Heiða Björg Hilmisdóttir, nýr borgarstjóri Reykjavíkur, segir að hún hefði kosið með kjarasamningi sem lá fyrir á borðinu, hefði hún verið viðstödd fund ríkissáttasemjara í gærkvöldi. Þetta sagði hún í samtali við blaðamann Heimildarinnar eftir að nýr meirihluti kynnti áherslur sínar í Ráðhúsinu.
„Ég var á fundi í gærkvöldi,“ útskýrði Heiða, spurð hvers vegna hún hefði ekki mætt á fund ríkissáttasemjara við kennara. Á hún þá við að hún hafi verið á fundi meirihlutans í borginni um gerð nýs samstarfssamnings.
„Ég bað varaformann um að hringja í mig ef það yrði atkvæðagreiðsla, en það lá alltaf fyrir að ég hefði samþykkt þennan samning,“ segir Heiða og áréttaði að sú afstaða hefði verið skýr.
Blaðamaður spurði þá af hverju samningnum hefði verið hafnað.
„Ég er bara með eitt atkvæði, hinir voru á annarri skoðun,“ sagði hún og sagði að það hefði ekki breytt niðurstöðunni ef hún hefði mætt á fundinn.
Meirihlutinn kynnti áherslur sínar og kom þá í ljós að Sanna Magdalena verður forseti borgarstjórnar, Líf Magneudóttir, oddviti VG, verður formaður borgaráðs, en mun skipta við Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, þegar tímabil meirihlutans er hálfnað. Helga Þórðardóttir verður formaður skóla- og frístundaráðs og Dóra Björt Guðjónsdóttir verður áfram formaður umhverfis- og skipulagsráðs þar til hún skiptir við Líf.
Um hundrað kennarar voru mættir niður í Ráðhús Reykjavíkur til þess að mótmæla og kölluðu meðal annars fram í þegar Heiða Björg tók við sem borgarstjóri. Þá áréttaði hún afstöðu sína eins og fram hefur komið. Hér fyrir ofan má sjá myndband þar sem Líf Magneudóttir og Helga Þórðardóttir ræddu stuttlega við kennara. Báðar hafa þær einni starfað á þeim vettvangi áður en þær fóru út í stjórnmál.
Athugasemdir