„24. febrúar er dimmur dagur í sögu Evrópu. Fyrir þremur árum var friður í Evrópu rofinn,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á leiðtogafundi í Kyiv í dag sem haldinn er í tilefni þess að þrjú ár eru liðin frá innrás Rússlands í Úkraínu. Í ávarpinu sagði hún að með innrásinni hefðu Rússar þverbrotið öll alþjóðalög og að sterkari staða Úkraínu væri lykillinn að varanlegum friði.
Kristrún tók í morgun þátt í minningarathöfn um úkraínska hermenn sem hafa fallið í baráttu þjóðarinnar á undanförnum árum. Þá ávarpaði hún leiðtogafundinn en hann sækja leiðtogar Norðurlanda, Eystrasaltsríkjanna, Kanada, Spánar og stofnana Evrópusambandsins sem og forseti Úkraínu, Volodomir Zelensky. Einnig taka á annan tug leiðtoga þátt með fjarfundarbúnaði.
Í ávarpi sínu áréttaði Kristrún eindreginn stuðning Íslands við Úkraínu.
„Orð eru ódýr. Verkin tala. Þess vegna hafa Norðurlönd og Eystrasaltsríkin tekið saman höndum um að styðja áfram við varnir Úkraínu með beinum hætti,” sagði Kristrún sem tilkynnti um að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt að auka stuðning við Úkraínu um 2,1 milljarð króna í ár.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, lagði tillögu þess efnis fyrir ríkisstjórnina sem samþykkti hana fyrir helgi, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu. Með þessari ákvörðun fer varnartengdur stuðningur Íslands við Úkraínu úr 1,5 í 3,6 milljarða á árinu. Þessi hækkun er til þess að Ísland standi undir skuldbindingum sínum, meðal annars þingsályktun Alþingis um stuðning Íslands við Úkraínu frá því í fyrra og á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins síðasta sumar.
„Við Íslendingar erum stolt af framlagi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fara fremst á alþjóðavísu í stuðningi við Úkraínu. Á meðal okkar er full samstaða um að standa þétt með Úkraínu á þessum viðkvæma tímapunkti þegar úkraínska þjóðin heyir varnarbaráttu sem snýr raunverulega að öryggi Evrópu allrar,“ sagði Kristrún í Kyiv.
Athugasemdir