýt þess að vera ein, þá hef ég líka lært að samvera með fólkinu mínu er það allra besta sem til er. Ég er umkringd frábærum vinum sem styðja mig í gegnum súrt og sætt og fjölskyldan mín stendur með mér eins og klettur. Mótlæti er ekkert skemmtilegt en það er hægt að mæta því með góðu fólki í kringum sig, það hefur komið í ljós.
Ég myndi því aldrei velja að fara aftur í tímann og breyta gangi lífsins, því það er yfirhöfuð mjög skemmtilegt eins og það er. Húmor og dass af kæruleysi fleytir mér langt og það þýðir ekkert að taka öllu of alvarlega; þá verður bara allt svo leiðinlegt.
Og lífið á að vera skemmtilegt!
Athugasemdir