Það er til gömul frumbyggjasaga sem fjallar um samtal eldri manns við annan yngri. Öldungurinn segir að í okkur öllum búa tveir úlfar sem slást um áhrif yfir manni, einn er góður en hinn vondur. Sigurvegarinn er úlfurinn sem þú kýst að fóðra. Í sál allra búa tveir úlfar, en í mínu tilfelli held ég að þeir séu báðir framsóknarmenn.
Sem lattelepjandi lopapeysa og áhugamaður um byggðamál eru úlfarnir mínir ýlfrandi og gólandi nú um stundir, eftir að nokkur vandamál í íslensku samfélagi hafa birst á skýran og auðmeltanlegan máta. Ég vil aðeins kafa í þau og vona að lesendur hafi a.m.k. gaman af því.
Í fyrsta lagi er Reykjavíkurflugvöllur ekki nálægt því jafn gagnlegur sem innviður en sem tákngervingur. Umræður um hann jaðra frekar á við gagnrýni á listaverk en mat á mannvirki. Eins og með ýmis önnur umtöluð listaverk finnst sumum finnst þetta rusl sem ber að tortíma, en aðrir vita ekki hvar þeir væru í dag ef ekki væri fyrir tilvist þess.
„Ég vona að eftir snyrtinguna í Öskjuhlíð gefst loksins fólki færi á að sjá skóginn fyrir felldum trjánum“
Þegar við tölum um Reykjavíkurflugvöll erum við ekki að tala um Reykjavíkurflugvöll, heldur gallaða uppbyggingarstefnu höfuðborgarsvæðisins, kreppa landsbyggðanna, rýrnum heilbrigðisþjónustu á landsvísu og jafnvel galla á núverandi fyrirkomulagi Alþingiskosninga, meðal annars. Fæst af þessu verður leyst af Reykjavíkurborg einni sér eða með flugvelli, en einhverjir telja það vera sér og sínum í hag að horfast ekki í augu við þessi risavöxnu vandamál, heldur klína ábyrgðinni á villta vinstrið í borginni. Ekki að meirihlutinn í borginni sé flekklaus. Ég vona að eftir snyrtinguna í Öskjuhlíð gefst loksins fólki færi á að sjá skóginn fyrir felldum trjánum í þessum efnum.
Önnur áhugaverð atburðarás hefur átt sér stað á Þorlákshöfn, þar sem tveir valkostir stóðu til boða. Annars vegar að þjóna hagsmunum alþjóðlegs stórfyrirtækis sem fremur mannréttindabrot í Palestínu, en hins vegar var að sleppa því. Með því að sleppa því væri komist hjá eyðileggingu strandlengju sem er nýtt af brimbrettaköppum. Af íslenskum sið valdi sveitastjórnin að þjóna hagsmunum Heidelbergs.
Í stóru samhengi kristallar þetta ákveðið ethos, þess eðlis að Íslendingar ofmeti kosti þess að smærri byggðalög verði nokkuð háð rekstri eins risastórs alþjóðlegs fyrirtækis, sem þarf nauðsynlega á hagrænum hvötum á að halda til þess að flytjast ekki á brott. Þetta er líka myndbirting þess hve ósvalt þetta sker er og hvernig gnarly-ass ráðamenn ráðast gegn hagsmunum töff fólks og nettra félagshópa.
Svo er líka rektorskjör í HÍ. Ég mun þurfa að velja á milli skyldmennis eða kandídata sem ég tel vera nær mínum gildum. Þá er spurningin hvort ég fóðra framsóknarúlfana í mér eða svelti þá.
Athugasemdir