Það sem ég hef lært er að ég á margt ólært.
Að allt sem ég hef lært hafa aðrir lært og reynt líka.
Að mikilvægt er að kunna að aflæra það sem stendur í vegi fyrir manni sjálfum.
Margir hafa niðursoðið lögmál lífsins á einfaldan og auðskiljanlegan máta. Ekki þarf því að leita langt yfir skammt. „Hver er sinnar gæfu smiður“ er ágætis dæmi um lögmál sem stenst skoðun. „Í upphafi skyldi endinn skoða“ er hins vegar tóm tjara. Allt fer eins og það á að fara og því er sjálft ferðalagið ævintýrið en útkoman aukaatriði.
Að mér líður best þegar ég fæst við það sem kveikir í mér hverju sinni því þangað sæki ég kraftinn, sköpunargleðina og lífsfyllinguna.
Að leyfa tilfinningum sem vakna við hvert tækifæri að vísa mér veginn. Ef eitthvað vekur tilhlökkun, gleði og eftirvæntingu þá elti ég það alltaf núorðið án þess að hugsa. Ef neikvæðar tilfinningar eða engin eftirvænting vaknar þá geng ég núorðið frá án þess að hugsa það frekar. Innsæið veit best.
Að heilinn eyðileggur margar góðar hugmyndir með úrtölum og að þær úrtölur eru ekki byggðar á neinu nema lélegu sjálfsmati.
Að þegar manni mistekst þá er einhverjum öðrum að takast eitthvað. Þinn tími þar sem allt gengur að sólu rennur þá bara upp síðar. Mistökum ber að fagna því þau eru bara þroskaskref og þau allra bestu sem við tökum. Að fagna mistökum krefst æfingar en það verður léttara með tímanum og þá er rétta leiðin að hafna þráhyggjuhugsunum með því að semja við heilann um viðtalsbil og láta mótlætið verða hvatningu til að leita annarra leiða og hugsa hlutina upp á nýtt.
Að allt á sér andhverfu sína og er í raun og veru eitt og hið sama. Sorgin og gleðin eru einn þráður þar sem annar endinn er hin þyngsta sorg og hinn endinn hin mesta gleði. Þráðurinn spannar svo allt þetta litróf. Stundum fáum við að upplifa gleðina og stundum sorgina. Stundum hefur lífið boðið mér að halda á báðum tilfinningunum í sömu andrá, það var þá sem ég skildi að sorgin og gleðin eru í raun einn og sami hluturinn og að markmiðið er að geta haldið á þeim báðum samtímis án þess að gera kröfu um að annað sé til án hins.
„Sársaukinn lifir í þér jafnlengi og þú heldur í taugina
Að þegar einhver yfirgefur mann af hvaða sökum sem er og það veldur sorg eða hugarvíli þá er best ef maður getur leyft viðkomandi að ganga alveg frjálsum frá. Sársaukinn lifir í þér jafnlengi og þú heldur í taugina. Slepptu og þá bíður þín frelsið.

Að áföll og þau sár sem þeim fylgja getur maður sjálfur einn grætt. Það kostar erfiðisvinnu sem enginn nema þú getur leyst af hendi þótt ýmsir geti vísað þér veginn.
Að það hefur verið mér mikilvægt að læra að gangast við sjálfri mér með miskunnarlausri sjálfsgagnrýni. Það er sársaukafullt og erfitt, því manns innri skíthæll er ekki sá sem maður vill endilega horfast í augu við. Ef maður hins vegar gerir það á maður léttara með að fyrirgefa öðrum yfirsjónir þeirra. Við erum öll bæði vond og góð. Við erum öll Jesús og Satan.
Að við breytum ekki öðrum. Við getum aðeins borið ábyrgð á því að bregðast við hegðun annarra á þann hátt að það skaði okkur sem minnst og forðað okkur ef svo ber undir.
Að það er ekkert skemmtilegra en að skipta um skoðun, mæli með!
Að það að sitja hjá í mannlegum samskiptum er stundum besta og ódýrasta fríið. Ég vel orrusturnar vel og vandlega núorðið því oft er hjásetan best og hollust manni sjálfum.
Að aldrei skal maður samþykkja að gera neitt sem stríðir gegn betri vitund. Ég vel að standa með sjálfri mér þótt ég uppskeri ekkert annað fyrir vikið. Þegar maður svíkur sinn kjarna og sína trú hefur maður unnið hryðjuverk á sjálfum sér og það er mun erfiðara að bæta en það að verða fyrir einhverju slæmu af annarra völdum.
Að sólin er uppspretta alls lífs á jörðinni og að hún er bensínstöðin mín. Lífsorkan sjálf býr í sólinni og þangað munum við hverfa þegar við nennum ekki lengur að leika okkur á jörðinni. Eilífðin er endalaust unaðslegt sólbað, allt þar til við ákveðum að reyna fyrir okkur í einhverju öðru formi á nýjan hátt í nýjum veruleika.
Að lífið er leikur sem maður þarf að læra að leika sér í. Við höfum alltaf val um það hvernig við spilum þann leik, með viðbrögðum okkar og hvaða vegi við veljum að halda lífshlaupinu áfram á. Erfiðast er að læra að leika sér á þann hátt að það sé manni sjálfum fyrir bestu, sér í lagi þegar maður er ungur. Stundum velur maður afleiki og af þeim má líka heilmikið læra.
Að heilræði skyldi maður gefa sjálfum sér fyrst, reyna svo að fara eftir þeim og aðeins ef það gefst vel bjóða öðrum það sem bjargráð.
Að þegar maður gefur óumbeðin ráð, sérstaklega til sinna nánustu, er það ekki líklegt til vinsælda og yfirleitt bara leið til að bæta eigin samvisku eða líðan og hættan er sú að maður ræni aðra getunni og æsispennandi lífsreynslunni sem felst í því að bjarga sjálfum sér.
Það er yfirleitt það fólk sem öllum öðrum vill bjarga sem ekki getur staðið með sjálfu sér.
Að lokum verð ég að ræða breytingaskeiðið sem ég fullyrði að er vísvitandi markaðssett sem einhver hryllingur til að hræða konur og lama. Breytingaskeiðið er þvert á móti fagnaðarefni, hverju grát- og svitakasti skal fagna sem létti, losun undan ábyrgð, undan sorg, undan þreytu, undan áralöngu álagi.
Að núna 55 ára gamalli finnst mér ég í fyrsta skipti hafa getuna til að hugsa um það hvað MIG langar.
Að núna er tíminn til kominn að vera með faðminn opinn en leyfa uppkomnum börnum að sprikla og hrufla sig í friði.
Að allar ályktanir og skoðanir sem ég mynda mér verða til úr mínu huglæga mati sem byggist eingöngu á öllu því sem lífið hefur boðið mér. Því takmarkast heimsmynd mín og annarra aðeins við eigin huga. Þess vegna veit ég að það sem ég hugsa er oftar en ekki bara þvæla.
Ég hef líka lært að líkaminn geymir ekki bara áföll heldur býr líkaminn yfir greind og viðbragðsgetu sem er mun áreiðanlegri en heilinn og hans skáldskapur.
Það eina sem ég lærði gagnlegt í síðustu viku er að bandið á tepokum er frábær tannþráður!
Athugasemdir