Ég las nýverið frétt um að allir speglar hefðu verið fjarlægðir af veggjum snyrtinga í skóla skammt frá Lincoln á Englandi. Sagði skólastjórinn nemendur verja allt of miklum tíma fyrir framan speglana.
Eftir viðburðalítinn dag bjó ég yfir mörgum kílóvattstundum af ónýttum hneykslunarkrafti sem þeytti mér beint á endastöð hverrar rökleiðslu: F-orðið. Þetta var augljóslega fasismi.
Foreldrar í skólanum, sem Breska ríkisútvarpið tók tali, voru sama sinnis. „Hvað ef börnin eru með eitthvað fast í tönnunum?“ spurði ein móðir.
Þegar ég greindi ellefu ára dóttur minni, sem sækir grunnskóla í London, frá málinu átti ég von á liðsauka í vandlætingu minni. Raunin varð önnur.
„Það eru engir speglar í skólanum mínum,“ svaraði hún.
„Ó.“ Á sjö ára skólagöngu hennar hafði það farið fram hjá mér. „En finnst þér það ekki ósanngjarnt?“
Hún yppti öxlum. „Nei.“
„Ég mun ekki hlýða“
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra, vann fyrir afsögn sína í vikunni að frumvarpi sem banna átti snjallsíma í grunnskólum landsins.
Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands, brást við ráðagerðinni af heift. Í eldræðu á samfélagsmiðlinum Facebook kvaðst hann ekki mundu framfylgja slíku banni. „Ég mun ekki hlýða.“
Símar eru bannaðir í skóla dóttur minnar. Almenn ánægja ríkir um fyrirkomulagið. Ofsafengin viðbrögð Ragnars Þórs komu mér því spánskt fyrir sjónir.
Hvers vegna mátti ekki banna síma? Rök Ragnars voru óljós. Eitthvað um að menntamálaráðherra stigi yfir „strik“. Eitthvað um „fylki í Bandaríkjunum sem hafa gefið skóla á vald forneskju“. Eitthvað um „fasista í stjórn menntamála“ í öðrum löndum, m.a. Danmörku þar sem banna á síma í skólum. Eitthvað um menn sem „hafa ruðst inn í skóla í leit að sönnunargögnum um kynfræðslu“ á Íslandi. Eitthvað um að „smætta kennara niður í það að þeir ráði ekki við hlutverk sitt“.
Þótt ég skildi ekki rökin tengdi ég við síðasta liðinn. Það er nefnilega orðin þjóðaríþrótt hér á landi að smætta foreldra og saka þá um að farast hlutverk sitt illa úr hendi.
Í ummælum við eldræðu Ragnars kepptust menn við að úthúða foreldrum. „Ákall um símabann kemur oftar en ekki frá foreldrum,“ sagði einn. „Hvert foreldri sem ekki vill að barnið sitt noti síma ætti bara að hysja upp um sig buxurnar og láta barnið ekki hafa síma. Og ef ekkert foreldranna vill stíga fyrsta skrefið og vera „leiðinlega foreldrið“ þá geta þau hæglega haft samband við aðra foreldra og gengið samtaka fram í þessu máli.“
Nálgun þessa úrræðagóða herramanns kann að virðast rökrétt. En ég veit hvernig slík sviðsmynd lítur út í veruleikanum.
Þegar dóttir mín hóf skólagöngu sammæltist hópur foreldra um að gefa börnum sínum ekki snjallsíma í grunnskóla. Ásetningurinn fór þó fljótt fyrir lítið. Dóttir mín er nú sú eina í vinkvennahópi sínum sem ekki er komin með síma. Símabannið í skóla hennar tryggir hins vegar að hún verður þess lítið vör.
Nýverið fór dóttir mín hins vegar á leiklistarnámskeið. Hún hafði sótt sambærileg námskeið áður og alltaf kynnst þar urmul af krökkum. Að þessu sinni voru símar hins vegar leyfðir. Í fyrsta sinn náði dóttir mín ekki nokkru sambandi við hina nemendurna sem áttu í samskiptum í frímínútum á WhatsApp með YouTube vídeóum.
Ekki allt er mannréttindi
„Það eru speglar heima hjá okkur, af hverju mega ekki vera speglar í skólanum?“ spurði reið móðir skólastjórann í Lincoln.
Við fyrstu sýn fannst mér speglamálið bera vott um hugsunarlausa valdníðslu. En aðgerðin átti sér skýringu. Stórir hópar nemenda, sem héngu við salernisspeglana, voru farnir að valda þeim óþægindum og kvíða sem þurftu að nota klósettaðstöðuna til hefðbundinna verka.
Ég á erfitt með að skilja þá sem telja það mannréttindi að börn fái að vera með símann nánast samgróinn við lófann á sér. Ég er þó alveg til í að hlusta á rök þeirra.
En ekki allt er mannréttindi og ekki allt er fasismi.
Þótt símar – eins og speglar – séu heima hjá okkur er það ekki sjálfgefið að þeir eigi heima í skólum. Á hinn bóginn getur verið að til séu fyrir því góð rök að krakkar komi með síma í skólann. Eitt er þó víst. Sú öfgafulla heift sem nú einkennir umræðuna er ekki til þess fallin að leiða málið farsællega til lykta.
Athugasemdir (1)