Vilja endurvekja systkinaforgang á leikskóla

Þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, þar á með­al fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri, vilja end­ur­vekja systkina­for­gang í leik­skól­um. Slík­ur for­gang­ur er til stað­ar í nokkr­um sveit­ar­fé­lög­um en var af­num­inn í Reykja­vík fyr­ir 17 ár­um eft­ir álit borg­ar­lög­manns.

Vilja endurvekja systkinaforgang á leikskóla
Leikskólamál Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarps þess efnis að endurvekja systkinaforgang á leikskólum. Þetta er í fjórða sinn sem hún mælir fyrir frumvarpinu. Mynd: Golli

Átta þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri, hafa lagt fram frumvarp þess efnis að endurvekja systkinaforgang á leikskólum. Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um leikskóla þar sem sveitarstjórnum „er heimilt að haga innritun með tilliti til þess að systkini eða börn sem hafa sama lögheimili geti sótt sama leikskóla, sem og með hliðsjón af nálægð leikskóla við lögheimili barna“. Frumvarpinu hefur verið útbýtt og er á dagskrá þingfundar í dag. 

„Þetta er löngu tímabært og búið að kalla eftir þessu í mörg ár,“ segir Dagbjört Hákonardóttir, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sem er að leggja frumvarpið fram í fjórða sinn. Dagbjört starfaði sem lögmaður hjá Reykjavíkurborg áður en hún tók sæti á Alþingi þar síðasta haust og þekkir vel til leikskólamála, sér í lagi álits borgarlögmanns frá 2008 sem varð til þess að systkinaforgangur á leikskóla borgarinnar var afnuminn. Í álitinu kom fram að reglan gangi í berhögg við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Helstu rök snúa að því að með systkinaforgangi gengju yngri börn framar eldri börnum eða börnum í sama árgangi sem ekki ættu eldri systkini í viðkomandi leikskóla. Dagbjört segir að með frumvarpinu sé verið að gera lagaheimildina ótvíræða. „Það er ótvíræður hagur allra sem í þessari borg búa, og þó víðar væri leitað, að fjölskyldur þurfi ekki að fara borgarenda á milli með sitthvort barnið sitt, bara svo það fái leikskólavist.“ 

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að systkinaforgangur muni nýtast barnafjölskyldum og muni ekki koma niður á börnum sem ekki eiga eldra systkini. „Samvera systkina á sama leikskóla felur í sér dýrmæta og mikilvæga upplifun barna á fyrsta skólastiginu þegar hún er möguleg, og sveitarfélögum á að vera gert kleift að gera ráðstafanir til að koma af fremsta megni í veg fyrir að fjölskyldur þurfi að fara hverfa á milli til að sækja leikskóla með tilheyrandi álagi á umferð,“ segir í greinargerðinni. 

Í því skyni að tryggja börnum, sem ekki eiga eldra systkini á leikskóla, aðgengi að leikskóla innan eigin hverfis er einnig lagt til í frumvarpinu að heimila sveitarfélögum að móta reglur sem tryggi börnum forgang inn á leikskóla með hliðsjón af nálægð heimilis við leikskóla með svipuðum hætti og gildir um innritun í grunnskóla. 

Sveitarfélögin ráði ennþá ferðinni

Systkinaforgangur hefur verið sveigjanlegri í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík en Dagbjört segir meiningu frumvarpsins ekki vera að skylda sveitarfélög til að innleiða systkinaforgang. „Borginni verður eftir sem áður alveg frjálst að hafa þetta óbreytt, kjósi kjörnir fulltrúar að gera það svo. Hér er einfaldlega um að ræða heimild til þess að taka tillit til fleiri þátta en bara kennitölu og aldur barns.“ 

Með breytingunni telja flutningsmenn að tryggja megi að sem flest börn geti hafið leikskólagöngu í námunda við heimili sitt á tilskildum aldri. Dagbjört segist þó gera sér grein fyrir að frumvarpið leysi ekki vandann í leikskólamálum í heild sinni, sem snýr að biðlistum og mönnun. „Þetta mál leysir ekki allt, en þetta er skref í rétta átt. En þetta er samfélagslegt vandamál sem við verðum að leysa.“ 

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Umdeild gjaldskylda við Reykjanesvita: „Þetta er bara slóði“
3
UmhverfiðFerðamannalandið Ísland

Um­deild gjald­skylda við Reykja­nes­vita: „Þetta er bara slóði“

Sam­kvæmt lóða­leigu­samn­ingi hef­ur fyr­ir­tæk­ið Reykja­nes Aur­ora heim­ild til að inn­heimta bíla­stæða­gjöld í 500 metra radíus við Reykja­nes­vita þrátt fyr­ir að leigja að­eins hluta af því landi. Eig­and­inn seg­ir að reynt hafi ver­ið á gjald­heimt­una fyr­ir dómi og hún úr­skurð­uð hon­um í vil. „Þetta er bú­ið að vera vand­ræða­mál,“ seg­ir Kjart­an Már Kjart­ans­son, bæj­ar­stjóri Reykja­nes­bæj­ar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Erla Björg hættir sem ritstjóri: „Stundum hef ég þurft að minna mig á æðruleysið“
2
Innlent

Erla Björg hætt­ir sem rit­stjóri: „Stund­um hef ég þurft að minna mig á æðru­leys­ið“

Erla Björg Gunn­ars­dótt­ir er hætt sem rit­stjóri á frétta­stofu Sýn­ar. Í færslu á sam­fé­lags­miðl­um seg­ir hún að í ár­anna rás hafi hún unn­ið eins og hún gat með sí­breyti­leg­an far­veg þar sem hún hafi stund­um þurft að minna sig á æðru­leys­ið og hverju hún gæti stjórn­að. „Eft­ir marga slíka hringi kem­ur að þeim tíma­punkti að það er best að kveðja og hleypa nýj­um kröft­um í bar­átt­una.“

Mest lesið í mánuðinum

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörðinni“
5
Innlent

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörð­inni“

Und­ir­skrifta­söfn­un er haf­in til að mó­mæla fram­kvæmd­um í Skafta­felli. Fund­ur um breyt­ing­ar fram­kvæmd­anna var hald­inn um há­sum­ar. „Það dugði til að gera skyldu sína,“ seg­ir íbúi á svæð­inu. Íbú­ar ótt­ast að sam­keppn­is­hæfni muni minnka ef fyr­ir­hug­uð ferða­g­ist­ing rís. „Ég sé ekki ann­að en að þetta auki tekj­ur og at­vinnu á svæð­inu,“ seg­ir Pálm­ar Harð­ar­son, sem stend­ur að fram­kvæmd­inni ásamt Arctic Advent­ur­es.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár