Aukafundur borgarstjórnar Reykjavíkur verður haldinn klukkan 16:40 í dag og verður þá nýr meirihluti og kosið í ráð. Vísir greindi frá því síðdegis í gær að Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar verði kjörin borgarstjóri en það hefur ekki verið staðfest. Heimildin reyndi að hafa samband við hana án árangurs.
Píratar héldu fund í gærkvöldi þar sem nýtt meirihlutasamstarf var kynnt og Samfylkingin heldur samskonar fund um klukkan þrjú í dag. Þá vekur athygli að Heiða Björg á afmæli í dag.
Tvær tillögur liggja fyrir á dagskrá fundarins frá borgarfulltrúum hins nýja meirihluta. Fyrri tillagan snýr að breyttu hlutverki mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs.
Þar er lagt til að borgarstjórn samþykki að sameina málaflokka sem nú heyra undir fjölmenningarráð, öldungaráð og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í nýju mannréttindaráði sem tekur við hlutverki mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs. Forsætisnefnd er falið að vinna nýja samþykkt fyrir ráðið í samráði við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu sem skal lögð fram til samþykktar á fyrsta fundi borgarstjórnar í mars og kemur í stað gildandi samþykkta.
Í seinni tillögunni má einnig finna afgerandi breytingar, en þar er lagt til af nýjum meirihluta, að leysa sitjandi íbúaráð frá störfum og fresta kosningum í ný íbúaráð. Verkefnið var kynnt af Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata, sem leiddi stýrihóp um verkefnið. Einn íbúi var þá slembivalinn inn í ráðið og var um tilraunaverkefni til eins árs að ræða, en rúm fimm ár eru síðan því var komið á laggirnar. Þarna er um afgerandi breytingar að ræða sem eru augljóslega afrakstur samningaviðræðna nýs meirihluta borgarinnar sem mun samanstanda af Vinstri grænum, Sósíalistum, Samfylkingu, Flokki fólksins og svo Pírötum.
Athugasemdir