Fyrir nokkrum árum síðan stóð Ragnar Þór Ingólfsson frammi fyrir fólki á baráttudegi verkafólks: „Baráttan sem við stöndum frammi fyrir mun standa og falla með fólkinu. Ekki því hvort einhverjir verkalýðsforingjar geta úðað í sig vöfflum með rjóma út á kinnar,“ sagði hann og boðaði nýjan samfélagssáttmála, „sem við ætlum að bjóða stjórnvöldum og atvinnulífinu sem hafa stigið trylltasta dansinn í sjálftöku og ofurlaunum“.
Það var ekki að ástæðulausu sem hér var lagt upp með nýjan samfélagssáttmála. Laun á Íslandi þykja almennt frekar há í samanburði við Norðurlöndin en þrátt fyrir það er hlutfall heimila sem á erfitt með að ná endum saman hærra hér en þar, sem skýrist af miklum húsnæðiskostnaði, háu verðlagi og lakara velferðarkerfi. Fyrir utan að hér leggjast þrengingar í efnahagslífinu af meiri þunga á heimilin og byrðum er frekar velt yfir á launafólk á meðan fyrirtæki skila auknum hagnaði. Þetta mátti til dæmis sjá eftir efnahagshrunið og aftur á síðustu árum, þegar verðbólga jókst og rekstur íslenskra heimila þyngdist mun meira en annars staðar á Norðurlöndunum. Á síðasta ári áttu 40 prósent heimila erfitt með að ná endum saman.
Það var því ástæða til þess að boða nýjan samfélagssáttmála, sem væri hagstæðari almennu launafólki. Og að því hefur Ragnar Þór unnið síðustu ár.
Þarfnaðist alvarlegrar naflaskoðunar
Einhvers staðar á leiðinni hefur Ragnar Þór hins vegar fallið í þá gryfju sem einkennir oft hugsjónafólk sem kemst í áhrifastöður. Oft á þetta fólk erfitt með að átta sig á því þegar það er sjálft orðið hluti af kerfinu sem það ætlaði að breyta.
Skömmu áður en Ragnar Þór var fyrst kjörinn í stjórn VR setti hann fram harða gagnrýni á að formaðurinn fengi sjö milljóna króna biðlaun þegar hann náði ekki endurkjöri. Benti hann á að það tæki verkamann þrjú ár að vinna sér inn fyrir slíkri upphæð.„Hvernig getur verkalýðsforystan barist á móti ofurlaunum og starfslokasamningum þegar hún er sjálfri sér verst í þeim efnum? Ofurlaun í lífeyrissjóðskerfinu hafa verið mikið í umræðunni enda sitja forkólfar verkalýðsforystunnar þar í stjórnum og ákveða forstjóra og stjórnarlaun,“ skrifaði Ragnar Þór.
„Verkalýðsforystan þarf að fara í alvarlega naflaskoðun“
Á meðal þess sem hann velti upp var hvort eðlilegt væri að semja um starfslok við upphaf starfstíma. „Hvað eru ofurlaun og hvað eru starfslokasamningar?“ spurði hann og bætti við: „Hvar er línan sem skilur á milli?“
Honum virtist misboðið: „Hvað gerir þessa gæðinga að svo miklu betri mönnum en okkur? Af hverju eiga þessir menn svo miklu betra skilið en við hin?“ spurði hann, sem þá starfaði sem sölustjóri í Erninum.
„Verkalýðsforystan þarf að fara í alvarlega naflaskoðun.“
Prinsippmál
Leið Ragnars Þórs lá í stjórn VR og þaðan í formannsstólinn. Á formannstíð sinni hefur hann ítrekað greint frá þeirri ákvörðun að láta lækka eigin laun þegar hann tók við. „Fyrir mér er mikið prinsippmál að skammta sér ekki meira en maður er tilbúinn til að skammta öðrum. Ef maður getur ekki haft þau prinsipp í þessari stöðu þá á maður að fara að finna sér eitthvað annað að gera,“ sagði hann meðal annars í viðtali við DV árið 2017.
Þannig hefur hann komið fram sem maður fólksins. Maður sem er tilbúinn til að undirgangast sömu viðmið og leikreglur og eiga við um almennt launafólk. Maður sem er tilbúinn til þess að færa fórnir í þágu réttlætissjónarmiða.
Hann lét þess þó ógetið að þegar hann tók við formennsku gerði hann nákvæmlega það sama og hann hafði áður gagnrýnt og samdi um biðlaun við starfslok. Það kom því flatt upp á fólk þegar það kom í ljós að þegar hann hætti til að fara á þing þáði hann rúmlega 10 milljóna eingreiðslu frá VR. Hluti upphæðarinnar var uppsafnað orlof en biðlaun námu 7,8 milljónum.
Þegar á reyndi gerði hann nákvæmlega það sem hann hafði áður gagnrýnt aðra fyrir að gera.
Nóg er aldrei nóg
„Trúir því nokkur að Sjálfstæðisflokknum gangi gott eitt til?“ spurði Ragnar Þór.
Stjórnvöld hefðu lítið eitt gert til þess að bæta lífskjör hér á landi, annað en að útþynna loforð, tefja umbætur og koma í veg fyrir samfélagslega mikilvægar breytingar. „Hvenær varð þessi viðurstyggilega breyting að nóg er aldrei nóg fyrir auðstéttina?“
Rétt er hjá Ragnari Þór að hér ríkir misskipting. Ríkustu 10 prósent fjölskyldna eiga 56 prósent af heildareignum heimilanna. Tekjuhæstu 10 prósent fjölskyldna fá 31 prósent af heildartekjum heimilanna. Tekjumismunur leiðir til eignaójafnaðar, arfur dreifist verulega ójafnt og mikill munur er á ávöxtun sparnaðar einstaklinga. Fjármagnstekjur lúta til að mynda lægri skattlagningu en aðrar tekjur.
Ragnar Þór lýsti því einu sinni yfir að hann hefði nú samt skráð sig í Sjálfstæðisflokkinn fyrir pitsu og bjór. Síðan hafi hann verið skráður í flokkinn í þrjá áratugi og tekið þátt í prófkjörum, en verið gagnrýninn á stefnuna.
Tilheyrði tekjuhæsta hópnum
Nú situr Ragnar Þór á Alþingi fyrir Flokk fólksins fyrir 1.856.217 krónur á mánuði. Fyrir utan að þingmenn eiga rétt á endurgreiðslu símakostnaðar, starfs- og ferðakostnaðar.
Og þótt hann hafi lækkað launin sín sem formaður VR var hann ekki á flæðiskeri staddur, með 1,3 milljónir á mánuði. Til að gæta allrar sanngirni voru forverar hans með mun hærri laun að núvirði í sömu stöðu.
Til samanburðar voru regluleg mánaðarlaun fólks í fullu starfi að jafnaði 804 þúsund krónur árið 2023, samkvæmt Hagstofunni. Hæstu launin draga upp meðaltalið og um 65 prósent launafólks nær því ekki. Aðeins 6,7 prósent launþega voru á sömu eða betri kjörum en Ragnar Þór fékk fyrir formennsku VR.
Samhliða því var hann stjórnarformaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna í sex ár. Árið 2023 voru laun stjórnarformanns hækkuð um 48 þúsund krónur á mánuði, upp í 356 þúsund krónur. Launin sem hann þáði fyrir stjórnarformennsku samhliða fullu starfi fyrir VR náðu þá óþægilega langt upp í grunntaxta VR fyrir afgreiðslufólk verslana, sem fær 454 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf.
Þegar launin sem hann þáði, sem formaður stjórnar Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, lögðust ofan á launin sem hann hlaut sem formaður VR, var Ragnar Þór kominn í hóp tekjuhæstu 3,5 prósent launamanna. Vel má færa rök fyrir því að þau laun hafi verið sanngjörn og réttlát miðað við ábyrgð og vinnuálag, en sanngirnin liggur líka í því að Ragnar beiti sama siðferðislega mælikvarða á sjálfan sig og aðra.
Þess má geta að meðaltal heildarlauna sölustjóra eru 932 þúsund samkvæmt launarannsókn VR.
Neyðarsjóður
Ragnar Þór er ekki lengur sölustjóri í Erninum. Hann er ekki heldur lengur í forsvari verkalýðshreyfingarinnar. Hann er kominn í trúnaðarstarf fyrir þjóðina sem alþingismaður, formaður fjárlaganefndar og Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins. Sem slíkur á hann allt undir trausti almennings og trúverðugleika.
Þegar biðlaun Ragnars Þórs rötuðu í fréttirnar réttlætti hann þau með því að framlínufólk verkalýðsbaráttunnar eigi oft erfitt uppdráttar á vinnumarkaði. En það á ekki við um mann sem er nýkjörinn á þing. Ef hann situr út kjörtímabilið á hann síðan rétt á biðlaunum þegar þingsetu lýkur.
„Ég hef bara aldrei heyrt annað eins bull á ævi minni
Ragnar Þór vísaði til þess að hann væri fimm barna faðir og peningarnir færu í neyðarsjóð fjölskyldunnar. „Ég hef bara aldrei heyrt annað eins bull á ævi minni,“ sagði Þorsteinn Skúli Sveinsson, frambjóðandi til formanns VR. Allir geti lent í því að verða atvinnulausir en það væri hlutverk Vinnumálastofnunar að grípa fólk í þeirri stöðu.
Það er allavega ljóst að neyðarsjóður fjölskyldu Ragnars Þórs er mun hærri en almennt tíðkast á meðal launamanna. Á vef Hagstofunnar má sjá almennar upplýsingar um skuldir, eignir og eiginfjárstöðu einstaklinga árið 2023. Bankainnistæður einstaklinga eru að meðaltali 3,2 milljónir króna, samkvæmt tölum Hagstofunnar, en þar hífa auðugustu einstaklingarnir upp meðtalið. Hjón með börn, sem og einstaklingar á aldrinum 50 til 54 ára, eiga að meðaltali rúmlega 5 milljónir króna í innlánum. Það þýðir að Ragnar hefur náð að afla sér hátt í alls sparnaðar venjulegs Íslendings með einum biðlaunapakka, þegar hátekjuskattur hefur verið dreginn frá.
Fordæmalaus gjörningur
Það er vel hægt að setja sig í fótspor fimm barna föður með stúdentspróf, sem komst í áhrifastöðu og sá færi á að tryggja fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar til framtíðar. Það er hins vegar erfiðara að skilja málflutning Ragnars Þórs þegar hann gerir nákvæmlega það sama og hann hefur gagnrýnt aðra fyrir að gera.
Eftir að 10 milljóna króna eingreiðsla til Ragnars Þórs rataði í fréttirnar sendi hluti stjórnar VR frá sér yfirlýsingu. Þar kom fram að það væri einsdæmi að formaður segi starfi sínu lausu til að taka við öðru launuðu starfi og þiggi engu að síður biðlaun. Réttur til biðlauna hafi ekki verið hugsaður fyrir slík tilfelli og framvegis muni biðlaun falla niður hverfi formenn til annarra starfa.
Réttur alþingismanna til biðlauna fellur hins vegar ekki niður nema launin fyrir nýja starfið séu jafnhá, en ella skerðast biðlaunin aðeins sem laununum nemur.
Ragnar Þór þarf því ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni.
Hver eru prinsipp Ingibjargar Daggar ritstjóra og Heimildarinnar?