Hér á eftir verður fjallað um tollamál og afskipti Trumps af tollum og alþjóðaviðskiptum.
Sögubrot
Í kreppunni miklu kringum 1930 var gripið til víðtækra tollahækkana og ýmissa hindrana á alþjóðaviðskiptum. Enginn vafi leikur á því að þessar aðgerðir dýpkuðu kreppuna og drógu hana á langinn. Þegar seinni heimstyrjöldinni lauk var ákveðið að efla alþjóðaviðskipti og koma í veg fyrir að ríki heimsins gætu girt sig af með tollmúrum í framtíðinni. Hugmyndin var að setja upp þrjár stofnanir, s.n. Bretton Woods stofnanir. Þær voru Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóða viðskiptastofnunin (e. International Trade Organization, ILO). Ekki varð af stofnun ILO en í staðinn kom GATT árið 1948 (e. General Agreement on Tariffs and Trade) sem varð vettvangur fyrir samningaviðræður og regluverk um alþjóðaviðskipti. Viðræður um tollalækkanir og afnám viðskiptahindrana fóru fram innan GATT samkomulagsins í lotum á nokkurra ára millibili. Innleidd var grundvallarregla í alþjóðaviðskiptum eða reglan um bestu kjara viðskipti (e. Most Favored Nation principle, MFN). Í henni fólst að tollalækkun sem veitt væri einu landi skyldi gilda fyrir öll löndin innan GATT. Með þessari reglu átti meðal annars að koma í veg fyrir að öflug ríki gætu gert smærri ríki háð sér efnahagslega með því að bjóða betri kjör á viðskiptum þeirra en almennt gerðist. Notuðu Þjóðverjar þá aðferð í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar til að gera smærri viðskiptalönd háð sér. Ísland varð aðili að GATT árið 1968.
Í fyrstu voru framfarir hægar í GATT viðræðunum, en kringum 1964 í svo nefndri Kennedy-lotu var breytt um aðferðafræði. Í stað þess að aðildarríkin gerðu tilboð og gagntilboð um tollalækkanir á einstökum vörutegundum var farið að lækka tolla yfir alla línuna í einu. Viðræðurnar fóru fram í lotum í Genf og stóðu samningaviðræðurnar oft yfir í nokkur ár. Er svo komið að tollar á iðnaðarvörum eru yfirleitt undir 5% í viðskiptum á milli aðildarríka WTO (e. World Trade Organization) sem tók við hlutverki GATT samkomulagsins árið 1995. Under WTO falla fjölmargir málaflokkar svo sem þróunarmál, þjónustuviðskipti og hugverkaréttur.
Minni árangur náðist í frjálsari viðskiptum með landbúnaðarvörur, einkum búvörur, en iðnaðarvörur. Í svonefndri Úrúgvæ-lotu árin 1986-1994 var stórt skref stigið til að lækka tolla og aðrar viðskiptahindranir á mörgum sviðum, einnig varðandi landbúnaðarafurðir. Til að auðvelda samninga um búvörur var ráðist í að tollreikna allskonar stuðningsaðgerðir og innflutningshöft.
Hugmyndin var að markaðsaðgengi með landbúnaðarafurðir takmarkaðist eingöngu af tollum. Með því að verðleggja frumskóg af viðskiptahindrunum við búvöruframleiðslu var hægt að semja um tollalækkanir yfir línuna með svipuðum hætti og hafði skilað góðum árangri fyrir iðnaðarvörur. Slíkir útreikningar voru gerðir fyrir Ísland. Niðurstaðan var mjög há tollvernd íslensks landbúnaðar þegar allt var talið. Þessir útreikningar tollígilda endurspegluðu lága framleiðni og háan framleiðslukostnað landbúnaðarafurða sem í skjóli viðskiptahindrana hefur haft áhrif á lífskjör hér á landi um árabil. Fleiri þjóðir en Íslendingar verja innlenda framleiðslu. í Bandaríkjunum eru margskonar ríkisstyrkir veittir þrátt fyrir að háa framleiðni og mikil afköst. Flestir þessara styrkja eiga rætur að rekja til kreppunnar miklu. Þeir hafa enn ekki verið afnumdir vegna sterkrar hagsmunagæslu í landbúnaði. Sjálfur Trump undirritaði árið 2018 síðasta samninginn um ríkisstyrki til fimm ára.
Í Doha árið 2000 var ætlunin að auka markaðsaðgengi og hefja umtalsvert lækkunarferli á tollígildum landbúnaðarvara. Því miður náðist ekki samkomulag um verulegar allsherjar tollalækkanir á búvörum og þar við situr enn þann dag í dag.
Undirliggjandi framleiðsluskilyrði
Samkomulag um frjáls viðskipti og lækkun tolla var ekki eingöngu ávöxtur hugsjóna um frjálsari viðskipti. Að baki lágu hagsmunir atvinnulífsins ekki síst í Bandaríkjunum. Adam Smith sagði á sínum tíma að verkaskipting eða sérhæfing væri háð stærð markaðarins. Út af þessu lagði Allyn Young í grein árið 1928 (e. Increasing Returns and Economic Progress) þar sem hann meðal annars skýrði mismun á framleiðni vinnuafls í Bretlandi og Bandaríkjunum með stærri markaði og meiri sérhæfingu sem kæmi fram í lægri framleiðslukostnaði í Bandaríkjunum.
Fram eftir nítjándu öldinni uxu hratt framleiðslugreinar sem byggðu á háum rannsóknar- og þróunarkostnaði en vegna tækniframfara var líftími afurðanna stuttur miðað við rannsóknar og þróunarskeiðið. Við þessi skilyrði þurfti að selja mikið á stuttum tíma sem þýddi aðgang að stórum alþjóðlegum markaði. Jafnframt eru ýmsar hátæknivörur framleiddar með lækkandi jaðarkostnaði. Hvert nýtt eintak af MS Office pakkanum kostar nánast ekkert í framleiðslu fyrir Microsoft. Nútíma iðnaður krefst því opinna markaða og lágra eða engra tolla.
Rannsóknar- og þróunarstarf er líka mikilvægt fyrir landbúnað en niðurstaðan er nokkuð önnur en fyrir iðnaðarvörur. Markmiðið er yfirleitt meiri stöðlun og nýting aðfanga fremur en nýjar vörulínur. Líftími afurðanna er mjög langur, skeppa af korni er nákvæmlega eins nú og fyrir hundrað árum. Aukin mjólkur- eða kjötframleiðsla kostar ávallt meira af aðföngum, það er jaðarkostnaður er hækkandi. Af þessum ástæðum leggja framleiðendur landbúnaðarafurða yfirleitt mesta áherslu á að halda stöðu sinni á innanlandsmarkaði. Mismunur á framleiðslukostnaði er hins vegar mikill á milli landa og landssvæða. Þetta er ein skýring á lakari árangri WTO viðræðna um tollalækkanir á búvörum heldur en iðnaðarvörum.
Aðgerðir Trumps
Hinn nýkjörni forseti Bandaríkjanna telur sig hafa fundið upp nýtt vopn sem nota má sem einskonar svipu á óþægar þjóðir. Hér er óþægð sama og afgangur á vöruskiptum við Bandaríkin, álagning virðisaukaskatts eða hærri tollar en í Bandaríkjunum. Með hótunum Trumps um háa innflutningstolla á helstu viðskiptaþjóðir er verið að stíga stórt skref afturábak. Stefnt er í hættu árangri á frjálsari viðskiptum sem unnið hefur verið að í áratugi á vettvangi GATT og WTO, reyndar oftast undir forystu Bandaríkjanna. Kínverjar gera rétt í því að kæra til WTO tollaálagningu Trumps en bæði ESB, Kanada og Mexikó vilja svara í sömu mynt. Tollahækkanir geta leitt til verðlækkunar frá framleiðanda en það fer eftir samkeppnisstöðu innflytjenda hver borgar brúsann á endanum. Sennilega munu neytendur í Bandaríkjunum bera kostnaðinn að mestu og er þá vandséð hver ávinningurinn verður sérstaklega þegar verðbólguþrýstingur er talsverður ennþá. Hugsanlega gæti tollastríð haft áhrif á fjármagnsmarkað svo sem umfangsmikil kaup erlendra aðila á ríkisskuldabréfum í Bandaríkjunum. Hvort úr þeim kaupum dregur verður tíminn að leiða í ljós.
Bent hefur verið á að Íslendingar sem eru utan tollabandalags ESB gætu lent í háum tollum ef tollastríð skellur á. Helsta vörnin hér er samstaða með EES-ríkjunum til að tryggja samninga við ESB um tollfrjáls viðskipti. Jafnframt er sjálfsagt að leita til WTO ef illa fer. Gallinn við þá leið er að málarekstur fyrir WTO er flókinn og tekur oft langan tíma þótt einsýnt sé um niðurstöðuna. Vonandi tekst að koma vitinu fyrir Trump og félaga hans svo koma megi í veg fyrir efnahagskreppu sem verður óhjákvæmilega niðurstaðan ef tollastríð hefst.
Athugasemdir